Stærsta utanvegahlaup ársins er án efa Laugavegurinn, en af hverju? Þetta er ekki fjölmennasta hlaupið og alls ekki eina utanvegahlaupið með fjölbreyttri og fallegri náttúru. Fyrir mér er þetta stærsta hlaupið af því að þarna mæta flestir af sterkustu hlaupurum landsins og ég held að þetta sé það utanvegahlaup sem markar toppinn hjá flestum sem taka þátt. Það er að segja, margir hlauparar taka þátt í fullt af hlaupum en það er ekki endilega beint verið að stefna markvisst að þessum hlaupum með margra mánaða undirbúningi. Þegar einhver ákveður að hlaupa Laugaveginn þýðir það oftast 6-8 mánaða undirbúningur og svo í vikunum fyrir hlaup er allt lagt til hliðar og passað að mæta eins fersk á ráslínuna og hægt er. Það er ákveðin spenna í loftinu og hver er með sitt markmið.
Laugavegurinn 2022
Ég hljóp minn fyrsta Laugaveg í fyrra og það má segja að það hafi verið ákveðin skyndiákvörðun af því að í staðinn fyrir að hafa 8 mánaða undirbúning var hann nær 8 vikum af markvissum æfingum en fyrir það var planið að hlaupa hröð 5 og 10 km hlaup um sumarið. Auðvitað byrjaði ég ekki á núllpunkti átta vikum fyrir hlaup en Esjurnar fram að þeim punkti höfðu reyndar alveg verið í kringum núllið. Ég hafði þjálfað mikið af hlaupurum fyrir Laugaveginn og labbað hann sjálfur en þetta var ákveðin áskorun sem gaf mér fiðring í magann svo ég lét slag standa.
Hlaupið sjálft gekk svo til fullkomlega fyrir utan að ég datt einu sinni og fékk stein í skóinn og þurfti að því að stoppa einu sinni. Annars var þetta eins og draumur. Ég var reyndar einn nánast allan tímann en ég hafði sterkan breskan hlaupara á undan mér sem ég gat miðað á og náði eftir um 47 km á hlaupum. Það var ótrúleg tilfinning og þvílíkur kraftur sem það var að finna hvatninguna á leiðinni þar sem ég upplifði þetta sem Ísland á móti Bretlandi og það síðasta sem ég vildi væri að leyfa Breta að mæta til Íslands og vinna stærsta utanvegahlaupið. Krafturinn og peppið við að ná honum og koma svo fyrstur í mark á næst besta tíma sem náðst hafði í brautinni á rétt undir 4:05 var ólýsanleg. Svo skemmtileg var tilfinningin í kringum hlaupið, bæði í Hrauneyjum, rútunni og í hlaupinu sjálfu að ég ákvað eiginlega samstundis að ég ætlaði að stefna markvisst að Laugaveginum árið 2023.
Undirbúningurinn
Ég ætla ekki að fjölyrða um undirbúninginn en get samt sagt það að hann gekk nánast óaðfinnanlega. Eiginlega allar æfingar gengu upp og mér tókst að setja brautarmet í flestum hlaupum í aðdraganda hlaupsins. Líklega besta hlaupið var Esjuhlaupið - Tvær ferðir. Þar bætti ég brautarmet Kára Steins um rúmar þrjár mínútur og minn eigin tíma um fimm mínútur, inni í hlaupinu hljóp ég upp að Steini og niður aftur á eitthvað í kringum 34:50, pæling að byrja að tala um Esjuna upp og niður sem bara sirka þrjátíu mínútna æfingu. Eftir hlaupið tók ég svo smá auka æfingu sem gekk líka vel og þarna vissi ég að Laugavegshlaupið var í rauninni klárt, það eina sem ég þyrfti að gera fram að hlaupi væri að halda öllu gangandi og passa að toppa á réttum tíma.
Það getur verið hættulegt að vera kominn í toppform.
