top of page

Skynsemi eða skemmtun?

Updated: Feb 26, 2022

Ég legg mikið upp úr því að gera hlutina eins skynsamlega og hægt er. Þannig að við forðumst meiðsli og ofþjálfun en náum samt eins miklum framförum og hægt er. Hin hliðin á peningnum snýr svo að því að hafa hlutina eins fjölbreytta og þar af leiðandi eins skemmtilega og hægt er. Þegar allt er eins og það á að vera haldast þessir hlutir vel í hendur. Stundum koma síðan hugmyndir sem eru allt annað en skynsamlegar og þá þarf maður að spá í hversu skemmtilegar þær gætu orðið.


63.3 kílómetrar með sjö vikna undirbúningi

Á dögunum var það ljóst að Íslandsmótið í heilu og hálfu maraþoni yrði haldið sama daginn en á venjulegu ári væru þessi hlaup haldin í sitthvoru hlaupinu til að gefa öllum kost á að hlaupa í báðum hlaupunum. Það var eitthvað við þessa hugmynd að reyna við bæði á sama deginum sem gaf mér fiðring í magann og ég ákvað kýla á þetta. Þrátt fyrir að vera nýbúinn í þriggja vikna hvíldartímabili og líkamlega alls ekki eins vel undirbúinn og best væri á kosið. Ég ákvað því að leyfa skemmtuninni að gilda en með það í huga að næsta stóra hlaup hjá mér væri ekki fyrr en í febrúar á næsta ári.

Keppnisdagurinn

Bæði hlaupin gengu svo í rauninni eins vel og hægt var að búast við. Ég fékk með mér fjölskyldu og vini til að hvetja og var með 10 brúsa og gel á drykkjarstöðvunum. Ég hafði aldrei hlaupið svona langt en þetta var andlega auðveldara en ég bjóst við. Líka þegar orkan kláraðist eftir 59km og það hægðist verulega á mér, sem má þakka góðum stuðningi í brautinni. Þetta var þvílíkt skemmtileg lífsreynsla sem ég tek með mér í næstu maraþonhlaup og minningar sem ég tek með mér alla ævi.

Það er ekki hægt annað en að gefa allt sem maður á þegar hvatningin er svona

AfleiðingArnar

Ég lagði mikla áherslu á að ná mér í góðan styrk með lyftingum fyrir hlaupið svo líkaminn gæti tekið á móti höggunum. Þetta reyndist vera góð ákvörðun því aðeins fimm dögum eftir hlaupið var ég laus við öll eymsli eftir hlaupið. Tíu dögum seinna var ég byrjaður að taka millirólegar æfingar og núna rúmlega tveimur vikum seinna er ég mættur í æfingabúðir þar sem 50 km eru komnir í bankann á fyrstu 24 klukkustundunum. Líkaminn er því að koma gríðarlega vel undan þessu álagi en ég hef líka verið mjög skynsamur með æfingar eftir hlaupið og passað mig að gera ekki of mikið of snemma. Þannig var ég rólegur alla síðustu viku þrátt fyrir að líða mjög vel í líkamanum. Ég mæli ekkert svakalega með því að skella sér í svona álag en ef við gerum það þurfum við að vera viss um að þetta sé alvarlega skemmtileg lífsreynsla og svo að hugsa einstaklega vel um að vera skynsöm í endurheimtinni.

bottom of page