top of page

Klæðnaður á hlaupum

Við búum á Íslandi, það eigum við flest sameiginlegt sem lesum þetta. Það vill svo skemmtilega til að hérna er veðrið bókstaflega allskonar og þetta getur haft mikil áhrif á hvernig við klæðum okkur og þá sérstaklega á hlaupum.


Ég hef lifað einföldu lífi í æfingabúðum þar sem veðrið er svo til eins alla daga. Það þýðir að klæðnaðurinn fyrir æfingar er eins alla daga, stuttbuxur og stuttermabolur og stundum bara annaðhvort. Á Íslandi er þetta sjaldnast svona heldur þurfum við að hugsa hlutina aðeins lengra.

Hvenær fáum við 400 m grashlaupabraut á Íslandi?

Mig langaði að skrifa nokkra pistla um hvað ber að hugsa um þegar við erum að klæða okkur fyrir hlaup því þetta getur skipt miklu máli hversu gaman er á æfingunum og hversu miklum árangri við náum.


Hvað þarf að hugsa um?

Það er mjög eftirminnilegt í covid þegar allt var lokað og úti var sól, frost en samt logn og ég á leiðinni á erfiða gæðaæfingu. Þegar ég var að velja í hverju ég ætti að fara þá þurfti ég að hugsa um frekar margt:

  • Þegar ég byrja verður kalt

  • Þegar ég er upphitaður verður mér orðið hlýrra

  • Á gæðunum í æfingunni verður mér ennþá hlýrra

  • Undir lokin í erfiðasta kaflanum verður mér mögulega mjög hlýtt

  • Í lokin eftir æfinguna í niðurskokkinu verður mér mögulega kalt

Hvaða samsetningu af fötum ætti ég að velja? Á endanum tók það mig 30 mínútur að setja saman rétta klæðnaðinn sem samanstóð af 18 mismunandi ákvörðunum ef ég tek með að velja hvaða úr, hvaða heyrnartól og hvaða sólgleraugu ég ætti að nota.

Því miður er þetta stundum raunveruleikinn á Íslandi en það sem var jákvætt við þetta er að æfingin gekk eins og í sögu og mér varð aldrei of hlýtt eða of kalt. Sem betur fer eru ekki margir svona dagar en það eru alltaf einhverjir hlutir sem við viljum hugsa um þegar við klæðum okkur fyrir næsta hlaupatúr. Ef við náum valdi á að átta okkur á rétta klæðnaðinum fyrir mismunandi aðstæður eru miklu meiri líkur á að eiga góða æfingu og líða vel á meðan.


Næstu pistlar munu fara yfir klæðnað á hlaupum og hvernig við getum látið hann hjálpa okkur frekar en aftra. Í millitíðinni er gott að spá í því hvort við séum oft að lenda í því að verða allt of heitt eða allt of kalt þegar við förum út að skokka ofurhægt.

Comments


bottom of page