top of page
Writer's pictureArnar Pétursson

Ken Ya feel it!

Loksins mættur aftur í háfjallaæfingabúðir. Rúm þrjú ár síðan ég hafði síðast færi á því að koma hingað til Iten í Kenía að æfa og já I can feel it.

Iten, the home of champions

Fyrstu dagarnir

Iten er í um 2400 m hæð yfir sjávarmáli sem þýðir að loftið hérna er þynnra en við þekkjum á Íslandi. Með öðrum orðum, þá er lengra á milli súrefnissameinda þannig að við náum ekki inn eins miklu súrefni í hverjum andardrætti. Þetta gerir alla hreyfingu sem er lengri en 30 sekúndur mun erfiðari en venjulega (það er nefnilega hægt að spretta hraðar því loftið er þynnra og loftmótstaðan þess vegna minni). Skokkið og allar æfingar verða þar af leiðandi mun hægari en venjulega og það getur tekið á stoltið en eftir nokkra daga byrjar maður aftur að fara örlítið hraðar yfir.


Það er rosalega mikilvægt að fara ekki of geyst af stað í svona aðstæðum. Bara það að vera í hæðinni gefur okkur miklar framfarir þar sem núna fær líkaminn boð um það að við séum ekki með nægilega mikið af rauðum blóðkornum því við erum ekki að ná inn jafn miklu súrefni og venjulega. Það eru einmitt þessi áhrif sem við erum að leitast eftir. Að líkaminn framleiði fleiri rauð blóðkorn, og þá verðum við betri að flytja súrefni sem þýðir að við getum hlaupið hraðar við minni áreynslu.


Stundum kemur tilfinnining að þetta séu bara þeir hæfustu sem lifa af þegar horft er á æfingar hjá kenískum hlaupurum.

Ég tók ekki fyrstu gæðaæfinguna fyrr en á degi sex en fram að því var mikið um rólegt skokk og labb. Núna fyrstu sjö dagana af æfingum er ég samt sem áður kominn með um 200 km af skrefum í hlaupi og slatta af labbi. Næstu þrjár vikurnar koma fleiri gæðaæfingar en mikilvægt er að hlusta á líkamann og taka sér hvíldardaga inn á milli.

Rétt áður en lagt er af stað í fartlek

Hlaupamenning

Ég er oft spurður að því af hverju Kenía er með svona marga góða hlaupara og það er auðvitað ekkert eitt rétt svar í því en ég held að hlaupamenningin er það sem telur mest. Það er rosalega mikil hefð fyrir hlaupum, margir hafa náð árangri og þetta er leið út úr fátækt. Það mætti segja að nánast allir hér á þessu svæði í það minnsta, prófi allavega hlaup og sjái hvort það sé eitthvað sem hentar. Ég myndi samt seint segja að hérna væru allir að æfa eins rétt og mögulegt er. Þetta minnir oft á þeir hæfustu lifa af þegar lagt er af stað í fartlek æfingar á þriðjudögum og fimmtudögum.


Mér finnst einmitt hlaupamenningin á Íslandi alltaf að verða flottari og betri. Bæði eru hlauparar orðnir mun meðvitaðari um hvernig á að æfa rétt en svo eru alltaf fleiri sem finna hvað þetta er góð hreyfing til að grípa í þegar það er mikið að gera annarsstaðar.


Það er mjög gaman að fá aftur andann yfir sig sem kemur hérna í Kenía eftir þriggja ára fjarveru. Bæði að sjá gæðin og fjöldann af hlaupurum en líka að komast í aðstæður þar sem ekki er allt til alls og minna sig á að við höfum það ansi gott á Íslandi, þótt að vindurinn, hliðarrigningin og endalausi veturinn séu vissulega í mínus uppáhaldi.




Comments


bottom of page