top of page

Hvað er rétti fílingurinn?

Updated: Feb 26, 2022

Nú styttist í algjöran jólafíling og þá er kjörið að skrifa smá um hlaupa fílinginn. Að tala um fíling (e. feeling) á æfingum er ákveðið hugtak sem hlauparar nota til að lýsa því hvernig þeim leið á æfingunni. Þetta hefur fest sig í sessi en mig langaði að skrifa nokkur orð um hvað þetta þýðir og hvernig á að nýta sér þetta til að forðast meiðsli og fá meira út úr æfingunum.


Fílingurinn

Í hlaupum er oft talað um fíling frekar en tilfinningu, þó að þessi orð þýði það sama þegar við tölum um hlaup. Ef það er góður fílingur á æfingunni þá þýðir það að okkur leið vel og æfingin gekk vel (við náðum að taka æfinguna eins og hún var sett upp, þannig æfingin var ekki endilega auðveld ef þetta var gæðaæfing). Það er mikilvægt að vita hvernig við notum fíling í hlaupunum því þetta er hluti af orðaforða hlauparans.


Á æfingum ættum við alltaf að huga fyrst að því hvernig okkur líður: Hvernig er fílingurinn? Líður mér vel? Er erfiðara að anda en það ætti að vera miðað við hraðann sem ég er á? Eru verkir í líkamanum? Get ég spjallað á þessum hraða ef við erum í rólega skokkinu? Með því að spyrja okkur þessara spurninga þá erum við óbeint að þjálfa líkamsmeðvitund okkar í leiðinni. Líkamsmeðvitund er geta okkar til að finna hvernig líkaminn bregst við álagi fyrir æfingar, á æfingum og eftir æfingar. Þetta er oft erfitt til að byrja með og þess vegna þurfum við að vera dugleg að spyrja okkur ofangreindra spurninga og taka eftir því sem er að gerast í líkamanum yfir allan daginn. Þannig finnum við hvernig fílingurinn breytist. Ef við verðum sérfræðingar í líkamsmeðvitund höfum við aukið líkurnar á árangri til muna og þá eru hverfandi líkur á að lítil eymsli verði að meiðslum. Þetta er vegna þess að við vitum hvenær við þurfum að hægja á okkur á æfingum og hvenær við þurfum að vera dugleg að nota nuddrúlluna til að vinna á stífleika sem við fundum á æfingunni. Að virkja líkamsmeðvitundina í rólega skokkinu er lykill í því að æfa rétt. Ef okkur líður vel, eigum ekki erfitt með að anda, erum verkjalaus og eigum auðvelt með að spjalla, þá er fílingurinn góður. Ef fílingurinn er góður er í lagi að auka hraðann örlítið á æfingunni og sjá hvort fílingurinn haldist sá sami eða breytist. Þetta er í lagi að gera bæði á rólegum æfingum og á gæðaæfingum þegar við erum að fara hraðar. Smám saman áttum við okkur á rétta fílingnum á mismunandi æfingum en það getur skipt miklu máli að þekkja rétta fílinginn þegar við tökum æfingar í erfiðum aðstæðum.


Að fara eftir fíling

Ef úti er brjálaður vindur og rigning en við eigum að taka mjög mikilvæga æfingu stuttu fyrir keppni, þá ættum við helst ekki að taka bara eftir fíling. Í staðinn ættum við að taka æfinguna á hlaupabretti eða fresta henni til morguns eða taka hana þegar veðrið hefur batnað. Það er helst á fyrri hluta æfingatímabilsins sem er í lagi að fara eftir filing á gæðaæfingum því þá er mikilvægara að ná inn æfingunni heldur en að gera hana nákvæmlega eins og hún var sett upp. Því nær keppni sem við erum, því mikilvægara er að hafa æfinguna við góðar aðstæður og á þeim hraða sem þjálfarinn setur fyrir.


Líkamsmeðvitund

Þegar við verðum sérfræðingar í fíling og þar af leiðandi sérfræðingar í líkamsmeðvitund þá erum við fljótari að átta okkur yfir daginn ef við erum að beita líkamanum vitlaust, hvort sem það er þegar við sitjum eða stöndum, við verðum fljótari að leiðrétta þetta og breyta líkamsbeitingunni. Við æfingar getum við svo farið strax inn á réttan hraða þar sem við verðum sérfræðingar að átta okkur á mismunandi fíling við mismunandi hraða. Besta leiðin til að bæta getuna til að meta fílinginn er að vera dugleg að spyrja okkur spurninga. Hvernig líður mér á þessum hraða? Finn ég fyrir eymslum? Hvað mun gerast ef ég eyk hraðann?

Önnur leið er svo að giska reglulega á hversu hratt við erum að hlaupa og hver púlsinn er og líta svo á úrið og sjá hversu nálægt eða langt frá við erum. Smám saman munum við geta giskað nákvæmlega á hvaða hraða við erum að hlaupa á og hver púlsinn sé akkúrat á þessari sekúndu. Meiri líkamsmeðvitund tryggir að við tökum eftir eymslum áður en þau verða að meiðslum og gerir okkur kleift að taka allar æfingar án þess að þurfa endilega alltaf að treysta á úrið eða púlsmælinn.

Comments


bottom of page