top of page

Toppað á réttum tíma

Updated: Feb 26, 2022

Margir vilja æfa allan ársins hring og vera alltaf nálægt sínu besta formi. Í rauninni er það stundum þannig að við þorum ekki að „detta úr formi“ af ótta við að komast ekki aftur í sama standið. Það er vissulega gott markmið að reyna að vera alltaf í góðu formi en maður verður að átta sig á því að ekki er hægt að vera í svokölluðu toppformi allt árið um kring. Þannig virkar líkaminn ekki.

Ef við ímyndum okkur vaxtarræktarkeppanda, þá vitum við að hann er bara nokkrum sinnum á ári uppi á sviði að keppa. Á þessum keppnisdögum er hann búinn að tæma vatnsbúskapinn og allir vöðvar eru eins sjáanlegir og mögulegt er. Þetta ferli tekur tíma og ekki hægt að viðhalda því mjög lengi án þess að það hafi neikvæð áhrif á líkamann. Á öðrum tímapunktum yfir æfingatímabilið getur holningin verið töluvert frábrugðin því sem sést á sviðinu, því þá er verið að byggja upp vöðva. Svipaða sögu er að segja með hlaupara. Það er ekki hægt að vera í sínu allra besta formi alla daga ársins. Vandinn við hlaupara er að við sjáum ekki endilega utan á þeim hvort þeir eru í toppformi eða ekki. Hjá hlaupurum gerist þetta mest allt innra með okkur.


Af hverju toppum við bara í skamman tíma í einu?

Í fyrsta lagi þurfum við að vera með ákveðinn ferskleika í líkamanum. Ferskleiki í líkamanum er annað hugtak yfir að það vera úthvíld, með fullar orkubirgðir og engar harðsperrur. Til að vera úthvíld þá minnkum við álagið en ef við minnkum æfingaálagið í of langan tíma, fer líkaminn að venjast því og hættir að taka framförum.

Í öðru lagi er það þannig að þegar við keppum og gefum gjörsamlega allt sem við eigum í keppnina, þá tekur það bæði á líkamann og taugakerfið, svo það eru takmörk fyrir hversu oft á æfingatímabilinu við getum farið í slíka ákefð áður en taugakerfið hættir að svara með nægilega góðum hætti. Þetta er tilfinning sem lýsir sér þannig að það er eins og það slokkni á okkur á æfingu eða í keppni. Þess vegna þurfum við í undirbúningi fyrir stór hlaup að passa okkur á að fara ekki of oft í aðstæður sem krefjast hámarksálags á taugakerfið. Til að mynda segir Eliud Kipchoge, heimsmethafinn í maraþoni, að hann reyni aldrei meira en 90% á sig á æfingum, því hann er að spara 100% frammistöðu fyrir stóru keppnina. Í kjölfarið tekur hann svo alltaf tveggja vikna hvíldartímabil til að leyfa líkama og haus að jafna sig.

Ef við viljum toppa á réttum tíma og halda áfram að bæta okkur þá eru nokkrir hlutir til að muna eftir.

  • Byggjum tímabilið rétt upp.

  • Höfum keppnistímabilið ekki lengra en 2-8 vikur.

  • Tökum hvíldartímabil eftir keppnistímabilið.

bottom of page