Ég hef áður sagt að hvíld sé forsenda framfara. Þetta á í rauninni við um allt sem við viljum verða betri í, hvort sem það er að baka kökur eða hlaupa í hringi. Við þurfum alltaf að gefa líkamanum og heilanum færi á því að taka inn bætingarnar og jafna sig eftir átökin. Daglega hvíldin er mikilvæg í formi svefns en svo er líka gott að taka reglulega hvíldartímabil. Svipað og þegar við tökum okkur sumarfrí frá vinnunni, sama hversu skemmtileg vinnan er.
Hverjir þurfa á hvíld að halda?
Augljós merki um að þurfa hvíld er þegar við erum hætt að sjá framfarir milli mánaða, þegar við eigum erfitt með að taka rólegar æfingar og þegar löngunin til að æfa er nánast alveg farin.
Á minni skala rifjast upp fyrir mér þegar ég var yngri og að æfa nýja driplæfingu í körfuboltanum. Ég vildi alls ekki hætta fyrr en ég hafði náð fullkomnu valdi á æfingunni. Þannig þrjóskaðist ég áfram allt of lengi en að sama skapi náði ég ekki almennilegu valdi á æfingunni, svo var æfingin búin og ég fór heim. Þegar heim var komið prófaði ég aftur og núna voru augljósar framfarir. Bara hvíldin á milli þess að koma sér heim af æfingu var nóg svo að líkaminn og sérstaklega heilinn gæti tekið inn bætingarnar. Þetta hjálpaði mér mikið í framhaldinu og í staðinn fyrir að neita að hætta þegar eitthvað er ekki að ganga, tek ég mér miklu frekar pásu og kem svo ferskur aftur að viðfangsefninu.
Það eru samt ekki bara þau sem eru nú þegar lent á vegg sem þurfa að taka hvíld. Það getur líka allt verið í blóma og samt verið nauðsynlegt að taka hvíld. Til dæmis eftir að við klárum gott maraþon eða höfum verið að æfa samfellt í 6-9 mánuði af miklum krafti og þar sem síðustu mánuðirnir hafa verið með mikið af keppnum. Þótt keppnirnar hafi allar verið að ganga vel er eingöngu tímaspursmál hvenær það kemur í bakið á okkur að taka enga hvíld. Á svona tímum er líka mikið andlegt álag búið að vera á líkamanum og við þurfum reglulega að leyfa hausnum aðeins að hvíla sig, sama hversu skemmtilegt okkur finnst að æfa eða vinna í ákveðnu verkefni.
Á þetta við um þig?
Mig langaði að setja nokkra punkta hérna sem hægt er að skoða og ef þessir punktar eiga við þig gæti verið sniðugt að taka hvíldartímabil.
Ertu nýbúin/n að klára maraþon eða keppni sem er svipað erfið og maraþon?
Ertu búin/n að æfa af miklum krafti í meira en 6 mánuði?
Ertu búin/n að keppa af miklum krafti þar sem byggist upp mikil mjólkursýra í meira en 10 vikur?
Langar þig til að sleppa því að mæta á æfingar sem þér fannst gaman að mæta á fyrir nokkrum mánuðum síðan?
Ertu hætt/ur að taka framförum á milli mánaða?
Ertu að eiga við erfið og langvarandi eymsli eða meiðsli?
Reynirðu að finna aðrar ástæður fyrir ástandinu heldur en að þú þurfir hvíld? Hugsarðu til dæmis um að þú þurfir bara að æfa af meiri krafti, að þú þurfir að breyta næringunni eða að þú þurfir bara aðeins að léttast?
Það eru auðvitað til fleiri ástæður til að taka sér hvíld en þessar eru með þeim algengari. Síðasta ástæðan er líklega skýrasta merkið um að hvíld sé nauðsynleg. Það er nefnilega allt of algengt að fólk sem er á leiðinni í ofþjálfun sjái allt annað en hvíld vera lausnina.
Ef þér finnst allt annað en hvíld koma til greina til að bæta ástandið er það mjög skýrt dæmi um að hvíld gæti einmitt verið lausnin.
Gott er að muna að leiðin að langtíma árangri er ekki þannig að við eigum alltaf að æfa á fullu. Best er að byggja tímabilið upp með réttum hætti og passa að leyfa líkamanum að aðlagast með eðlilegum hætti. Það er svo hægt að lesa meira um hvíldina og hvíldartímabilið í eldri pistlum.
Comments