top of page

Veikindi og æfingar

  • Writer: Arnar Pétursson
    Arnar Pétursson
  • Jun 14
  • 6 min read

Ætla að byrja á því að taka það fram að það er mjög auðvelt að misskilja þennan pistil. Ég er eiginlega alveg 100% viss um það að ég muni reglulega fá athugasemdir frá fólki sem heldur að ég sé að segja að við eigum alltaf að æfa þótt við erum veik.

Þess vegna er gott að taka það strax fram að ef þú ert með hita, mikla beinverki, önnur mikil óþægindi eða hefur verið ráðlagt af lækni eða þjálfara að æfa ekki þá er alltaf best að sleppa æfingum.


Hérna er ég meira að tala um þegar við fáum vægt kvef, smá kitl í hálsinn eða almennan slappleika. Það er hægt að líkja þessu við muninn á eymslum eða meiðslum. Þegar við erum meidd þá ættum við aldrei að æfa ofan í meiðslin. Eymsli eru hinsvegar verkir sem geta komið við og við þegar við æfum af miklum krafti og eru eðlilegur hluti af æfingaferlinu. Ef við tækjum öllum eymslum sem meiðslum værum við allt of oft að lenda í því að taka óþarfa 5-7 daga hvíld. Ég fór einu sinni í podcast og ræddi þetta og þá orðaði ég þetta þannig að við þurfum að vita hvort við séum meidd eða hvort við séum aumingjar. Hægt að hlusta hér. Auðvitað er það ekki þannig að ef við fáum verk og sleppum æfingu að við séum aumingjar en stundum líður manni þannig og þess vegna er svo erfitt að meta rétt hvort um meiðsli eða eymsli sé að ræða. Þetta var líka orðað svona til að fá meiri viðbrögð þegar þú lest þetta. Fólk sem er of grimmt að æfa getur aldrei tekið hvíld, þótt það sé meitt, af því að það finnst það vera veikleikamerki. Að sama skapi þau sem eru of rög við að taka einhverskonar æfingu út af hugsanlegum verkjum eru kannski ekki heldur alveg á réttum stað. Við viljum geta metið þetta rétt en það er alls ekki alltaf einfalt verkefni.


Ástæðan fyrir því af hverju þetta umræðuefni er ofarlega hjá mér er af því að ég er sjálfur búinn að díla við kvef, smá kitl í hálsinum og almennan slappleika síðan í byrjun apríl, næstum því tvo mánuði núna. Ég hef einnig séð hjá mörgum hlaupurum og bara almenningi að fólk er að lenda í svipaðri flensu þannig mér datt í hug að koma með mína hugsun inn í hvernig ég tekst á við svona.

Þrátt fyrir slappleika er hægt að taka fullt af góðum æfingum. Að hlaupa hratt niður brekku reynir töluvert minna á lungun heldur en að hlaupa hratt upp.
Þrátt fyrir slappleika er hægt að taka fullt af góðum æfingum. Að hlaupa hratt niður brekku reynir töluvert minna á lungun heldur en að hlaupa hratt upp.

Æfa eða hvíla?

Þegar þú ert að æfa 3-4 sinnum í viku getur verið sniðugast að byrja á því að hvíla í 1-2 daga og sjá hvort að kvefið rjátlast ekki af þér og þá hefurðu ennþá tíma til að ná inn þínum 3-4 æfingum í vikunni. Hinsvegar ef þú ert að æfa á hverjum degi og ég tala ekki um tvisvar á dag þá horfir þetta öðruvísi við þér. Í mínu tilviki passa ég alltaf upp á að fara aldrei í of mikla ákefð þegar svona slappleiki leggst yfir mann. Helst vil ég bara halda púlsinum rétt í kringum rólega skokkið, 110-135 og að hámarki fara í kringum 90% af maraþonhraða eða í mínu tilviki 160 í púls en hámarkspúlsinn minn er 185. Einnig tek ég lyftingar og styrktaræfingar sem reyna ekki á lungun og get þannig viðhaldið styrknum líka og í sumum tilvikum aukið hann. Með því að gera þetta er ég ekki að setja of mikið álag á líkamann sem er nú þegar að reyna að losa sig við veikindin, en að sama skapi næ ég að viðhalda forminu.


