top of page
Writer's pictureArnar Pétursson

Orðaforði hlauparans: Að rúlla vel

Mér finnst ekki augljóst að fólk ætti að fatta hvað það þýði að rúlla vel. Miðað við vinsældir nuddrúlla þá gæti það allt eins átt við það að vera góð að rúlla á nuddrúllunni.

Gott rúll

Það geta allir rúllað vel. Eina sem við þurfum er að einbeita okkur vel á æfingunum. Að rúlla vel er þegar við erum með afslappaðan hlaupastíl og er hluti af orðaforða hlauparans. Þau sem líta út fyrir að hafa ekkert fyrir því að hlaupa eru þau sem rúlla vel. Þannig er hægt að rúlla vel hvort sem við erum að hlaupa hægt eða hratt. Þá er líka hægt að sjá hjá sama hlauparanum að hún rúlli vel þegar hún hleypur hægt og rúllar ekki vel þegar hún fer hratt. Þetta snýst allt um hversu auðveldlega þetta lítur út og hversu hagkvæmur hlaupastílinn er.


Einhver sem sveiflar höndunum mikið til hliðar, lendir harkalega og missir líkamsstöðuna reglulega er ekki að rúlla vel. Þannig ef þú vilt gefa einhverjum hlaupara gott hrós er um að gera að segja að hann sé að rúlla vel.


Við viljum helst rúlla vel á sem flestum æfingum en þá er mikilvægt að hugsa um líkamsstöðuna og finna hvort við erum að eyða orku í óþarfa hluti. Það eru sérstaklega gæðaæfingarnar þar sem við viljum passa upp á að rúlla vel, því ef við erum of oft að þvinga okkur áfram á óhagkvæmum skrefum hefur æfingin ekki rétt áhrif og stundum erum við jafnvel að vinna gegn því að við náum eins miklum framförum.


Þetta snýst því ekki um að þau sem reyna mest á sig og eru þreyttust á æfingunni fái mest út úr henni. Hérna snýst þetta einnig um gæði umfram magn. Þannig að ef við höfum sex til átta endurtekningar settar fyrir og erum byrjuð að missa hlaupastílinn í sjöttu endurtekningunni þá ættum við að kalla það gott því við erum hætt að rúlla vel.


Þau sem rúlla vel á æfingum eru líka þau sem rúlla upp keppnunum.

Comments


bottom of page