top of page

Markmiðið er að hafa gaman

Updated: Feb 25, 2022

Markmið geta hjálpað okkur að halda áfram þegar hlutirnir verða andlega erfiðir. Þau ættu samt ekki að vera upphafið og endirinn á öllu. Það segir sig sjálft að sú sem hefur ekkert markmið í hlaupi er miklu líklegri til að hægja á sér þegar hún verður þreytt heldur en sú sem ætlar að ná ákveðnu markmiði.


Markmið, sama hversu lítil þau eru, geta ýtt okkur áfram þegar við þurfum mest á því að halda. Þau eru þessi rödd aftast í hausnum á okkur sem ýta okkur á æfingu þegar við viljum helst bara vera góð við okkur. Markmið eru samt tvíeggja sverð, því of háleit markmið geta auðveldlega skapað vanlíðan sem auka líkurnar á að við hættum, því enginn nennir að upplifa stanslaus vonbrigði til lengdar. Raunhæf markmið skipta miklu máli en vegna innbyggðrar sjálfsmyndarbjögunar eigum við einstaklega erfitt með það og þess vegna getur verið gott að ráðgast við þjálfara eða fólkið í kringum okkur þegar við setjum okkur markmið.



Sjálfsmyndarbjögun og bjartsýnisbjögun eru ákveðnar atferlisskekkjur sem flest fólk býr yfir. Þetta birtist þannig að við sjáum okkur í betra ljósi en raunveruleikinn segir til um, við gerum hærri væntingar til okkar en er raunhæft. Þetta er ákveðin sjálfsbjargarviðleitni, því einstaklingar sem hafa ekki þessa bjögun eru oft á tíðum greindir þunglyndir eða eru þeir sem ná mestum árangri. Þetta birtist hjá þeim bestu í heimi sem innbyggð rödd sem segir að þeir þurfi alltaf að gera aðeins betur og aldrei sé nóg gert. Þú setur heimsmet en vilt samt hlaupa aðeins hraðar. Fyrir venjulegt fólk er því oft erfitt að átta sig á því af hverju þeir sem hafa nú þegar náð ótrúlegum árangri og eiga alla peninga heimsins eru ennþá að leggja sig fram eins og skepnur í staðinn fyrir að slaka bara á. Þeir sem gætu verið greindir þunglyndir því þeir hafa ekki þessa sjálfsmyndarbjögun eru hugsanlega þeir sem hafa ekki jafn mikið til brunns og bera. Þá, þegar þeir sjá sig eins og annað fólk sér þá getur því verið skiljanlegt að líðanin sé ekki sú besta. Orðatiltækið forna, að við sjáum flísina í augum annarra en tökum ekki eftir bjálkanum í eigin auga, á hérna vel við. Við eigum auðveldara með að meta hvernig aðrir standa sig en við sjálf.


Einföld leið til að koma til móts við þessa innbyggðu atferlisskekkju, sem við flest öll lifum við, er að setja sér mörg markmið fyrir hvert verkefni og vera meðvituð um hvert og eitt markmið en ekki bara horfa á það metnaðarfyllsta, því það er að öllum líkindum það óraunhæfasta. Myndin hérna fyrir neðan sýnir þetta ágætlega. Fyrir hlaupara sem langar að komast undir 40 mínútur í 10 km en er núna við 45 mínútur, þá ætti fyrsta markmiðið að vera að bæta sig um eina sekúndu og hlaupa á 44:59, næsta markmið væri að komast undir 44, svo 43 og 42, draumamarkmiðið væri svo að komast undir 40 mínútur en þá þyrfti allt að ganga upp. Með því að vera jafnvel með fimm markmið fyrir eitt hlaup, þá hámörkum við líkurnar á að ná einhverju þeirra og lágmörkum líkurnar á vonbrigðum. Ef eina markmiðið er að fara undir 40 mínútur verða 44 mínútur vonbrigði þrátt fyrir að það sé hraðasta 10 km hlaupið á ævinni. Það er því ekkert einfaldara en að setja sér of háleit markmið og verða fyrir vonbrigðum. Við getum eflaust öll litið í kringum okkur og bent á einhvern sem náði góðum árangri en var ekki sátt, því hún bætti sig ekki nógu mikið. Verum ánægð með allar bætingar og setjum okkur raunhæf markmið.


Seinni myndin hérna fyrir neðan sýnir muninn á tveimur einstaklingum sem hafa mismunandi nálganir við markmiðasetningu en ná hins vegar alveg sama árangrinum tímalega séð, þ.e.a.s. þeir koma á sama tíma í mark í öllum hlaupum sem þeir taka þátt í yfir allan ferilinn. Munurinn er hins vegar sá að B setti sér raunhæfari markmið og var þess vegna alltaf að ná sínum markmiðum á meðan A varð fyrir stöðugum vonbrigðum þar sem hans markmið voru of háleit. Þótt B nái aldrei draumamarkmiðinu sínu, þá veldur það ekki vonbrigðum, því hann er meðvitaður um að þetta er draumamarkmið. Þar sem hann hafði tvö önnur markmið og raunhæft fyrsta markmið um að bæta sig bara um eina sekúndu, þá er allur árangur umfram það bónus. A setti sér hins vegar bara eitt markmið og vegna sjálfsmyndarbjögunar er þetta markmið of háleitt og ætti að vera draumamarkmið en ekki bara eina markmiðið. Ef við förum lengra með þetta dæmi, þá er ekki erfitt að ímynda sér B ánægðan allan ferilinn og tilbúinn að setja meiri tíma og púður í sínar æfingar, en A missir hægt og bítandi áhugann og hættir að öllum líkindum að stunda íþróttina. Það skiptir því miklu máli að setja markmiðin okkar þannig upp að við hámörkum líkurnar á ánægju og lágmörkum líkurnar á vonbrigðum og það besta er að þetta er allt saman í höfðinu á okkur svo við getum stjórnað þessu sjálf ef við erum meðvituð um hvernig við setjum upp markmiðin.



Comentarios


bottom of page