Áður en ég byrjaði í hlaupum hafði ég lítið heyrt um æfingabúðir. Í fótboltanum og körfunni var talað um æfingaferðir og keppnisferðir en aldrei æfingabúðir. Æfingabúðir eru hinsvegar nauðsynlegur partur af því að taka næsta skref í hlaupunum og oft lykillinn að því að sjá hlaupin í nýju ljósi.
Æfa - borða - sofa
Í æfingabúðum á lífið að vera eins einfalt og hægt er. Aðalmálið er að ná inn æfingunum, nærast og svo ná í góða endurheimt milli æfinga til að vera tilbúin í næstu æfingu. Í flestum tilvikum eru tvær æfingar á dag allavega fimm daga vikunnar. Þetta er svo lengi sem æfingabúðirnar eru ekki lengri en þrjár vikur. Ef við erum lengur en þrjár vikur þá högum við æfingum öðruvísi því þá er tíminn ekki af jafn skornum skammti.
Venjulegur æfingadagur í æfingabúðum lítur því oft svona út.
Vakna - Út að skokka
Borða morgunmat fyrir klukkan 10:00
Leggja sig í 1-2 tíma einhverntímann milli 11:30-14:30
Borða
Mögulega fá sér aftur smá nasl að borða
Æfing einhverntímann milli 16:30-20:30
Kvöldmatur
Sofa
Inn á milli þegar ekki eru æfingar og svo eftir kvöldmat er að sjálfsögðu í lagi að gera eitthvað skemmtilegt en þegar æfingarnar eru hvað mestar viljum við vera sem mest lárétt á milli æfinga.
Æfingabúðir búa til hlaupara
Í eyrum margra hljóma svona æfingabúðir ekkert endilega svakalega spennandi en svo er þetta allt annað líf þegar við prófum þetta í fyrsta skipti. Að æfa í sól, skoða nýja staði og vera með fólki sem hefur gaman af hreyfingu er ótrúlega gefandi.
Ég fór í mínar fyrstu æfingabúðir fyrir rúmum níu árum eftir að hafa æft hlaup í aðeins þrjá mánuði og það er án efa ein stærsta ástæðan fyrir því af hverju hlaupin heilluðu mig upp úr körfuboltaskónum.
Nóvember æfingabúðirnar mínar
Ég fór í 13 daga æfingabúðir í nóvember þar sem aðaláherslan var að byggja grunninn fyrir komandi tímabil og ná inn eins mikið af æfingum og hægt væri án þess að fara of langt yfir hámarksárangurslínuna. Yfir þessa 13 daga hljóp ég að meðaltali 32 km á dag og náði sex gæðaæfingum og þar á meðal hljóp ég í hálfu maraþoni á 1:10:39 en var sem betur fer gríðarlega snöggur að ná mér eftir hlaupið.
Í æfingabúðum er mikilvægt að hugsa vel um næringuna fyrir og eftir æfingar og þess vegna tók ég með mér NOW fæðubótarefnin og fékk mér ívið meira en venjulega þar sem álagið var mun meira en yfir venjulegan dag. Þetta hefur komið mjög vel út og skiptir miklu máli svo að ég nái í góða endurheimt á milli æfinga. Ég mæli eindregið með því fyrir alla sem hafa gaman af því að hreyfa sig að skoða möguleikann á því að fara i æfingabúðir þar sem áhersla er lögð á góða hreyfingu, góðan svefn og góða næringu.
Comments