top of page

Hvað eru stílsprettir?

Updated: Feb 26, 2022

Eitt af markmiðum með þessum hlaupaskrifum er að tryggja að við fáum alltaf sem mest út úr öllum æfingum. Bara alveg eins og við viljum alltaf fá greitt fyrir átta tíma ef við vinnum í átta tíma. Þess vegna hamrar maður svo oft á því að taka rólega skokkið nógu hægt, því ef við förum of hratt er það eins og að vinna í tíu tíma en fá bara greitt fyrir átta. Það eru því engar aukabætingar sem við fáum, heldur erum við bara að gera okkur erfiðara fyrir. Rólega skokkið er líka einfaldasta leiðin til að sjá framfarir í þoli, næst auðveldasta leiðin er að taka við og við stílspretti (e. strides).


Stílsprettir

Nafnið stílsprettir er um leið mjög lýsandi og villandi. Fyrri hlutinn er fínn en við erum að hugsa um að vera með flottan hlaupastíl í þessum sprettum en í rauninni eru þetta ekki sprettir eins og við erum vön að hugsa um spretti. Þetta er því ekki sprettur frá fyrstu sekúndu heldur erum við að auka hraðann jafnt og þétt, mun meira eins og hraðaaukning. Í flestum tilvikum eru stílsprettirnir í kringum 20 sekúndur og þá eru það bara síðustu 3-4 sekúndurnar þar sem okkur líður eins og við séum að spretta, en samt þannig að við gætum alveg vel farið hraðar ef við þyrftum (hugsaðu ljón að elta þig). Fram að því er þetta hæg aukning á hraða.


Þegar við klárum hvern stílsprett viljum við líka hægja á okkur mjög rólega, alls ekki reyna að bremsa eins hratt og við getum því það veldur bara óþarfa álagi. Það gæti því tekið okkur alveg 10 sekúndur að hægja á okkur þangað til byrjum að labba eða stoppum alveg. Stílsprettir eiga alltaf að vera frekar áreynslulausir en þó þannig að okkur líði eins og við séum að fara hratt síðustu 3-4 sekúndurnar. Oftast erum við að vinna með 1-1,5 mínútna hvíld á milli stílspretta en það má labba, skokka eða stoppa alveg í hvíldinni. Mikilvægt er að hafa í huga að áður en við förum af stað í hvern stílsprett á andardrátturinn að vera rólegur. Við eigum aldrei að vera andstutt í byrjun á stílspretti, þá er betra að taka lengri hvíld á milli.

Þetta er því ekki sprettur heldur mun meira eins og hraðaaukning.

Þegar við byrjum að hreyfa okkur er svakalega mikilvægt að ná góðu valdi á rólega skokkinu og í framhaldinu getum við þá byrjað að bæta inn stílsprettum í æfingarnar. Saman eru þessir tveir þættir líklega einfaldasta leiðin til að bæta bæði þolið og hlaupastílinn án þess að setja of mikið álag á líkamann.



bottom of page