top of page

Hlauptu á móti vindinum

Á Íslandi er vindur. Þetta eru kannski ekki stærstu fréttir heimsins en samt kemur þetta land okkur í hvívetna á óvart. Við getum því miður ekki breytt veðurfarinu en við getum breytt viðhorfinu og látið vindinn vinna með okkur, með því að hlaupa á móti honum.

Já, það getur verið þreytt að lifa með vindinum því oftast er hann á móti okkur, í allar áttir

Fyrst á móti, svo með

Það er alltaf andlega auðveldara að hlaupa fyrst á móti vindinum og svo fá vindinn í bakið þegar við erum orðin þreytt. Þetta á við um í keppnum sem og í rólegum æfingum. Til að gera rólegu æfingarnar auðveldari í vindinum þá byrja ég alltaf á því að hlaupa á móti vindinum svo hann hjálpi mér til baka. Þetta finnst mér líka stytta einhvernveginn æfinguna og lætur seinni hlutann á vera mun skemmtilegri því ég veit að vindurinn er búinn.


Það er mjög eftirminnilegur langur túr sem festi þessa reglu í hausnum á mér. Þá var ég einhvernveginn mjög þreyttur um morguninn og veðrið leit ekkert allt of vel út, en ég ákvað samt að drífa mig út. Þegar út var komið, sá ég að ég var að klukka ansi hraða kílómetra en virtist ekki vera að hafa mikið fyrir því. Ég þakkaði fyrir gott veður og ég var greinilega ekki jafn þreyttur og ég hélt, ég ákvað því að fara örlítið lengra en ég ætlaði mér í upphafi. Eftir 13 km ákvað ég að snúa við og ætlaði að rúlla létt til baka. Samstundis og ég sný mér við átta ég mig á mistökunum því húfan var næstum því fokin af mér. Það því ekki formið sem var svona kröftugt heldur alíslensk austanátt. Af hverju ég hafði ekki fattað þetta fyrr er ég ekki alveg viss um, en við höfum samt tilhneiginguna til að finna mótvindinn alltaf en meðvindurinn virðist dulbúa sig sem logn. Þessir 13 km til baka urðu með þeim erfiðari sem ég tekið enda vel þreyttur til að byrja með, ég skakklappaðist heim, þreyttur og svangur. Núna prófa ég alltaf að skokka nokkra metra í gagnstæða átt ef mér finnst fílingurinn vera óvenju góður enda enginn tilgangur í því að gera æfingarnar erfiðari en þær þurfa að vera.

Gerum rólegu skokkin auðveldari og aukum nennuna með því að byrja í mótvindi og láta svo feykja okkur heim.

bottom of page