top of page
Writer's pictureArnar Pétursson

Þetta er alltaf maraþon

Stundum er sagt að einhver sé fæddur til að spila ákveðna íþrótt, oft vegna hæðar eða ákveðinna líkamstilburða. Í langhlaupum er það sjaldnast tilfellið þótt að vissulega hjálpar til við að vera létt á fæti. Leiðin að árangri í úthaldsíþróttum á sér alltaf langan aðdraganda og er þolinmæði því eitthvað sem er nauðsynlegt til að geta bætt þolið - ákveðið orðagrín þarna.

Í fyrsta lagi tekur það mörg ár að byggja upp úthaldsgrunninn sem er forsenda til að sjá árangur í langhlaupum. Hvernig við byggjum upp þennan grunn getur hinsvegar verið mjög fjölbreytilegt en mikil hreyfing er alltaf undirstaðan. Sama hvort hún kemur frá miklum fótbolta, hjóli, sundi, hlaupi í skólann eða bara frá því að vera úti að leika allan daginn. Þannig heyrir maður stundum sagt (frá langhlaupurum) í frjálsum íþróttum: „Sprinters are born, distance runners are made.“


Halda bara áfram

Í mörgum sprengikraftsgreinum geta genatengdir eiginleikar skipt sköpum, til að mynda náttúrulega hátt hlutfall af stuttum vöðvaþráðum. Það getur hjálpað til við að auka sprengikraft og gert íþróttamanni kleift að ná óvenju skjótum árangri vegna yfirburða í genasamsetningu. Að sama skapi er ekki hægt að kenna einhverjum að vera 210 cm í körfubolta. Erfðafræðilegir þættir gegna því oft stóru hlutverki í mörgum íþróttagreinum á meðan þolinmæði skiptir líklega hvað mestu máli í langhlaupum. Að sjálfsögðu eru ákveðnir erfðafræðilegir þættir sem hjálpa til við að verða góður langhlaupari, en það eru mun fleiri sem ná góðum árangri í hlaupum eingöngu með því að hafa stöðugleika í æfingum yfir langan tíma.

Sprinters are born, distance runners are made.

Við alla markmiðasetningu í langhlaupum skiptir miklu máli að átta sig á því hversu stóran úthaldsgrunn við höfum því hann segir til um hversu hratt árangurinn getur komið. Ef enginn grunnur er til staðar má búast við því að það líði allt að 10–14 ár áður en bestu tímarnir í hlaupunum detta inn. Þessi ár þurfa að vera þannig að við náum stöðugum æfingum og heilum æfingatímabilum en ekki eingöngu að árin líði, því ef við erum meidd helming tímans tekur þetta að sjálfsögðu lengri tíma. Án stöðugleika breytist lítið sem ekkert í líkamanum, því hann er alltaf bara að aðlagast sama álaginu aftur og aftur.

Þannig að þegar við veltum fyrir okkur hvenær við toppum í langhlaupum, þá fer það mikið eftir því hvenær við byrjum. Þegar við tölum um að toppa, er átt við besta árangurinn sem við náum yfir ævina. Sú sem byrjar að hlaupa reglulega 30 ára (án þess að hafa stundað einhverja hreyfingu áður) toppar mögulega þegar hún er 45 ára en sá sem byrjar 15 ára toppar mögulega 35 ára, en þetta fer þó eftir því hve mikil vinna hefur verið lögð í hlaupin.


Hafa gaman

Þótt það taki okkur langan tíma að ná okkar besta árangri, þýðir það samt ekki að við náum engum árangri fram að þeim tímapunkti, aðeins að það tekur tíma að ná öllu út úr líkamanum. Tíminn fram að því á samt að vera fullur af gleði og bætingum en á einhverjum tímapunkti hættum við að geta bætt okkur og því er mikilvægt að njóta litlu framfaranna á leiðinni á toppinn.

Stephen Kiprotich

Einn besti langhlaupari allra tíma og fyrrum heimsmethafi í 5.000 m, 10.000 m, maraþoni, Eþíópíumaðurinn Haile Gebrselassie, sagði eitt sinn við Stephen Kiprotich þegar hann var aðspurður um lykilinn að árangri að hann þyrfti að leggja á sig fimm ár af stífri hlaupaþjálfun áður en hann gæti séð alvöru árangur. Rúmum fimm árum seinna varð Kiprotich Ólympíu- og heimsmeistari í maraþoni. Þegar árangurinn í langhlaupum lætur á sér standa er gott að hafa í huga að árangur í langhlaupum er langhlaup. Eða eins og stundum er sagt: Þetta er ekki spretthlaup, þetta er maraþon.


Hver æfing í skammdeginu telur tvöfalt.

Með því að temja okkur þolinmæði og stöðugleika í æfingum er ekkert sem segir að við getum ekki náð okkar markmiðum. Þessi hugsunarháttur hjálpar ekki bara í æfingum fyrir hlaup heldur líka þegar við tökumst á við hvers konar verkefni í lífinu.

Í lokin langar mig að hvetja sem flesta að halda hreyfingunni inni í rútínuninni yfir jól og áramót svo við séum ekki að byrja á núllpunkti um miðjan janúar. Hver æfing í skammdeginu telur tvöfalt.

Comments


bottom of page