top of page

Hvað er hvíld?

Updated: Feb 26, 2022

Það skiptir ekki máli hversu skemmtilegt eitthvað er, við þurfum alltaf að fá reglulega hvíld ef við viljum halda áfram að taka framförum og hafa gaman til lengdar. Þetta á sérstaklega vel um hlaupin og hreyfingu almennt.

Hreyfing er eitthvað sem á að fylgja okkur alla ævi. Okkar verkefni er svo að finna hverskonar hreyfingu við höfum gaman af. Þegar við erum búin að æfa samfleytt í 5-12 mánuði er nauðsynlegt að taka gott hvíldartímabil til að gefa líkamanum smá frí og endurstilla hausinn.


Þegar Reykjavíkurmaraþoninu var aflýst þá lá beinast við hjá mér að taka mér hvíldartímabil enda búið að vera óvenju langt og strangt tímabil. Það er mikilvægt að hafa í huga að við þurfum ekki að taka sérstakt hvíldartímabil ef við höfum ekki verið að leggja okkur mikið fram síðustu mánuðina. Hvíldin á að koma eftir að við höfum verið í góðu álagi í dágóðan tíma.


Hvað er hvíld?

Ég er oft spurður að því hvort ég hvíli alveg eða hvort ég fari bara þá og hjóli eða syndi í staðinn. Það ætti að vera nokkuð augljóst að hjól og sund er ekki beint hvíld en þetta eru svosem eðlilegar spurningar.

Fyrir mér er hvíld að taka eitt, tvö og jafnvel þrjú skref frá því sem þú elskar að gera. Hugsa um eitthvað allt annað og gera í rauninni allt öðruvísi en ég myndi gera rétt fyrir stórt hlaup. Þetta getur verið eins og að hætta að passa upp á mataræðið og svefninn, sleppa því alveg að æfa og bara leyfa kæruleysinu aðeins að taka yfir. Þarna gefum við hausnum alveg frí og að sama skapi leyfum líkamanum að vera bara allskonar.

Kraftur hvíldarinnar

Þegar við tökum svona hvíld og gerum hluti sem við værum ekki að gera venjulega þá er það nánast undantekningalaust að eftir 7-14 daga sem við upplifum ákveðinn söknuð í hreyfinguna sem við elskum. Í kjölfarið erum við þá þvílíkt spennt að byrja aftur að æfa, komast í góða rútínu og helst æfa samfleytt í 5-12 mánuði áður en það er nauðsynlegt að taka hvíld aftur. Það er þess vegna hvíldin sem gefur kraftinn til að geta haldið áfram að taka framförum, forðast meiðsli og finnast gaman að leggja hart að sér.


Comentários


bottom of page