top of page

Puffin Run

Núna mætti segja að hlaupasumarið sé hafið en þessi þrjú hlaup, Víðavangshlaup ÍR, Vormaraþon Félags Maraþonhlaupara og the Puffin Run ýta þessu úr vör.

Hversu falleg leið

Aðdragandinn

Síðustu fimm mánuðir hafa verið áhugaverðir hjá mér þegar það kemur að meiðslum en ég hef bæði lent í hásinarbólgu fyrir jól og svo IT bandsveseni núna frá febrúar til apríl. Þetta eru fyrstu meiðslin mín til að tala um á ferlinum en ég hef sem betur fer getað stundað góða krossþjálfun á meðan og því er formið á góðum stað. Ég er samt búinn að fara mjög varlega af stað og tók fyrstu gæðaæfinguna mína á flötu undirlagi fyrir rúmum tveimur vikum. Mig langaði þá að skrá mig í Víðavangshlaupið og sjá bara stöðuna. Eftir á að hyggja var það góð slæm hugmynd. Góð því þarna komst maður í stemninguna en slæm því ég var bara nýfarinn að hlaupa á jafnsléttu en með mikið af löngum brekkum á brettinu í fótunum. Ég ákvað því að hætta á meðan mér leið vel í líkamanum og ekki taka neinar áhættur, sérstaklega eftir að ég fékk bakslag í febrúar þegar ég tók þátt í Íslandsmótinu innanhús.

Ansi súrt að hætta í hlaupi og labba á móti hlaupandi keppendum

Puffin Run

Í kjölfarið gengu æfingar vel og ég fann enga verki svo ég ákvað að slá til og fara í the Puffin Run í eyjum. Þarna er bæði eitt fallegasta hlaup landsins og ein mesta stemning sem þú finnur.


Fyrirfram var ég ekki viss um hversu vel myndi ganga en var klár á því að það væri styrkur í fótunum. Ég lét því mig bara smá gossa fyrri hlutann og var svo örlítið passasamari seinni hlutann þar sem forystan var nokkuð góð á þeim tímapunkti. Að lokum kom ég í mark á nýju brautarmeti 1:17:13 í algjöru draumaveðri. Það besta var hinsvegar að ég fann enga verki í hlaupinu eða eftir hlaupið.


Alvöru stemning að leggja af stað í Puffin Run

Þetta er mjög áhugavert ferli að vinna sig til baka en hefur gengið ótrúlega vel. Það er alveg klárt mál að krossþjálfun gerir helling fyrir hlaupin og er eitthvað sem allir hlauparar ættu að hafa inni í sinni rútínu. Ég veit að næstu tímabil hjá mér verða með fullt af högglausum æfingum í bland við hlaupin. Ekki bara af því að þær halda mér frekar heilum heldur líka út af því að þær eru skemmtilegar þegar þær eru settar rétt upp. Þessi pistill var til dæmis skrifaður á hjólinu.

コメント


bottom of page