top of page

Hvað er Hvíldartímabilið langt?

Updated: Feb 26, 2022

Ég er að taka þriggja daga föstu til að enda þriggja vikna hvíldartímabil, en hvað á almennt hvíldartímabilið að vera langt?

Engin hvíld engin gleði

Lengd hvíldartímabils ætti að lágmarki að vera 7 dagar og helst ekki meiri en 28 dagur. Þetta er nægur tími til að líkaminn nái að laga alla þá litlu kvilla sem kunna að hafa verið að plaga okkur yfir keppnistímabilið eða hafa komið til eftir að við kepptum í stóru keppni æfingatímabilsins, til að mynda maraþoni. Að sama skapi gefur þetta taugakerfinu smá tíma til að endurræsa sig en við eigum oft erfitt með að átta okkur á stöðunni á taugakerfinu og undirmeðvitundinni.


Ef við höfum verið að glíma við ofþjálfun getur mánuður án hreyfingar verið nauðsynlegur svo líkaminn geti komið sér í ástand þar sem hann er aftur tilbúinn að taka við álagi. Þetta er meðal annars vegna þess að taugakerfið er líka búið að vera útþanið í langan tíma. Ef við byrjum æfingatímabilið of snemma þá mun taugakerfið reyna að slökkva á líkamanum aftur til að verja okkur frá því að fara aftur í sama ofþjálfunarástandið. Þetta birtist í því að æfingar sem áður voru léttar verða mjög erfiðar.


Hvíldartímabilið er einnig tími þar sem við tökum okkur andlegt frí og höfum ekki áhyggjur af því að mæta á æfingar eða að hafa mataræðið fullkomið. Þetta er nauðsynlegt svo við getum mætt með ferskan líkama og sterkan haus í komandi æfingar. Margir hafa áhyggjur af því að missa niður formið og eiga svo erfitt með að komast aftur á sama stað og áður en hvíldin var tekin. Myndin hérna fyrir neðan sýnir að ef við hvílum í tvær vikur þá höldum við samt yfir 95% af hlaupagetunni. Það tekur okkur svo bara um 4-8 vikur að komast aftur í sama formið og svo getum haldið áfram að taka framförum, og meiri framförum en ef við hefðum ekki tekið neina hvíld.

Hvíld er meira en ekki neitt

Þau sem kunna að taka hvíld munu taka meiri framförum og líða betur yfir allt árið. Ég man að ég var smá smeykur við að taka mitt fyrsta hvíldartímabil en í kjölfarið átti ég mitt besta hlaupaár og hef náð að forðast meiðsli allan minn hlaupaferil. Hvíld er miklu meira en að gera ekki neitt. Það er best að líta á hvíldina sem órjúfanlegan part af því að líða vel til lengri tíma. Þá fær hvíldin meiri tilgang og okkur líður betur með að hvíla.


Prófaðu að spyrja þig hvenær þú tókst þér alvöru hvíld frá æfingum eða vinnunni þinni?

bottom of page