Þegar við tökum okkur eitthvað fyrir hendur viljum við byggja á góðum grunni því það auðveldar okkur framhaldið og minnkar líkur á óþarfa áföllum.
Þegar við tölum um grunninn er átt við alla þá loftháðu (e. aerobic) vinnu sem við höfum lagt á líkamann. Þetta eru allar æfingar sem tengjast úthaldi, svo sem hlaup, hjólreiðar, sund og annað þar sem hjartað þarf að slá hraðar en þegar við sitjum. Því er sá sem hefur stundað fótbolta í æsku með stærri grunn en sá sem hefur eingöngu lagt stund á skák. Þessi grunnur skiptir öllu máli því hann segir okkur mikið um möguleika okkar sem hlaupara í dag. Þannig eru engar líkur á því að einhver sem hefur aldrei hreyft sig af neinu viti geti hlaupið gott maraþon upp úr þurru. Þetta þýðir þó ekki að við getum ekki náð miklum árangri þótt við byrjum seint. Við þurfum bara að hafa í huga að fyrir vikið munum við ná okkar besta árangri seinna en einhver sem hefur hreyft sig alla ævi. Það er mikilvægt að átta sig á því hversu stóran grunn við höfum svo við vitum hvaða árangri er hægt að búast við á næstu árum.
Ég hljóp mitt fyrsta maraþon 18 ára og þá alveg óæfður sem hlaupari. Lokatíminn var 2:55:52 og var nýtt íslandsmet í flokki 18-19 ára og 20-22 ára. Fólk sagði að þetta kæmi bara náttúrulega til mín og eins og ég hefði bara fæðst svona. Raunin var hinsvegar sú að ég hafði æft tvær til þrjár íþróttagreinar alla ævi og æft þar af leiðandi oft á tíðum 3-4 klukkustundir á dag í allskonar hreyfingu, hvort sem það voru fimleikar, fótbolti eða körfubolti. Grunnurinn minn var þess vegna virkilega stór. Þetta var líka önnur ástæða af hverju ég sá hraðar framfarir þegar ég byrjaði að taka markvissar hlaupaæfingar. Ég var alls ekkert náttúrulega góður heldur hafði bara verið mjög mikið úti í náttúrunni að hreyfa mig.
Verum meðvituð um grunninn
Stundum gerist það að tveir einstaklingar byrja að æfa saman en annar tekur mun hraðari framförum en hinn. Þetta er svo til undantekningalaust af því að sá sem tekur framförunum hefur æft íþróttir sem krakki eða verið mjög virkur á yngri árum. Ef við gleymum að taka þetta með í reikninginn er ekki ólíklegt að sá sem taki minni framförum missi móðinn. Miklu betra er að hugsa um að ef við höfum ekki mikla hreyfingu á bakinu þá eigum við bara inni stærri og meiri framfarir í framtíðinni og að sama skapi er líkaminn minna notaður þannig líkurnar á meiðslum geta í raun verið minni.
Að sama skapi getur gerst að tveir aðilar sem hafa venjulega svipaða hlaupagetu en annar einstaklingurinn er búinn að vinna í grunninum síðustu vikur á meðan hinn er að koma úr hvíld fari að æfa saman. Þá mun sá sem hefur unnið í grunninum taka mun meiri framförum og að sama skapi eiga á minni hættu á meiðslum.
Í grunninn er þá grunnurinn annarsvegar heildarmagn af öllum úthaldsæfingum sem við höfum tekið og svo er grunnurinn hversu vel við höfum byggt upp tímabilið áður en við förum í meira krefjandi æfingar. Við viljum vera meðvituð um heildar grunninn okkar og viljum við alltaf byggja upp góðan grunn fyrir hvert tímabil. Þetta eykur góða upplifun af hlaupunum og minnkar líkurnar á meiðslum.
Comments