Vikan ætti í rauninni að vera átta dagar þegar maður pælir í því. Byrja á hvíldardegi, aðeins til að stilla af hvað maður ætlar að gera og svo hvíla sig í lokin þegar heimurinn er tilbúinn.
Að minnsta kosti viljum við muna eftir því að hvíla okkur, annars endum við einfaldlega í meiðslum, ofþjálfun eða hvoru tveggja. Spurningin er bara hversu alvarleg meiðslin og ofþjálfunin verða. Þau sem taka eingöngu þvingaðar hvíldir vegna meiðsla eða ofþjálfunar eru ekki með langtíma nálgun á þjálfun og myndu ná mun betri árangri ef rétt væri staðið að þjálfuninni, svo ekki sé talað um hversu miklu betur þeim myndi líða andlega. Áður en ég byrja að aðstoða einhvern er mikilvægt að vita hversu langt er síðan viðkomandi tók alvöru hvíldartímabil. Enn og aftur, ef við erum bara að æfa einu sinni í viku þá er ekki þörf á því að taka sérstakt hvíldartímabil en gott að hugsa þá hversu langt sé síðan þú tókst alvöru hvíld frá vinnunni þinni.
Til að kveðja meiðsli og ofþjálfun verðum við því að temja okkur rétta hugsunarháttinn:
"Við munum ná að æfa allt æfingatímabilið og svo hvílum við okkur á hvíldartímabilinu."
Ef við gerum ráð fyrir meiðslum eða öðrum áföllum, þá aukum við ósjálfrátt líkurnar á þeim. Verum frekar bjartsýn og skynsöm og náum að æfa með góðum stöðugleika og þá vitum við að á eftir kemur gott hvíldartímabil.
Upphafið og endirinn
Hvíldartímabilið er upphafið og endirinn á öllum æfingatímabilum! Þetta er óumsemjanlegt og eitthvað sem við ættum að taka sem gefnum hlut. Ástæðan fyrir því að hafa það í byrjun en ekki í lok æfingatímabilsins er að það er mjög mikilvægt að líkaminn sé ferskur og úthvíldur í upphafi hvers æfingatímabils. Áður en við byrjum að mála myndina viljum við hafa strigann alveg auðan, þannig stjórnum við því betur hvernig útkoman verður. Þess vegna er ekki mælt með því að stunduð sé önnur hreyfing eins og sund eða hjól á hvíldartímabilinu heldur gefum við líkamanum og taugakerfinu alveg frí.
Ef æfingaþörfin er alveg að taka yfir á hvíldartímabilinu eru samt nokkrar leiðir til að fá útrás.
Jóga
Heitur eða kaldur pottur
Gufubað
Sjósund
Teygjuæfingar
Samhæfingaræfingar
Hot-jóga
Nuddrúlluæfingar
Náladýnuæfingar
Ef þú vilt vinna í styrknum er líka í lagi að taka léttar styrktar- og lyftingaæfingar til að vinna upp eitthvað af vöðvaniðurbrotinu sem hefur orðið yfir keppnistímabilið. Best er þó að sleppa þessu alveg og gefa hausnum og líkamanum alveg frí.
Verðlaunum okkur
Á hvíldartímabilinu gefst kjörið tækifæri til að verðlauna sig. Þetta er einnig mikilvægt að gera þó að aðalkeppnin hafi ekki gengið fullkomlega upp. Við viljum ekki gera þau mistök að refsa okkur af því að keppnin gekk illa – slíkt endar bara með meiðslum, meiri vonbrigðum og andlegum leiðindum sem eru líklegri til að láta okkur hætta í því sem við erum að gera frekar en að hvetja okkur til frekari dáða.
Comments