top of page

Laugavegurinn 2/2

Þá var komið að því, stærsta hlaup tímabilsins og óvissan var meiri en áður. Þetta var lengsta keppnishlaup sem ég hafði hlaupið og í fyrsta skipti sem ég þurfti að vera með ákveðinn skyldubúnað eins og síma, álteppi, flautu og jakka.

Þrátt fyrir margar nýjungar þá hélst morgunmaturinn eins. 500 ml af vatni blandað með NOW steinefnatöflu um leið og ég vaknaði, tvær brauðsneiðar með smjöri, avókadó og sultu, te og 150-200 gr. af bláberjum. Fékk mér svo eitt gel á leiðinni í hlaupið.


Laugavegurinn

Eins og ég endaði síðasta pistil á, þá voru skórnir ein stærsta ákvörðunin fyrir Laugaveginn. Þegar ég fór upp og niður Esjuna (upp á 22:10 og niður á 11:01) þá var ég í Nike Terra Kiger en þegar ég vann Puffin Run þá var ég í Nike Vaporfly next % 2 sem eru maraþon keppnisskórnir mínir. Eftir að hafa verið á báðum áttum þá ákvað ég að þar sem Laugavegurinn er mjög hlaupalegur að það væri best að vera í þeim skóm sem mér finnst best að hlaupa hratt í.

Nike Vaporfly Next % 2

Fyrir hlaupið vissi ég af nokkrum sterkum hlaupurum og þar á meðal sigurvegaranum frá því í fyrra. Það var í raun þægilegt því þá var strategían fyrir hlaupið sjálfákveðin, fara með honum en vera meðvitaður um að hann sé sterkur upp brekkurnar og því ekki fylgja honum grimmt þar heldur sjá hvernig flatari kaflar myndu fara. Eftir 5 km var ég annar og Andrew kominn með fínt forskot en samt þannig að ég gat séð hann. Ég hljóp þarna með öðrum útlending sem var alls ekki hræddur við brekkurnar. Ég spurði hann á hvaða tíma hann væri að stefna því hann var að mása og blása. Hann hváði 4:10-4:20, og ég sagði einfaldlega, yes, we will get there. Því miður mætti hann í mark á 4:55 og hefði betur átt að fylgja gullnu reglu Laugavegsins og reyndar allra hlaupa.

Ekki fara of hratt af stað

Ég byrjaði með kolvetnadrykk í Camelbak squeeze flösku, sex gel, þrjár NOW steinefnatöflur og eina tóma Camelbak squeeze flösku með kolvetnadrykk í dufti með koffín í. Planið var að fylla á brúsann á öllum drykkjarstöðvum og taka gel á sirka 30 mín fresti, nema þegar ég var með kolvetnadrykk í brúsanum. Auk þessa hljóp ég með síma og álteppi í fyrsta skipti á ævinni enda ekki vanur að gera það í maraþonum erlendis. Ég teipaði álteppið og símann saman og setti í vasann á vestinu og teipaði vestið saman svo skoppið myndi vera lágmarkað. Ákveðin upplifun það. Það var svo eftir um 30 km að teipið losnaði svo ég þurfti að ná í símann og álteppið og setja í vasann aftan á buxunum.


Ég kem upp að Hrafntinnuskeri eftir um 53 mín sem ég var bara ágætlega sáttur með enda veðrið ekki upp á marga fiska og ég ennþá mjög ferskur. Niður Jökultungurnar tókst mér að detta þannig að ég rann svona 10 m niður, missti flöskuna og þurfti að klifra aðeins upp til að ná í hana, í leiðinni kom stór steinn í skóinn og ég ákvað rétt fyrir Álftavatn að fara úr skónum og losa mig við steininn. Stuttu áður hafði ég dottið lítillega aftur fyrir mig sem hafði ekki mikil áhrif nema kannski smá sjokk.


Allar drykkjarstöðvar gengu vel og næringarinntakan var fullkomin, það var líka mjög næs að geta séð í Andrew allan þennan tíma og finna að hann var ekki að auka bilið og ég samt ekki byrjaður að auka ákefðina af neinu viti. Ég ákvað að ég myndi hlaupa mitt hlaup, á ákefð sem ég vissi að ég gæti haldið svo til endalaust og var þá með það í huga að ég gæti aukið hraðann síðustu 10 km ef þess þurfti.


Eftir að hafa bara haldið mínu striki og fundið góðan takt í hlaupinu sá ég að ég var að nálgast hann. Það var til dæmis mjög góð tilfinning þegar ég var að hlaupa á söndunum að ég sá sporin hans og ég sá að ég var að taka stærri skref en hann. Hann var semsagt ekki að tæta sandana í sig. Seinni hluti hlaupsins er alveg æðislegur enda byrjar maður þá að hitta fleiri og fleiri Íslendinga. Peppið sem ég fékk þar var alveg ómetanlegt og gaf manni þvílíkan kraft.


Það er svo eftir Kápuna sem ég finn að ég nálgast Andrew alltaf hraðar og hraðar, núna var þetta bara tímaspursmál en ég vildi samt ekki auka mikið því ég vissi ekki alveg stöðuna á honum. Þegar ég næ honum skiptumst við á orðum og hann segir einfaldlega good job, ég spyr hann hvort hann sé ekki bara góður því hann sé með skrámu á sér, hann segir að hann sé fínn. Þarna endaði okkar samvera þar sem ég ákvað bara að halda sama fíling og fram að þessu.


Það var ótrúlega gott að finna að ég hafði hátt orkustig allan tímann og þetta er eitthvað sem mun nýtast í næsta Laugaveg, að sama skapi get ég verið sterkari upp brekkurnar, ákveðnari yfir árnar en ég held ég geti ekki brosað meira. Þetta hlaup er æðislegt í alla staði, stemningin, náttúran og vesenið að koma sér þangað er bara virkilega heillandi.


Að vinna Laugaveginn og koma í mark á 4:04:53 á næst besta tíma sem hefur náðst í brautinni er geggjað. Ef ég ætti að líta á þetta með eins bjartsýnum augum og hægt er, þá er þetta besti tíminn sem hefur náðst með öryggisbúnað (já, mér fannst skrítið að vera með síma og álteppi á mér og ekki mega kasta af mér jakkanum). En að öllu gamni slepptu þá er þetta klárlega eitthvað sem ég mun gera aftur og þá væri einstaklega gaman að sjá þrír sem fyrstu töluna í lokatímanum.


Langar líka að óska öllum sem mættu, kláruðu eða höfðu gaman af til hamingju með sinn Laugaveg. Ekkert af þessu er auðvelt. Stundum mætum við ekki, stundum klárum við ekki og stundum er þetta hundleiðinlegt. Það er allt í lagi að minna sig á þetta og að ekkert af þessu er sjálfsagður hlutur.

Kommentare


bottom of page