top of page
Writer's pictureArnar Pétursson

Upphitun fyrir hlaup

Upphitun og niðurskokk eru upphafið og endirinn á öllum erfiðum gæðaæfingum, en af hverju? Af hverju byrjum við ekki bara strax á æfingunni og spörum okkur tímann sem fer í upphitunina?

Það þurfti að hlaupa smá upp til að taka þessa mynd...Ég rata út.

Að hita okkur upp

Upphitun er ekki endilega nauðsynleg áður en við tökum æfingu þar sem markmiðið er að hlaupa rólega í 30–60 mínútur, en þó getur verið gott að taka nokkrar hreyfiteygjur eða labba rólega fyrstu mínútuna áður en byrjað er að hlaupa. Þarna eru átökin það lítil að líkurnar á tognunum eða öðru slíku eru ekki miklar og að hraðinn í rólega skokkinu er svipaður og hann er í upphituninni.


Upphitun er, eins og í orðið gefur til kynna, notuð til að hita líkamann upp í kjörhitastig og kjörástand fyrir komandi átök, í rólegum æfingum eru ekki það mikil átök að við þurfum sérstaka upphitun. Almenn skynsemi segir okkur að ef við undirbúum vöðvana fyrir átökin framundan, þá eru þeir líklegri til að bregðast betur við en ella. Að sama skapi er ólíklegra að eitthvað komi upp á eins og tognanir eða önnur meiðsli. Upphitun er samt ekki eingöngu fyrir vöðvana, heldur er hún líka vel til þess fallin að koma okkur í rétt hugarástand fyrir æfinguna þar sem á gæðaæfingum reynir oft líka á hausinn.


Upphitunarrútína

Upphitun er því aðallega notuð fyrir gæðaæfingar og keppnir. Það er mjög sniðugt að koma sér upp ákveðinni upphitunarrútínu þannig að líkamlega og andlega erum við ekki að upplifa mikla breytingu frá því að taka gæðaæfingu eða keppa. Upphitunarrútínan mun leiða til þess að við verðum tilbúnari þegar við keppum og munum eiga auðveldara með að höndla stress fyrir keppnir. Þannig hjálpar rútínan okkur ekki bara að gera líkamann kláran heldur einnig að gera okkur andlega búin undir það að gera okkar besta.


Upphitunarrútínur eru einstaklingsbundnar og er þess vegna mikilvægt að vera tilbúin að prófa sig áfram á gæðaæfingum til að átta sig á því hvað virkar best. Þetta getur tekið töluverðan tíma en borgar sig alltaf á endanum. Það er því ekki óeðlilegt að það geti tekið eitt til tvö ár að fullkomna rútínuna og eftir það heldur hún jafnvel áfram að taka smávægilegum breytingum. Þess vegna er mikilvægt að byrja strax að prófa sig áfram og vera undir það búin að reka sig á veggi meðan rútínan er bætt jafnt og þétt.

Comentarios


bottom of page