Meiðsli eru ekki eitthvað sem ætti að fylgja hlaupum og í rauninni ættum við að geta verið laus við þau með öllu ef rétt er staðið að hlutunum. Hins vegar eru eymsli eitthvað sem fylgir öllum íþróttum. Það sem við viljum passa upp á er að láta eymslin ekki verða að meiðslum. Til að koma í veg fyrir það þurfum við meðal annars að beita réttri nálgun við endurheimt og þekkja muninn á milli meiðsla og eymsla. Þá minnkum við líkurnar á að lenda í meiðslum og ofþjálfun og aukum líkurnar á árangri. Með því að haldast heil aukum við sömuleiðis líkurnar á því að fá gleði úr hlaupunum sem ýtir undir að hlaupin geti fylgt okkur alla ævi. Fyrir mér eiga hlaupin að vera uppspretta gleði en ekki meiðsla.
Meiðsli eða eymsli?
Er ég meiddur eða er ég aumingi? Þetta kann að hljóma harkalega en við verðum að þekkja muninn á að vera meidd og þá er ekki í lagi að æfa og að finna til eymsla og þá er í lagi að æfa. Það getur skipt sköpum fyrir framfarir hlaupara og í raun allra íþróttamanna að þau kunni að meta hvort um sé að ræða meiðsli eða eymsli. Ef eymsli eru of oft greind sem meiðsli með tilheyrandi hvíldum, þá æfum við ekki nægilega vel. Við sleppum þá æfingum sem væri hægt að taka án þess að eiga á hættu að gera illt verra. Hinsvegar ef við höldum svo að meiðsli séu bara eymsli, þá förum við út og tökum æfingu en eigum á hættu að gera endanlega út af við okkur, sem gæti kallað á langa hvíld. Þannig að með því að greina meiðsli sem eymsli og halda áfram að æfa, þá er öruggt að við endum í alvarlegum meiðslum og með því að greina eymsli sem meiðsli er ólíklegt að við náum þeim árangri sem við höfum innistæðu fyrir.
Þetta er því alls ekki auðvelt verk og það sjáum við helst á því að hlauparar eru miklu oftar meiddir heldur en hundrað prósent heilir. Ef þetta væri auðvelt, þá væru allir alltaf heilir. Fyrir marga sem eru ekki á kafi í íþróttum og ekki búnir að smitast af hlaupabakteríunni hljómar það sem einfalt verk að sleppa því að fara út að hlaupa þegar því fylgir mikill verkur. Fyrir hinn djúpt sokkna hlaupara sem er í miðjum maraþonundirbúningi er þetta hins vegar andlega mjög erfitt og eitt það erfiðasta sem hlauparinn þarf að takast á við. Þess vegna þurfum við að þjálfa með okkur líkamsmeðvitund til að átta okkur á því hvenær er í lagi að æfa þrátt fyrir litla verki og hvenær hvíldin er okkar besti vinur.
Á næstu dögum mun ég fara nánar í muninn á milli eymsla og meiðsla og hversu miklu máli það skiptir að tækla endurheimtina rétt. Í millitíðinni mæli ég með að prófa að æfa líkamsmeðvitundina og taka eftir öllum verkjum og tilfinningum sem koma þegar þú ferð út að hlaupa. Prófaðu að sleppa tónlistinni og hlusta bara á líkamann í staðinn.
Commentaires