Það er oft talað um stöðugleika í íþróttum og þá sérstaklega í þolíþróttum. Þessi pistill fjallar örstutt um hvað það þýðir að halda stöðugleika í æfingum og af hverju það er svona mikilvægt.
Consistency is key
Þrátt fyrir að mér finnist ekkert sérstaklega skemmtilegt að sletta á ensku þá er þessi fyrirsögn mun betri en "lykillinn leynist í stöðugleikanum" eða "stöðugleiki er styrkur". Væri alveg til í að heyra góðar íslenskar útgáfur.
Það er fátt sem er mikilvægara en stöðugleiki í æfingum ef við viljum ná árangri sem hlauparar. Til að átta okkur betur á því hvað stöðugleiki þýðir er gott að hugsa um hvernig við lærum nýtt tungumál. Best er náttúrulega að flytja til landsins og vera eins mikið í kringum innfædda og hægt er en venjulega aðferðin er að æfa sig nokkrum sinnum í viku í 30-60 mínútur. Þegar við náum því, þá koma framfarirnar jafnt og þétt. Um leið og við missum út eina til tvær vikur þá fer okkur mikið aftur. Að sama skapi er ekki betra að vera í kennslustofu í sex klukkutíma á dag þar sem að heilinn nær ekki að meðtaka allt sem fór fram. Hlaupin virka svipað enda er þetta bæði álag á líkamann og líkaminn bregst við álagi með því að aðlagast svo lengi sem álagið er hóflegt (of mikið álag veldur varnarviðbrögðum hjá líkamanum.) Stöðugleikinn fæst með því að ná allavega þremur til fjórum æfingum á viku sem þurfa ekki að vera of langar í senn.
Of mikið álag veldur varnarviðbrögðum hjá líkamanum.
Ef við gefum eftir í of langan tíma, þ.e. hvílum okkur of lengi eða mætum ekki á æfingar, þá missum við formið. Þetta þýðir í sumum tilvikum að við þurfum að byrja aftur á byrjunarreit, því það tekur líkamann ekki nema tvær vikur af algjöru hreyfingarleysi að missa formið það mikið niður að það taki hann fjórar til átta vikur að komast í sama form og fyrir hvíldina. Slíkt viljum við ekki að gerist nema tvisvar til þrisvar sinnum á ári og það köllum við hvíldartímabil sem vara þá í 10–21 dag í senn.
Stöðugleiki í æfingum er lykilforsenda fyrir því að við getum byggt ofan á það sem við höfum nú þegar lagt í grunninn. Óstöðugar æfingar með reglulegum 1-2 vikna hvíldum allt árið um kring munu ekki leiða af sér mikinn árangur en stöðugleiki í nokkra mánuði í senn mun hjálpa til við að taka framfarastökk ár eftir ár.
Þegar við tölum um stöðugleika í æfingum erum við því að meina hversu margar vikur í röð okkur hefur tekist að ná allavega þremur til fjórum æfingum. Klassísk spurning til hlaupara þegar maður vill forvitnast um stöðuna er þess vegna "hvernig hefur gengið að halda stöðugleikanum?" en þetta er partur af orðaforða hlauparans því hlauparar vita að enginn stöðugleiki þýðir engar framfarir.
Comments