Hlaup eru fjölbreytt
- Arnar Pétursson

- Nov 10
- 2 min read
Áður en ég byrjaði í hlaupum og var í körfubolta og fótbolta var ég handviss um að hlaup væru einhæfasta íþrótt sem til er. Það var kannski ein af stærstu ástæðunum fyrir því af hverju ég prófaði ekki hlaup af neinu viti sem krakki. Eina sem ég þekkti var að þegar það var hlaup á dagskrá þá var það eins hratt og ég gat.

Einhæfni er leiðinleg - fjölbreytni er skemmtileg
Ef við værum alltaf að gera sama hlutinn aftur og aftur gefur það auga leið að gleðin gæti farið dvínandi með tímanum. Það að ég hafi núna æft og þjálfað hlaup í 14 ár gefur til kynna að fjölbreytnin sé meiri en ég bjóst við í upphafi. Í rauninni er þessi einfalda íþrótt það flókin að hlauparar þreytast ekki að tala um allt sem tengist hlaupum.
Þegar að fólk er ekki ennþá komið upp á lagið með að æfa hlaup er það oftast vegna þess að það er ekki búið að tækla æfingarnar með réttum hætti. Þá er fólk að lenda í því að æfingarnar séu eiginlega alltaf eins. Þarna kemur aftur einhæfnin inn í jöfnuna. Myndin hérna fyrir neðan setur breitt bil af æfingaákefð í annað samhengi en hún sýnir hvernig við viljum ná yfir allt frá mjög rólegu skokki og alveg upp í hámarksákefð á æfingum með reglulegu millibili. Það er því miður allt of algengt að hlauparar séu aðeins að æfa á litlu hraða- og ákefðarbili og gleyma þá oftast að fara nógu rólega og í hámarksákefð. Við förum yfir breitt bil af æfingaákefð til að halda fjölbreytni og gleði í æfingum en líka til að ná í eins miklar framfarir og hægt er.

Hvernig dreifum við álaginu?
Svo getum við horft á þjálfunarpýramídann til að leiðbeina okkur með það hversu miklum tíma við viljum eyða á hverju bili fyrir sig. Það er ekki þannig að við erum jafn mikið í ofurrólegum æfingum og að taka hámarksákefðar spretti. Myndin hér fyrir ofan sýnir meira að við viljum tikka inn í öll kerfin með reglulegum hætti. Ekki festast í einu bili.
Til að við áttum okkur á muninum á ákefð og hraða þá er hægt að fara tiltölulega hægt en vera á hámarksákefð. Til dæmis þegar við hlaupum upp mjög bratta brekku, þá förum við hugsanlega tiltölulega hægt áfram en erum á hámarksákefð. Til að verða góður langhlaupari skiptir meira máli að vera reglulega á hámarksákefð heldur en hámarkshraða. Hámarkshraði á við um hámarkshraða okkar á flötu undirlagi sem við getum aðeins haldið í örfáar sekúndur, sem sagt mesta mögulega hraða sem við getum hlaupið á. Ef við erum of mikið á slíkum hraða aukast meiðslalíkur þannig að fyrir langhlaupara skiptir ákefðin meira máli en hraðinn sem slíkur.
Þessi stutta hugleiðing er meira til að minna okkur á að halda fjölbreytninni því það getur gerst að við festumst í sama farinu og þá er gott að spyrja sig hvort við séum nýlega búin að fara mjög hratt eða mjög hægt. Ef ekki, gæti vel verið hægt að sækja nýjar bætingar með því að taka æfingar á öðruvísi ákefð en hingað til.






Comments