Þegar allt er að smella saman og það er ennþá mánuður í hlaup getur verið freistandi að ætla að bæta sig í öllu og keyra á það í öllum hlaupum. Ég fann þessa tilfinningu sterkt og þar sem ég átti eftir að hlaupa í þremur keppnishlaupum fram að Laugavegi var örlítil hætta að toppa of snemma eða gera of mikið og fá þannig of mikla þreytu í fæturna fyrir Laugaveginn. Ég er hinsvegar mjög ánægður með hvernig ég tæklaði hlaupin og það var ekki nema í Akureyrarhlaupinu í hálfu maraþoni þar sem ég fór líklegast aðeins of hratt en markmiðið var að bæta brautarmetið um eina sekúndu en ég bætti það um sirka 26 sekúndur, fílingurinn var einfaldlega það góður að ég leyfði mér að fljóta áfram. Þarna var lokatíminn 1:08:22 en ég á best 1:06:08 og fann að ég var líklega í svipuðu formi ef ekki betra en þegar ég fór 1:06. Það verður því gaman að sjá bætingar í hálfu á næstunni þegar maður fer aftur út að keppa. Eftir Akureyrarhlaupið voru átta dagar í hlaupið og því bara rólegheit framundan.
Keppnisplanið
Fyrir aðalhlaupið á tímabilinu var ég að sjálfsögðu búinn að setja mér ákveðin markmið en þau þrjú efstu sem skiptu mestu máli voru í þessari röð. Að vinna hlaupið, að hlusta á líkamann og að bæta tímann minn frá því árið áður. Hversu hratt ég myndi hlaupa hvern legg átti svo bara eftir að koma í ljós en ég vissi að ef ég hugsaði um þessi markmið þá myndi tíminn koma af sjálfum sér. Of mikil áhersla á ákveðna millitíma getur komið manni um koll því það er hægt að vinna og tapa tíma á svo mörgum stöðum í hlaupinu.
Upphafið
Það voru ákveðin vonbrigði að Andrew Douglas (Bretinn frá því 2022) var ekki skráður til leiks þar sem Breska meistaramótið var um sömu helgi. Fyrirfram var hann skráður og það gerði mikið fyrir mig að vita að ég gæti hlaupið með honum upp að Hrafntinnuskeri þar sem hann var svakalega sterkur upp brekkurnar. Í staðinn fyrir hann myndi þetta þá líklegast vera Tobbi, Þorsteinn og Snorri sem væru hvað sterkastir í hlaupinu.
Það er skotið af byssunni og ég er mættur í forystuna frá fyrstu sekúndu. Ég fer alltaf eftir fíling í byrjun og er frekar of varkár ef eitthvað en eftir fyrstu brekkuna er strax komið bil í næstu menn. Einhver gæti haldið að þetta myndi gefa mér byr undir báða vængi en í staðinn breyttist upplifunin af hlaupinu mjög mikið. Mér fannst ég bæði vera í því hlutverki að rata og passa mig að fara alltaf rétta leið því ekki vill maður tapa tíma á því að hlaupa vitlaust (sem tókst ekkert sérstaklega vel en ég þurfti að stoppa 3-4 sinnum til að átta mig á hvort ég væri ekki örugglega að fara rétt) og svo að halda aftur af mér til að passa upp á forystuna. Ofan á þetta bætist að þú ert einfaldlega einn að halda uppi hraðanum sem er allt önnur andleg upplifun heldur en að ÆTLA bara að ná fyrsta manni, eða vinna næsta mann.
Þegar ég hætti að finna fyrir hlaupurum fyrir aftan mig varð því aðalmarkmiðið að koma mér í Þórsmörk, helst sem fyrst, án þess að detta og án þess að fara yfir strikið orkulega séð. Ég vissi af fjölskyldunni að bíða mín í markinu og ég lét þau því toga mig áfram og passaði að halda einbeitingu allan tímann.
Framhald í næsta pistli.
Comments