Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í hlaupunum fékk ég oft að heyra að ég væri með svo góðan grunn. Í framhaldinu heyrði ég reglulega hlaupara tala um hvað grunnurinn væri mikilvægur og hvað þessi eða hinn hefðu ekki stóran eða ekki nægilega stóran grunn. Að sjálfsögðu vakti þetta forvitni mína svo ég ákvað að fræðast aðeins meira um grunninn.

Hvað er grunnurinn?
Allir hafa heyrt að á sandi byggði heimskur maður hús og flest skiljum við af hverju hann væri talinn heimskur. Sandur er ekki mjög stöðugur grunnur og því ólíklegt að húsið muni standa lengi. Stundum föllum við samt í þessa gryfju, hvort sem það er í hlaupum eða til að setja í annað samhengi, markaðssetningu.
Við getum talað um grunninn yfir langan tíma og svo yfir skamman tíma eins og eitt tímabil. Þau sem eru með góðan grunn í heildina eru þau sem hafa verið í íþróttum sem krakkar sem krefjast mikillar hreyfingar og hafa þar af leiðandi æft hjartað meira en meðalmaðurinn. Þannig á grunnurinn við um alla hreyfingu sem við höfum stundað yfir ævina. Þegar við tölum um grunninn í samhengi við eitt æfingatímabil þá segjum við að við séum að vinna í grunninum. Þetta er þá fyrri hluti æfingatímabilsins þegar það er mikið af rólegum og millierfiðum æfingum. Þessar æfingar setja litla mjólkursýru í líkamann en hjálpa okkur við auka úthaldið og undirbúa okkur fyrir erfiðari æfingar síðar á tímabilinu.
Það skiptir að sjálfsögðu miklu máli að hafa bæði góðan grunn í heildina og að vinna vel í grunninum fyrir hvert æfingatímabil ef við viljum ná miklum árangri og forðast meiðsli. Þetta er eins og öll fyrirtæki vilja hafa reglulega markaðssetningu á fyrirtækinu til að vekja markaðsvitund og svo þegar þau vilja kynna ákveðna vöru þá geta þau byggt á þessum grunni og fengið ennþá betri viðbrögð. Í staðinn fyrir að hafa aldrei markaðssett sig og ætla svo allt í einu að ýta vöru upp að fólki. Hljómar auðvitað einfalt en margir hunsa að vinna í grunninum og að vera meðvituð hversu mikið heildar grunnurinn segir til um mögulegan framtíðarárangur.
"Núna erum við búin að leggja grunninn að því að skilja grunninn en við köfum dýpra í grunninn í næstu pistlum."
Comments