top of page

Af hverju að taka sér hvíld?

Það er auðvelt að gleyma sér í að hugsa um hvaða æfingaaðferðir séu bestar til að ná árangri. Hversu margar endurtekningar gefa mest eða á hvaða ákefð ætti að æfa. Eðlilega hugsum við meira um það hvað á að gera á æfingunum sjálfum heldur en fyrir utan þær. Réttu æfingarnar eru jú stærsta forsendan fyrir því að halda áfram að taka framförum. Því miður er það samt þannig að þótt við séum að æfa eins rétt og hægt er þá mun það alltaf leiða af sér meiðsli eða stöðnun ef við gleymum hvíldinni.

Hvað gerir hvíld?

Ég mun tala hérna um hvíld í samhengi við hlaupin eða árangur í íþróttum. Samt er auðveldlega hægt að yfirfæra þetta á daglegt líf eða vinnuna.

Að gera ekki neitt er ekki að gera ekki neitt.

Þegar við viljum ná árangri eða komast lengra hugsum við auðvitað mest um hvað við þurfum að gera, hverja við þurfum að hitta og hvað þarf að klára. Þannig að það getur verið erfitt að sjá fyrir sér að liggja kyrr eða að hætta að æfa sem skref í átt að árangri. Þá getur verið hjálplegt að temja sér hugsunarháttinn að það að gera ekki neitt er alls ekki að gera ekki neitt. Þetta er nauðsynlegur þáttur í því að halda áfram að ná framförum og ekki síst að halda áfram að hafa gaman af því sem við erum að gera. Alveg eins og fegurðin gerir fjöllin blá, þá fyllir hvíldin á andlega orku sem gerir okkur kleift að halda áfram að leggja hart að okkur þegar við hefjum æfingar aftur. Eru ekki sumarfrí annars næs?


Hvíldartímabilið

Ég skipti tímabilinu mínu upp í fasa og það hefur hjálpað við að taka hvíldinni alvarlega. Þetta er því ekki eitthvað sem ég hef val um að gera heldur er þetta nauðsynlegur partur af keðjunni svo hún haldist sterk.


Í ár setti ég mér mjög metnaðarfullt markmið um að vinna bæði Laugaveginn og Reykjavíkurmaraþonið. Laugavegurinn gekk nánast fullkomlega upp og ég kom fyrstur í mark en vikurnar eftir það voru virkilega þungar. Mér fannst ég ekki ná takti í æfingum og gat því ekki æft neitt svakalega vel fyrir Reykjavíkurmaraþonið heldur var þetta meira spurning um að halda sér við. Ég fann að andlega orkan var nánast uppurinn og hvíldartímabilið var farið að líta aðeins of vel út. Út af þessu upplifði ég maraþonið sem lengsta maraþon sem ég hef hlaupið (ekki hjálpaði veðrið heldur). Á endanum gekk þetta hinsvegar upp og ég kom fyrstur í mark eftir að hafa tekið þetta sem mjög taktískt hlaup. Eftir Reykjavíkurmaraþonið var hvíld það eina sem komst að.

Margir héldu að ég væri að fagna sigri en þetta er maður sem er að fagna því að vera kominn í hvíldartímabil.

Það er gott að vita af því hversu miklu máli hvíldin skiptir því það auðveldar mér að leyfa mér að æfa ekki. Í hvíldinni leyfi ég andlegu orkunni að koma hægt og rólega og er ekki að flýta mér að hoppa inn í næsta tímabil fyrr en ég finn aftur fiðringin fyrir því að byrja að æfa.


Að lokum er gott að minna sig á að það er alltaf betra að taka eina viku auka í hvíld, frekar en að fara einni viku of snemma af stað.

bottom of page