top of page

Hæfilega stressaður hlaupari

  • Writer: Arnar Pétursson
    Arnar Pétursson
  • Oct 3
  • 5 min read

Stundum heldur fólk að mér finnist ekkert mál að mæta á ráslínuna í hlaupum, eins og þetta sé bara auðvelt og þægilegt en sú er alls ekki raunin. Það er oft sem ég upplifi mikið stress fyrir hlaup og finn alveg fyrir pressunni sem getur myndast þegar það er stórt markmið framundan. Það sem hefur helst breyst hjá mér síðustu ár er að ég lít ekki neikvæðum augum á þessar tilfinningar. Þetta er partur af því að reyna á sig, setja sér markmið og vera ekki sama um niðurstöðuna. Í rauninni eru það forréttindi að fá að upplifa þessa tilfinningar en við viljum líka læra að láta þær vinna með okkur en ekki á móti.

ree

Hæfilegt stress

Ef stressið er of lítið mætum við ekki tilbúin til leiks, of mikið stress og við förum yfir um. Það er því hæfilegt magn af stressi sem getur gert okkur gott en þetta hafa rannsóknir margsýnt fram á. Það er ákveðin keppnisspenna sem fær okkur til að einbeita okkur að öllum litlu hlutunum án þess að ofhugsa þá, lætur vöðvana svara rétt og gerir okkur kleift að reyna meira á okkur en venjulega. Þetta er þegar við náum að komast í ákveðið flæði þar sem hreyfingar verða áreynslulausar og okkur líður eins og við séum á sjálfstýringu þótt við séum að reyna eins mikið á okkur og við getum.


Stress og vonbrigði eru nátengd, ef það er ekkert stress erum við sjaldnast líka fyrir vonbrigðum eftir hlaupið. Þegar við reynum að ná árangri í einhverju, þá er mun líklegra að það takist ef okkur er annt um verkefnið. Þegar við verðum fyrir vonbrigðum eða upplifum stress er það því merki um að okkur sé ekki sama og það er gott. Ef við upplifum engin vonbrigði þegar verkefni gengur ekki upp, ættum við að velta því fyrir okkur af hverju við erum að eyða tíma í þetta yfirhöfuð. Ef vonbrigðin gera það hins vegar að verkum að við erum ekki viðræðuhæf í marga daga eftir verkefnið, þá þurfum við líka að endurskoða okkar nálgun því þetta mun aldrei ganga til lengdar. Hæfilegt stress er því nauðsynlegt en hvernig finnum við þessa blöndu?

 

Fyrir keppnishlaup eykst oft stressið mikið.
Fyrir keppnishlaup eykst oft stressið mikið.

Hvað skal forðast?

Það er engin ein nálgun sem hentar öllum þegar kemur að andlegri heilsu eða andlegri nálgun á hlutina. Það er samt nokkuð auðvelt að benda á tvær nálganir sem munu ekki virka og við ættum að forðast eftir fremsta megni. Í fyrsta lagi er það að horfa bara á eitt markmið sem á að uppfylla alla okkar drauma og þrár. Við þurfum að vita hvað við ætlum að gera eftir að þessu markmiði er náð, því heimurinn mun halda áfram að snúast sama hversu hratt við hlaupum í næsta hlaupi. Leggjum því aldrei of mikla áherslu á eitt markmið. Reynum að minna okkur sem oftast á að það er heildar ferðalagið sem skiptir máli. Í öðru lagi, ef okkur er alveg sama um það sem við erum að gera, þá munum við aldrei leggja nógu mikið á okkur og þar af leiðandi aldrei ná þeim árangri sem við erum fær um að ná. Það er því svo til alveg tilgangslaust að setja sér markmið sem gefur okkur ekki smá fiðring í magann. Þegar við upplifum að markmiðið sé mögulega ekki að kitla nógu mikið þá má alveg fara í smá æfingu og rifja upp alla hlutina sem markmiðið getur gefið okkur. í svona æfingu má telja upp ALLA hluti, sama hversu stórir eða litlir þeir eru. Allt sem stækkar tilganginn hjálpar. Hérna eru nokkur dæmi:

  1. Ef ég næ þessu markmiði mun ég verðlauna mig með því að gera X

  2. Ef ég held áfram að mæta á æfingar er ég góð fyrirmynd fyrir vini og fjölskyldu.

  3. Ef ég næ markmiðinu er líklegra að aðrir í kringum mig fari að stunda hreyfingu.

  4. Ég ætla ekki að kaupa mér X fyrr en ég klára markmiðið.

