top of page

Hvaðan kemur mín þekking

Updated: Feb 25, 2022



Við fyrstu sýn virðast hlaup vera einhver einfaldasta íþrótt sem til er. Það eina sem við þurfum að gera er að reima á okkur skóna og setja annan fótinn fram fyrir hinn og endurtaka það þangað til við komum í mark. Samt sem áður hafa verið skrifaðar óteljandi bækur um hlaup og ennþá finnast nýjar markvissari leiðir til að ná sem bestum árangri í hlaupum. Í grunninn er það vegna þess að óteljandi leiðir eru til að verða góður hlaupari. Ef við förum út að hlaupa þá bætum við alltaf úthaldið upp að vissu marki, svo einfalt er það. Hinsvegar með því að gera bara eitthvað mun hægjast hratt á framförum og innan skamms verður stöðnun, þá er einnig mun líklegra að meiðsli geri vart við sig. Þess vegna viljum við beita aðferðum sem virka til langtíma og hafa lágmarkslíkur á meiðslum. Þar sem hlaup eru íþrótt án snertingar væri auðvelt að ætla að það væru lítil sem engin meiðsli hjá hlaupurum. Því miður er það í raun undantekning að hlauparar séu alveg lausir við meiðsli. Eitt af stóru þemunum í allri minni nálgun er þess vegna hvernig við hámörkum líkur á árangri á meðan við lágmörkum líkur á meiðslum. Þetta er hugarfar sem skiptir mig miklu máli og mun skína í gegn. Þegar við tölum um árangur þá er það margþætt hugtak. Þetta á ekki aðeins við um það að vera í betra formi og að geta hlaupið hraðar. Þetta snýst líka um að geta haft gaman af því sem við erum að gera og líða vel. Það er árangur að geta hlaupið alla ævi og það er árangur að geta tekið þátt í götuhlaupum sér til skemmtunar. Með bættu úthaldi náum við árangri á mörgum sviðum fyrir utan hlaupin því það hjálpar okkur að vera orkumeiri yfir daginn og koma fleiri hlutum í verk. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar við lesum um að ná árangri því árangur á að vera miðaður við okkur sjálf en ekki hvað aðrir í kringum okkur eru að gera.

Markmið pistlanna

Innihald pistlanna á þessari síðu er samansafn af þekkingu sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. Bæði með því að æfa með bestu hlaupurum í heimi og með því að tala við bestu hlaupaþjálfara í heimi. Einnig hef ég lesið ótal bækur, viðtöl og æfingaáætlanir sem tengjast hlaupum. Þessa þekkingu hef ég notað í minni eigin þjálfun og þegar ég hef þjálfað annarra. Það er ákveðin kúnst að yfirfæra hvernig þeir bestu æfa og hvað er best fyrir byrjendur, þá sem eru aðeins komnir af stað og svo fyrir lengra komna. Til að gera það þarftu að hafa vísindalega þekkingu á hvað hver æfing gerir fyrir líkamann. Úthaldsþjálfun snýst að miklu leyti að því að bæta getu líkamans til að nota mismunandi orkukerfi og vöðvaþræði. Ef við kunnum að æfa á réttum hraða á réttum tímapunkti á æfingatímabilinu fáum við meiri framfarir og meiðumst síður.

90% af hugmyndafræðinni minni kemur frá öðrum hlaupaþjálfurum en minn helst hæfileiki er að finna sameiginlega snertifleti hjá þjálfurunum og að yfirfæra þetta á mismunandi getustig af hlaupurum.

Ef þú vilt kynna þér betur nokkra af þessum þjálfurum þá eru þér hérna fyrir neðan og lykilþættir sem ég hef tekið frá þeirra nálgun. Þessir þjálfarar hafa búið til ótal heimsmethafa og Ólympíumeistara. Það er hægt að skrifa heilar bækur um nálgun hvers og eins, og slíkt hefur að sjálfsögðu verið gert.


Nokkrir af bestu hlaupaþjálfurum í heimi

  • Alberto Salazar - Lyftingar og breitt bil af æfingaákefð

  • Arthur Lydiard - Uppbygging á æfingatímabilinu

  • Jack Daniels - Mjólkursýruþröskuldsæfingar

  • Phil Maffatone - Milliróleg hlaup

  • Renato Canova – Hámarksákefðar sprettir og hraðari langir túrar

1 comentario


Miembro desconocido
06 nov 2020

I like dat!

Me gusta
bottom of page