top of page

Mitt á milli meiðsla og eymsla

Ég er meiddur. Ég get samt æft. Ég get lyft, gert styrktaræfingar, hjólað, hlaupið í vatni, verið á skíðavél og farið í gufu. Ég get bara ekki hlaupið án þess að gera illt verra. Allt annað er án verkja.

Þetta er raunveruleikinn hjá mjög mörgum, að fá verk þegar við hlaupum en geta mögulega verið verkjalaus yfir daginn og verkjalaus við aðra högglausa hreyfingu. Hvað er þá til ráða?


Ég tala mikið um að láta eymsli ekki verða að meiðslum því eymsli eru eðlilegur partur af því að æfa. Í stuttu máli geta eymsli líst sér sem verkir sem koma á meðan eða eftir hlaupaæfingar og eru þá ekki bara harðsperrur. Ef við höldum áfram að æfa við sömu aðstæður og kalla fram verkina (eins og að hlaupa bara á malbiki) geta eymslin orðið að meiðslum og þá er ekki hægt að hlaupa lengur án þess að gera illt verra.


Núna er ég að glíma við hásinarbólgu en það leiðinlega við hana er að hún gerði engin boð á undan sér. Hún einfaldlega kom í lokin á æfingu og svo fann ég fyrir henni í hverju skrefi þegar ég labbaði daginn eftir. Ég hvíldi því hlaupin í fimm daga og stundaði bara krossþjálfun á meðan en hljóp svo á Íslandsmótinu í Víðavangshlaupum þar sem verkurinn var svo til horfinn og ég vildi sjá hversu alvarlegt þetta væri. Daginn eftir var verkurinn kominn aftur og ég sá að það væri því lítið vit í því að reyna að hlaupa á þessu. Þarna fannst mér ég vera mitt á milli eymsla og meiðsla. Þetta var ekki orðið mjög alvarlegt en ef ég myndi reyna of mikið á hásinina og erta verkinn þá gæti ég lent í löngu bataferli.

Sem hlaupari eru meiðsli sem halda manni frá hlaupum gríðarlega erfið andlega og það er mjög auðvelt að missa móðinn. Ég hef sem betur fer sloppið svo til algjörlega við slík meiðsli í gegnum ferilinn en núna lítur út fyrir að það sé skynsamlegast að hvíla alveg hlaupin. Þetta er vegna þess að verkurinn kemur hvort sem ég er að hlaupa upp eða niður brekkur, á malbiki eða malarstígum og hvort sem ég hleyp hægt eða hratt. Í mörgum tilvikum getur verið nóg að skokka bara rólega og þá á grasi til þess að geta æft með ákveðin eymsli en í mínu tilviki gengur það ekki upp.

Hvað á ég þá að gera?

Augljósast er að líta á björtu hliðarnar en miklu meira heillandi er að vera brjálaður yfir ástandinu og sökkva sér djúpt í leiðinlegar hugsanir. Nei sleppum því þar sem í svona aðstæðum er hægt að gera fullt sem mun gera mig að betri hlaupara. Næstu vikurnar munu fara í það að verða sterkari í gegnum lyftingar og svo mun ég geta gert helling fyrir formið með því að hjóla, nota stigavélina og hlaupa í vatni. Þá verður meiri áhersla á styrktaræfingar fyrir hásinina sem og kvið og bak til að líkaminn verði ólíklegri til að lenda fyrir bakslagi þegar ég fer aftur að hlaupa.

Ég er ekki að stressa mig of mikið á þessu þar sem þetta út fyrir að vera vægt og ég sé fram á að missa ekki út nema 2-3 vikur af hlaupum. Það hefði samt verið mjög auðvelt að reyna að þjösnast á þessu og neita að gefast upp fyrir verkjunum. Hins vegar eftir að hafa prófað hvíld og svo hlaup í kjölfarið var ljóst að það myndi ekki skila neinu.


Skilaboðin eru því að ekki gefast strax upp fyrir eymslum en forðastu allt sem ertir verkinn. Prófaðu þig svo áfram þegar verkurinn er orðinn minni og sjáðu hvað gerist. Eftir þetta þarftu svo að taka ákvörðun um hvað sé best að gera.

Comments


bottom of page