  5. Með því að klára markmiðið þá hjálpar það mér að klára aðra erfiða hluti í vinnunni.

  6. Ef ég klára markmiðið verð ég mjög glaður.

  7. Þegar ég klára markmiðið þá ætla ég ALDREI að gera þetta aftur - virkar oftast þannig að okkur langar svo beint í að gera þetta aftur þegar við klárum ;)

Svo er hægt að telja endalaust áfram.


Ef markmiðið eru endastöðin

Að vera saddur af árangri er eitthvað sem getur komið fyrir íþróttamenn eins og alla aðra í lífinu. Íþróttamaður sem hefur náð öllum sínum markmiðum getur orðið saddur og þannig misst viljann til að halda áfram að leggja á sig allt erfiðið sem er nauðsynlegt. Þegar við hugsum um íþróttamanninn sem hefur náð öllum sínum upphaflegu markmiðum höldum við að hann sé ótrúlega ánægður með sitt líf. Því miður er raunveruleikinn ekki alltaf svoleiðis. Þegar við einbeitum okkur bara að hverju markmiði fyrir sig, þá gleymum við okkur og missum heildarsýnina á ferðalagið en hún er það sem skiptir mestu máli (er ég fyrsti maðurinn til að fatta þetta...). Áður en við vitum af er ferillinn búinn og við gleymdum að brosa. Sama getur gerst í starfi þar sem það eina sem við hugsum um er að borga upp lánið okkar, skila næsta verkefni og missa ekki vinnuna í staðinn fyrir að njóta dagsins og samneytis við vinnufélagana. Það er því ekki samasemmerki á milli þess að ná markmiðum og að vera ánægður með sjálfan sig og gleði trompar árangur alla daga vikurnar.

 

ree

Öll markmið eru vörður, ekki endastöð

Það kannast margir við það að síðustu vikurnar áður en við reynum að ná stóru markmiði eru mjög erfiðar andlega og því fylgir oft mikið stress. En vikurnar 10–12 á undan voru ótrúlega skemmtilegar og gefandi. Það kemur svo líka fyrir að við náum markmiðinu en erum síðan fyrir vonbrigðum með að ánægjan sé ekki nógu mikil eða nógu langvarandi.


Stærsta breytingin sem ég gerði í minni andlegri nálgun var að hugsa hvernig ég gæti lengt þennan skemmtilega fasa og gert síðustu vikurnar part af skemmtilegasta fasanum svo að spennustigið væri sem best. Í stuttu máli fólst það helst í því að breyta sýninni á markmiðin og sjá fyrir mér hver væri raunverulegi tilgangurinn með hlaupunum. Í staðinn fyrir að setja efst á fjallið einhvern ákveðinn tíma þá eru þarna allt aðrir hlutir. Þetta getur verið betri heilsa, meiri vellíðan, ýta öðrum áfram, vera meira til staðar fyrir fjölskylduna og allskonar litlir hlutir sem við gleymum stundum að hugsa um en er partur af því sem heilbrigð nálgun á hreyfingu gefur okkur. Öll tíma- og árangursmarkmið eru bara vörður á leiðinni. Þetta er ekki endastöðin og þess vegna er minna undir í hverju og einu hlaupi sem hjálpar til við að stilla spennustigið rétt.


Það er því gott að skoða við og við hvernig við erum að horfa á hreyfinguna og markmiðin okkar. Erum við að leggja of mikla áherslu á endastöðina og erum við kannski að gleyma því að setja meiri tilgang á bak við hreyfinguna okkar. Því meiri tilgangur því meiri meðvindur og já hlauparar elska meðvind.


 
 
 

Comments


bottom of page