top of page

Hvað á ég að hugsa um í stílsprettum?

Updated: Feb 10, 2022

Þegar við köfum dýpra í hlutina koma oft nýir vinklar í ljós. Í sinni einföldustu mynd eru stílsprettir einfaldlega þannig að við aukum hraðann úr rólega skokki jafnt og þétt í 20 sekúndur þannig að síðustu 3-4 sekúndurnar eru nokkuð hraðar en samt þannig að okkur líði vel. Með því að fylgja þessum leiðbeiningum færðu yfir 90% af öllum þeim framförum sem felast í stílsprettum.

Prótein beint eftir æfingar en dæmi um aukahlut sem hjálpar okkur að taka framförum.
 

Hérna köfum við aðeins dýpra til að nálgast 100%.


Ekki vera andstutt þegar við leggjum af stað

Við viljum nánast aldrei taka stílspretti þegar við erum ennþá andstutt. Þá eigum við á hættu að vera að gera of mikið, byggja upp sýru og ekki ná að vinna í að bæta hlaupastílinn. Venjulega erum við með í kringum eina mínútu á milli stílspretta en það er í góðu lagi að taka allt að tvær mínútur á milli. Ef við þurfum meira, þá ættum við að sleppa því að taka stílsprettina þennan daginn því það er greinilega of mikil þreyta í gangi.

Förum frekar upp brekkur

Það er betra að taka stílsprettina upp brekku til að minnka höggin á fæturna og um leið styrkja fæturna. Ennþá betra er að taka stílspretti upp grasbrekkur eða malarbrekkur til að minnka höggin enn frekar.


Hægjum rólega á okkur

Þegar við klárum stílsprett er þetta ekki keppni í því að hægja eins hratt á okkur og við getum, það setur bara óþarfa álag á líkamann og er meira merki um að við höfum verið að fara of hratt því við erum bara að hugsa um að byrja að hvíla okkur fyrir næsta. Reynum miklu frekar að hægja rólega á okkur. Það er í lagi að vera alveg 10 sekúndur að hægja á okkur þangað til við erum komin aftur í mjög rólegt skokk.

Hugsum um hlaupastílinn

Mikilvægast af öllum aukahlutunum er að hugsa um hlaupastílinn í stílsprettunum. Þetta er vegna þess að stílsprettirnir eru kjörin aðferð til að breyta og bæta líkamsmeðvitundina og þar af leiðandi hlaupastílinn. Það er hægt að hugsa um hundrað og einn hlut sem tengist hlaupastílnum en við viljum bara hugsa um einn hlut í einu í hverjum stílsprett til að byrja með. Þá bætum við tengingu líkamans við þennan eina hlut hægt og bítandi. Nokkrir hlutir til að hugsa um eru til dæmis:

  • Að sveifla höndunum kröftuglega aftur.

  • Að láta fingur snerta mjaðmabein þegar við sveiflum höndum aftur.

  • Að vera eins upprétt og við getum.

  • Að klára spyrnuna frá jörðinni alveg í gegn, þannig að við finnum að stóra táin sé síðasti hluti líkamans sem fer af jörðinni.

Til viðbótar eru að sjálfsögðu fullt af hlutum en best er að fá einhvern til að horfa á okkur hlaupa sem getur bent á ákveðna þætti sem við þurfum að vinna í og þá er hægt að sníða stílsprettina að því.

Gott er að hugsa um að nota hendurnar ennþá meira í stílsprettum.


Ekki vanmeta hvað stílsprettir geta gert fyrir þig því þarna leynast oft miklar framfarir. Rólega skokkið og stílsprettir eru einfaldasta leiðin til að taka framförum en þessir þættir tengjast líka ótrúlega mikið. Til dæmis ef þér finnst rólega skokkið vera erfitt, þá þýðir það að þú sért að fara of hratt á þeim æfingum og þú ættir mögulega að prófa að labba í staðinn. Að sama skapi ef það kemur kvíðatilfinning fyrir stílsprettum þá er það augljóst merki um að þú sért að fara of hratt í þeim. Þá er í besta lagi að hægja á sér eða lengja hvíldina á milli.


Okkur á að líða vel þegar við tökum rólega skokkið og stílspretti. Það þarf sem betur fer ekki endilega að vera svona svakalega erfitt að bæta þolið. Læt þetta annars gott heita af skrifum um stílspretti í bili, nema þættinum berist ver orðuð bréf sem vilja vita meira.

bottom of page