Í byrjun apríl fékk ég veikindi sem birtust í nefrennsli og slími í hálsi, ennis- og kinnholur voru smá stíflaðar en mér leið allt í lagi. Vel pirrandi þar sem þetta var rétt fyrir Íslandsmótið í 5km. Ég minnkaði álagið en sem betur fer voru rólegir dagar á dagskrá svona rétt fyrir hlaup. Þegar ég vakna um morguninn er ég mjög tvístígandi að fara af stað þar sem ég hef bókstaflega aldrei tekið erfiða æfingu þegar ég hef á sama tíma verið að díla við slappleika. Reglan hefur alltaf verið að taka eingöngu rólegar æfingar og lyftingar og styrk þegar staðan er svona. Það var því mikil óvissa í hlaupinu en það gekk framar vonum og mér tókst að verða Íslandsmeistari. Þegar í mark var komið hneig ég eiginlega bara niður og hef ekki upplifað svona orkuleysi eftir 5 km hlaup. Sem betur fer sló mér ekki niður en vissulega hlutur sem ég mæli alls ekki með því að gera. Þetta hefur ábyggilega ekki flýtt fyrir bataferlinu en hægt og bítandi verð ég betri en held áfram að æfa varlega með tiltölulega þægilegum æfingum. Tíu dögum seinna er Puffin Run sem mér fannst ég ekki geta sleppt heldur út af stemningunni sem er í kringum það. Einhvernveginn fer maður vel peppaður inn í hlaupið en er fljótlega kippt niður á jörðina og sé á millitímum að ég er 30 sek hægari með fyrstu 5km og svo 60 sek hægari eftir 10 km heldur en ég var í fyrra. Fílingurinn ekki upp á tíu en geri samt það besta úr þessu og sigli heim þriðja sætinu. Þarna var ég á síðasta degi nefrennslis kvefsins og er svona byrjaður að braggast þokkalega. Vikuna eftir er ég loksins orðinn heill og næ þá að skjótast á Esjuna og bæta tímann minn upp að Steini þegar ég fer á akkúrat 22:00. Mikið sem maður var peppaður þá...

Sólin í eyjum bauð ekki upp á að vera í bol.
Sólin í eyjum bauð ekki upp á að vera í bol.

Næsta flensa

En Adam var ekki lengi í paradís. Beint í kjölfarið á þessu nefrennsli þá fæ ég það sem ég katla kitl í hálsinn flensa. Ekkert í nefinu en þú finnur smá kitl í hálsinum og ert með þurran hósta. Engir beinverkir og enginn hiti en enginn ferskleiki heldur. Þessi flensa er búinn að fylgja mér í rúmar fjórar vikur en hefur verið smá upp og ofan, stundum koma ágætir dagar og gat ég til dæmis hlaupið í Stjörnuhlaupinu 17. maí en þar var ég 3 mínútum hægari en í fyrra en þetta var mikið mun erfiðara í ár og ég gat alls ekki beitt mér nægilega vel þar sem öndunin var ekki upp á tíu. Að sama skapi hljóp ég 10km í Lífssporinu sem gekk allt í lagi en aftur fann ég skýrt hvað ég var ekki orðinn 100%. Í hvorugt skiptið lendi ég í einhverju bakslagi heldur finn bara að ég þarf meiri tíma. Allan maí er ég alltaf að taka stöðuna á mér og passa að ég sé ekki að fara yfir strikið en það er augljóst að sjá á rólega skokkinu að það er mun hægara en venjulega.

Ég geri mistök

Undir lok maí var ég vissulega orðinn verulega þreyttur á því að upplifa mig aldrei neitt sérstaklega á æfingum. Ég er duglegur að taka lyftingar og er að hlaupa milli 150-170km í viku en mest allt á frekar rólegum hraða með púlsinn undir 145 nánast undantekningalaust. Næ samt alveg æfingum eins og 38 km túr og 36km túr en þar er meðapúlsinn 140-145 og pace milli 4:05-4:10. Til viðmiðunar er maraþonhraðinn minn 3:18 þannig þetta er mjög langt frá alvöru gæðum.


Þetta kitl í hálsinum var búið að vera smá upp og niður en undir lok maí þá finn ég að þetta verður aðeins verra. Ég var með planaðan rólegan langan túr á mánudeginum en fresta því og ákveð að taka hann daginn eftir. Ég er ekkert sérstakur daginn eftir en fer samt af stað, 38km á dagskrá á púlsinum 140-145. Ég finn það strax að þetta er ekki beint dagurinn minn en lendi svo eiginlega því miður í því að hitta óvænt á dóttur mína, Sölku Sigrúnu sem er úti í gönguferð með leikskólanum sínum. Hún kallar á mig "pabbi er að hlaupa hratt", við spjöllum aðeins saman en hún vill bara halda áfram að leika og segir svo, "pabbi, haltu áfram að hlaupa hratt". Þarna var þetta eiginlega skrifað í skýin, ég var bara búinn með 10km þarna en enda auðvitað að klára æfinguna, gat ekki annað eftir svona pepp. Rétt kemst heim og þá loksins er ég ekki lengur slappur heldur orðinn veikur. Hita og kuldaköst og almennt bras blasir við. Ég enda með að þurfa að hvíla bæði miðvikudag og fimmtudag og fer rólega af stað á föstudeginum. Ég enda með að horfa á þetta sem endurheimtarviku og viku seinna tek ég þessa æfingu hérna fyrir neðan.

Þrátt fyrir að geta þetta er púlsinn ennþá aðeins of hár en ég finn að þetta kitl í hálsinum er alveg að fara. Það eru núna rúmar tvær vikur síðan ég tók æfingu sem reyndi almennilega á lungun en vonandi fer þetta allt að koma.


Það er erfitt að meta hvort það sé í lagi að fara út að skokka en til þess að ég gefi mér grænt ljós þá þarf ég að vera hitalaus, engin hita- eða kuldaköst, ekki með beinverki og hóstinn má ekki vera stöðugur. Hlauparar eiga alls ekki að æfa þegar þeir eru meiddir eða veikir, en í langflestum tilvika er í lagi að taka rólegar æfingar með eymsli og slappleika. Hvernig við áttum okkur á þessari línu er hinsvegar mjög krefjandi verkefni.




 
 
 

Comentarios


bottom of page