top of page

Hlauptu fyrst upp í móti

Ég reyni alltaf að hafa hlaupin og æfingarnar eins skemmtilegar og hægt er. Því ef það er ekki gaman þá nennum við aldrei að gera eitthvað til lengri tíma. Eins og flestir hlauparar vita eru róleg skokk langstærsti hlutinn af æfingunum. Þessar æfingar eru auðveldar og á færi allra en það sem skilur á milli þeirra sem taka jöfnum framförum og þeirra sem standa í stað er oft á tíðum nennan. Einfaldlega að nenna að fara út eða á brettið og taka rólega skokkið. Það skiptir því miklu máli að finna leiðir sem láta okkur nenna rólega skokkinu.

Fyrst upp og svo niður

Ein leið sem mér hefur fundist hjálpa mikið er að byrja að hlaupa upp í móti og taka svo seinni hlutann niður í móti. Þá hleyp ég oftast leið sem er fram og til baka. Þótt það geti þá verið aðeins erfiðari í fyrri hlutanum þá upplifi ég hvert skref upp í móti sem tvö skref niður í móti, því allt sem fer upp verður að koma niður. Þannig er það frítt að fara niður en kostar að fara upp. Þegar ég er hálfnaður með æfinguna og kominn á toppinn, þá er í rauninni eina sem er eftir að láta þyngdaraflið taka mig niður. Í staðinn fyrir að upplifa að æfingin sé 40 mínútur af rólegu skokki þá er hún bara 20 mínútur rólega upp brekku og svo læt ég mig fljóta niður brekkuna til baka. Með því að setja æfinguna svona upp er hún allt í einu orðin helmingi styttri sem hjálpar mér að nenna út um dyrnar.

Útsýnið gefur

Það er oft algjör snilld að taka rólegar æfingar í fjöllum eða upp langar hæðir. Þá fáum við verðlaun í hverju skrefi í formi ennþá betra útsýnis. Eina sem við þurfum að hugsa sérstaklega vel um þegar við tökum fyrri hlutann upp brekkur er að fara nógu rólega. Í fjallgöngu er það auðvelt og þá einfaldlega löbbum við, sama hvert getustigið er. Þegar við erum í aflíðandi halla getur stundum verið erfitt að átta sig á réttu ákefðinni en ef okkur finnst við þurfa að labba þá er það í góðu lagi. Miklu frekar að fara of hægt heldur en of hratt. Svo getum við hugsað um að þótt við löbbum upp brekkuna þá munum við skokka niður til baka.


Þegar nennan er ekki upp á marga fiska og það eru bara brekkur úti um allt þá er alltaf best að byrja að fara upp í móti og leyfa sér svo að fljóta niður brekkuna til baka. Hugsaðu um 40 mínútna æfingu sem 20 mínútna rólegt skokk upp í móti og þá færðu nennuna til að halda stöðugleikanum í æfingunum sem er forsenda fyrir framförum í langhlaupum.

Comments


bottom of page