top of page
Writer's pictureArnar Pétursson

Árið 2021

Updated: Feb 26, 2022

Einhvern veginn hélt ég að þetta ár myndi þróast á annan veg. Upphaflega planið var að æfa meira fyrir styttri vegalengdir fyrstu mánuði ársins og hlaupa svo erlendis gott maraþon síðar á árinu.


Fyrstu mánuðir ársins gengu reyndar vel. Ég bætti mig í 800m og sigraði RIG á mjög eftirminnilegan hátt. Virkilega skemmtilegt að prófa sig áfram í styttri vegalengdum. Eftir því sem leið á árið varð flóknara að komast út í góð hlaup svo ég ákvað að geyma allar ferðir erlendis og einbeita mér að hlaupunum á Íslandi.


Því miður röðuðust stjörnurnar ekki rétt upp í sumar svo heilaga ferningin náðist ekki. Það er gott form, gott veður, góð braut og góð keppni. En gott skap var alltaf meðferðis.

Heilaga ferningin: Gott form, gott veður, góð braut og góð keppni.

Með haustinu ákvað ég að stefna á maraþon í Reykjavík en þegar því var frestað var kærkomið hvíldartímartímabil næst á dagskrá. Það var svo óvænt ákveðið að hafa íslandsmótið í heilu og hálfu maraþoni sama daginn í Haustmaraþoni Félags maraþonhlaupara. Það kveikti aðeins í mér þrátt fyrir að hafa bara sex vikur til stefnu og nýkominn úr þriggja vikna hvíld. Að hluta til því þetta var íslandsmótið og svo vildi ég athuga hvernig líkaminn myndi bregðast við svona álagi. Ekki það skynsamlegasta en klárlega það skemmtilegasta sem hægt var að gera.

Hlaupið kom merkilega vel út og ég náði í níunda íslandsmeistaratitilinn á árinu. Í heildina fannst mér þetta tímabil vera mjög jákvætt. Áþreifanlegar bætingar, bæði hjá mér og mörgum af hlaupurunum sem ég fæ að aðstoða.


Það var svo einstaklega skemmtilegt í lok árs að fá verðlaun sem Götuhlaupari ársins hjá Frjálsíþróttasambandinu, vera valinn Frjálsíþróttakarl Breiðabliks og vera tilnefndur til íþróttakarls Kópavogs en kosningin fyrir þau verðlaun stendur yfir hérna.


 

Utanaðkomandi viðurkenningar gefa manni byr undir báða vængi en ég verð að viðurkenna að þegar ég sé árangur annarra sem ég er að þjálfa gefur það mér ennþá meira. Í ár ákvað ég að opna meira á hlaupaþjálfunina og mér finnst magnað hvað það gefur mikið að sjá æfingar og bætingar hjá öðrum hlaupurum. Ég vona líka að mínar æfingar geti gefið öðrum kraft á sínum æfingum á komandi ári og ætla því að halda áfram að vera duglegur að veita innsýn í æfingar, undirbúning og allt sem snýr að hlaupunum.


Annars get ég ekki beðið eftir næsta ári.

Gleðilegt nýtt ár!

Comments


bottom of page