top of page

Hvernig notum við stílspretti?

Updated: Feb 26, 2022

Best er að hafa sem mestan tilgang á bakvið flestar æfingar sem við tökum. Auðvitað er hægt að ná fínum árangri með því að gera einfaldlega eitthvað, en því ómarkvissari sem æfingarnar eru, því fyrr hættum við að taka framförum.

Því ómarkvissari sem æfingarnar eru, því fyrr hættum við að bæta okkur.

Þar sem stílsprettir eru einhver einfaldasta leiðin til að taka framförum er mikilvægt að fara yfir hvernig við getum notað þá sem best.


Í rólega skokkinu

Þegar við erum fyrst að fara af stað í hlaupunum getur verið mjög gott að taka fjóra til átta stílspretti í lokin á mjög rólegu skokki. Þá virkjum við fleiri vöðvaþræði, æfum hlaupahagkvæmnina og svo er það líka bara mjög skemmtilegt að fara aðeins hraðar svona rétt í lokin.


Í upphitun

Áður en við byrjum á gæðunum á æfingunni er gott að taka tvo til fjóra stílspretti. Þetta gerum við til að finna góðan hlaupastíl og setja eins mikið af súrefni í blóðið í vöðvunum og við getum. Alls ekki fara of hratt í þessum stílsprettum heldur reyna meira bara að auka hraðann í hverjum og einum.


Í langa túrnum

Í miðjum löngum túr eða í lokin á löngum túr er gott að taka stílspretti til að æfa líkamann að sækja orku í stuttu vöðvaþræðina eftir að vera bara búinn að nota langa vöðvaþræði fram að þessu. Þetta setur lítið auka álag á líkamann en hjálpar okkur í lokin á löngum keppnum að hafa lyklana að orkunni sem þarna leynist.


Eftir gæðaæfingar

Í lokin á erfiðum æfingum erum við oft ekki að vinna með besta hlaupastílinn. Þess vegna er gott að láta líða tvær til fimm mínútur eftir síðustu endurtekninguna og taka svo nokkra stílspretti til að festa í vöðvaminninu góðan hlaupastíl og að æfa okkur að halda nokkuð góðum hraða með þreytu í líkamanum. Þetta má samt aldrei verða of erfitt heldur á okkur að líða vel í þessum stílsprettum. 

Þetta er aðeins örstutt yfirlit yfir hvernig hvernig getum notað stílspretti en síðar förum við dýpra í hvern og einn þátt. Næsta skref er hinsvegar að tileinka sér stílspretti og bæta þeim hægt og bítandi inn í þínar hlaupaæfingar.

Comments


bottom of page