top of page

Fyrstu skrefin

Updated: Feb 25, 2022

Hlaup eru íþrótt þar sem þolinmæði og stöðugleiki skipta mestu máli til að ná árangri. Það sem skiptir næst mestu máli er að byrja að hlaupa því þegar við erum komin af stað þá er auðvelt að halda áfram. Það er ástæða af hverju við heyrum oft talað um að hafa smitast af hlaupabakteríunni.

Í raun eru hundrað leiðir til að byrja að hlaupa en þær eru misgáfulegar eins og þær eru margar. Ein leið er t.d. að hunskast út að hlaupa og hætta þessu væli. Þetta gæti virkað í ákveðinn tíma en er fljótt að falla um sjálft sig. Hérna eru þrjár leiðir sem geta hjálpað okkur að byrja að hlaupa af alvöru eða til að halda áfram að hafa gaman af hlaupunum.


Setjum okkur markmið

Það er alltaf skemmtilegra að hlaupa eitthvert heldur en bara eitthvað út í loftið. Það er skemmtilegra að hlaupa til ná í bílinn eftir gott gærkvöld heldur en að hlaupa í 30 mínútur í 200m hringi. Markmið eru góð leið til að fá hvatninguna og tilganginn til að fara út að hlaupa, því fyrst um sinn mun vera erfitt að fara út ef við vitum ekki tilganginn á bakvið hlaupið. Þegar líður á hlaupaferilinn munu þessi markmið breytast og ekki endilega snúast um að ná ákveðnum tímum heldur meira um að halda áfram að hafa líkamlegu getuna til að geta hlaupið hratt og vel án þess að meiðast. Þetta er vegna þess að fyrir lengra komna þá eru hlaupin orðin meira en bara til að ná ákveðnum tímum, þau eru hluti af ákveðinni lífsfyllingu og lífsgæðum.

Fáum fólk með okkur

Samvinna er samasem vinna eins og skáldið Friðrik Dór orti svo eftirminnilega. Þegar við ætlum að taka fyrstu skrefin í að verða hlauparar þá getur það hjálpað ótrúlega mikið að fá einhvern með okkur. Þetta getur verið að setja mynd af okkur á samfélagsmiðla og segja að við ætlum út að hlaupa. Þessir hlutir ýta undir að við fylgjum þessu eftir því við höfum óbeint sett á okkur smá jákvæða pressu til að fylgja þessu eftir, við virkjum undirmeðvitundina okkar og hún ýtir okkur oft út að hlaupa. Það er að sjálfsögðu best að fá einhvern vin eða vinkonu til að vera í þessu með okkur og enn betra er að skrá sig í hlaupahóp. Annað sem getur líka hjálpað mjög mikið er að tala við þjálfara og fá hlaupaprógram til að fylgja. Þá verður þjálfarinn hluti af okkar teymi og hjálpar okkur að fá hvatninguna til að fara út að hlaupa. Að sama skapi mun þjálfari gefa okkur tilganginn á bakvið allar æfingar þannig að við vitum af hverju við erum að fara út að hlaupa og hvaða áhrif þessi tiltekna æfing mun hafa. Með því að vita alltaf svarið við „af hverju er ég að fara út að hlaupa?“ þá mun bæði vera auðveldara að fara á æfinguna og svo að klára hana með stæl.

Settu Íslandsmet í því að hlaupa hægt

Eitt það erfiðasta sem hægt er að gera sem hlaupari er að fara nógu hægt þegar við eigum að hlaupa rólega. Við höfum tilhneigingu til að fara á æfingu og vilja gjörsamlega keyra okkur út því annars finnst okkur eins og æfingin hafi ekki verið að gera neitt fyrir okkur. Þetta gæti ekki verið meira fjarri sannleikanum og er hvorki skemmtilegt til lengdar né hvetjandi til að fá okkur út að hlaupa. Þegar við erum að byrja í hlaupum viljum við fá sem oftast jákvæða upplifun af hlaupum og þess vegna geta ekki allar æfingar verið þannig að við erum í andnauð allan tímann. Í mörgum tilvikum er labb bara í besta lagi því við erum að fá nákvæmlega þá æfingu fyrir hjartað sem við viljum. Í rauninni ætti púlsinn ekki að þurfa að fara yfir 65% af hámarkspúlsi til að byrja með. Eftir því sem við erum lengur í hlaupum munum við átta okkur á því að það eru ekki þau sem reyna mest á sig sem ná mestum árangri heldur þau sem æfa skynsamlegast og það þýðir í mörgum tilvikum að hlaupa nógu hægt. Ótrúlegt en satt á okkur að líða eftir æfinguna eins og við höfum ekki gert neitt. Þetta kann að hljóma of gott til að vera satt en þetta er bara mjög gott og alveg satt.Ef þig langar að taka fyrstu skrefin til að smitast af hinni gríðarlega heilsusamlegu hlaupabakteríu ættirðu að setja þér markmið, fá fólk með þér og setja Íslandsmet í að hlaupa hægt. Með þessi þrjú ráð í farteskinu verða hlaupin innan skamms leikur einn og þú munt svífa um götur bæjarins. Það ber að taka fram nokkra punkta sem snúa að þeim sem hafa annaðhvort hlaupið lítið sem ekkert. Í þessum tilvikum ættum við að reyna að vera sem mest á mjúku undirlagi og forðast malbikið eins og heitan eldinn. Að sama skapi ef við erum að nota hlaupabrettið þá viljum við frekar fara ennþá hægar á æfingunum og hafa brettið í 4-6% halla til að minnka höggin á líkamann. Með þetta í huga minnkum við líkur á meiðslum, fáum meiri ánægju úr hlaupunum og erum tilbúin í næstu skref.

コメント


bottom of page