top of page

Laugavegurinn 1/2

Það eru fá hlaup jafn stór í hugum Íslendinga og Laugavegurinn. Ótrúlega margir hafa labbað hann og núna er keppst um að fá að hlaupa þessa mögnuðu leið.


Aðdragandinn

Vetrartímabilið hjá mér snerist um að keppa í 800 m og upp í 3000 m innanhús. Það gekk bara merkilega vel en ég bætti mig í 800 m og varð íslandsmeistari í 1500 m og 3000 m innahús og svo 5 km götuhlaupi.


Eftir innanhústímabilið tók ég góða hvíld enda voru bara nokkrir dagar í settan dag hjá mér og Söru. Ég hafði ekki ákveðið nákvæmlega hvað ég ætlaði að stefna á eftir hvíldina þar sem ég vissi ekki hversu mikið eða vel ég gæti æft þegar barnið væri fætt. Salka Sigrún kom svo í heiminn 17. mars og hefur verið ekkert annað en draumur. Svo er Sara allavega topp 8, jafnvel topp 1 móðir á Íslandi.


Ég myndi seint segja að ég hafi aldrei æft betur en miðað við hvernig apríl og maí þróuðust vissi ég að ég gæti æft ágætlega. Upprunalega stefnan var svo að æfa fyrir gott 5 km hlaup og svo mögulega maraþon í kjölfarið síðar á árinu. Þegar ég var byrjaður að æfa kom samt enginn alvöru fiðringur þegar ég hugsaði um að hlaupa 5 km. Þannig ég hugsaði mig aðeins betur um hvað væri skemmtilegast að æfa fyrir.


Ég hef alltaf haft annað augað á Laugaveginum en langað samt að æfa almennilega fyrir hann ef ég ætlaði að vera með. Eftir að hafa hlaupið í Puffin Run í byrjun maí og fundið stemninguna sem fylgdi því hlaupi þá var eiginlega ekki aftur snúið. Því meira sem ég hugsaði um hvort ég ætti að einbeita mér að 5 km eða Laugaveginum því meiri varð fiðringurinn fyrir utanvegahlaupum. Ég hafði ennþá átta vikur til stefnu þannig núna var bara að sjá hverju væri hægt að áorka.

Undirbúningurinn

Ég ákvað það fyrir víst að hlaupa Laugaveginn átta vikum fyrir hlaupið en var að sjálfsögðu ekki á byrjunarreit þegar ég hóf æfingar. Ég var í fínu formi en það var meira í áttina að 5 km götuhlaupi heldur en 55 km utanvegahlaupi.



Ég hef þjálfað marga fyrir Laugaveginn og vissi svo sem hvað þyrfti til að gera vel en ég vissi ekki nákvæmlega hvernig líkaminn myndi svara æfingunum. Sem betur fer náði ég inn góðum æfingum og keppnishlaupum sem æfingum. Þarna ber hæst að hlaupa lengri leiðina niður Esjuna á 11:01 en áður hafði ég farið upp á 22:10, tekið mér 2-3 mín í pásu og svo beint niður. Samkvæmt Strava var þetta hraðasta upp og niður ferð á Esjuna og hraðasta niður ferðin. Góð fyrirheit en kannski ekkert meira en það þar sem Laugavegurinn er töluvert lengri. Ég hljóp í Hvítasunnuhlaupi Hauka, Utanvegahlaupi Nike x Wodbúðar og svo Miðnæturhlaupinu og Akureyrarhlaupinu. Í þessum hlaupum var ég mikið að spá í útbúnaði fyrir Laugaveginn og þá sérstaklega skóbúnaði en það var algjör lykilákvörðun í hlaupinu.



Í næsta pistli fer ég svo betur yfir hlaupið sjálft.

bottom of page