Það kemur fyrir að snjór þeki göturnar og gripið verði þar af leiðandi minna. Þetta ætti samt ekki að koma í veg fyrir að við tökum létta hlaupaæfingu. Það er ekki nema þegar það er flughált að við ættum frekar að flýja inn á hlaupabrettið.
Eftir að hafa dottið nægilega oft í hálku þá hefur reglan mín þróast þannig að:
Ef það er ekki hægt að fara út að hlaupa nema með því að vera á broddum, þá er betra að sleppa því.
Í þeim tilvikum þegar það er þunnt lag af snjó á götunum eða jafnvel mikið af mjúkum snjó er hinsvegar í góðu lagi að skottast út að skokka, svo lengi sem við munum eftir nokkrum hlutum.
Ekki spóla
Það versta sem við gerum þegar það er ekki gott grip er að reyna að halda sama hraða og venjulega og þar af leiðandi spóla í hverju skrefi. Þetta veldur ónáttúrulegu álagi á vöðva aftan í lærum sem og á hásinar. Eftir langt skokk með miklu spóli er mjög algengt að hlauparar séu gríðarlega stífir dagana í kjölfarið og jafnvel þrói með sér eymsli sem síðar verði að meiðslum. Miklu betra er að hægja á sér og ef við viljum fá aðeins meira púst fyrir lungun þá er hægt að hugsa um að lyfta hnjánum 2-5 cm hærra en venjulega.
Geymdu gæðin
Ef við erum stödd á keppnistímabilinu er alltaf betra að taka æfinguna á bretti frekar en keyra á þetta í snjónum. Bæði erum við að setja öðruvísi álag á líkamann ásamt því að ná ekki að halda réttum hraða sem veldur oft neikvæðri upplifun á æfingunni. Ef við erum hinsvegar á fyrri hluta æfingatímabilsins getur verið í lagi að taka millierfiðar æfingar svo lengi sem við erum með góða líkamsmeðvitund og þekkjum rétta fíilinginn. Þá ættum við enn frekar að einbeita okkur að því að lyfta hnjánum hærra en venjulega frekar en að spyrna eins fast frá jörðinni með ökklanum og venjulega. Best er að setja ökklann í smá snjófrí.
Nýttu mjúka undirlagið
Snjórinn getur verið frábær æfingafélagi sem gerir okkur kleift að sleppa því að þramma á svarta malbikinu. Að sama skapi er algjör snilld að fá aðeins ójafnt undirlag til að virkja fleiri vöðva þegar við hlaupum. Þess vegna eru rólegir túrar fullkomnir á snævi þökktum götum. Pössum okkur bara að spóla ekki um of og geymum gæðaæfingar ef við erum á keppnistímabilinu.
Höfundur vonast til að það fari að fækka snjódögum.
Comentários