top of page

Klæðnaður í keppnum

Ef ég ætti að taka þennan pistil saman í einni setningu þá væri það, minna er betra. Það er eiginlega óskrifuð regla að eftir því sem hlauparinn er óvanari, því meiri er klæðnaðurinn í keppnum.


Vissulega er hægt að fara of langt í þessum efnum og þá rifjast upp fyrir mér eitt hlaup í París. Þá var ég að hlaupa hálft maraþon og það voru svona 2-3 gráður úti. Ég byrjaði með húfu, vettlinga og hlífar fyrir handleggina sem hægt var að taka af sér. Við hliðina á mér voru nokkrir hlaupara frá Kenýa sem voru að frjósa, bókstaflega, enda mættir í sínum hefðbundnu keppnisfötum, hlýrarbolur og stuttar stuttbuxur. Ég er í engum vafa um það að þeir hefðu hlaupið betur ef þeir hefðu byrjað með húfu og hanska sem hægt væri að henda af sér þegar líkamshitinn væri orðinn meiri í miðju hlaupi, en að sama skapi sá maður að þarna var bara ein hugsun í gangi. Í keppnishlaupum, þá hleyp ég í keppnisfatnaði.


Minna er betra

Ein verstu mistök sem við gerum er að vera of vel klædd í keppni, og þá sérstaklega þegar þetta er klæðnaður sem erfitt er að fara úr. Ég hef þannig séð fólk hlaupa með jakka og flíspeysu bundna utan um sig að reyna að klára síðustu kílómetrana. Það er alveg vafalaust að viðkomandi myndi hlaupa hraðar og líða betur í færri fötum í upphafi.

Líklega full lítið af fötum hérna, sérstaklega á fótunum.

Ef við erum óörugg með klæðnaðinn fyrir keppnir þá er best að vera í sem flestum flíkum sem auðvelt er að fara úr og henda frá sér frekar en að fara í sérstaklega þykkar buxur eða auka peysu. Í köldum hlaupum getur verið gott að vera með lúffur yfir þynnri vettlinga og þannig er hægt að stjórna hitastiginu. Að sama skapi með því að vera með hettu á jakkanum eða hlaupapeysunni sem hægt er að setja upp eða taka niður. Besta leiðin til að stjórna hitastiginu er í gegnum hendur og höfuð og sem betur fer eru þetta auðveldir staðir til að taka af sér flíkur eða bæta við.


Keppnisfatnaður

Ég mæli mjög mikið með því að eiga í hlaupafataskápnum ákveðnar flíkur sem við notum í keppnum eða á mjög erfiðum æfingum.


Þetta ættu að vera léttar flíkur sem hægt væri að nota þegar hitastigið fer í tveggja stafa tölur. Þarna fáum við smá auka fíling í því að fara í keppnisfötum og getur þar af leiðandi hjálpað okkur með andlega þáttinn í hlaupunum, þegar við klæðum okkur í keppnisfötin ættum við að fá smá fiðring. Það er bæði gott að eiga eitt sett fyrir götuhlaup og svo annað fyrir lengri utanvegahlaup.


Þá viljum við hugsa um flík sem andar vel og getur hentað hvort sem það er ágætlega hlýtt og þegar það kólnar í fjöllunum. Oftast virkar keppnisfatnaður fyrir götuhlaup mjög vel fyrir utanvegahlaup en það er ekki alltaf sem keppnisfatnaður fyrir utanvegahlaup virki vel fyrir götuhlaupin. Þetta er vegna þess að það er oft meiri hitamunur í utanvegahlaupum, heitara niðri og kaldara uppi, og keppnisfatnaðurinn þarf að geta hentað við báðar aðstæður, á meðan aðstæður eru einsleitari í götuhlaupunum.


Mín ráð eru að prófa sig áfram hvað varðar klæðnað fyrir keppnir, byrja frekar í of fáum flíkum og hlaupa þá bara hraðar ef þér verður smá kalt (kannski óraunhæft í reynd en getur gert kraftaverk þegar við látum reyna á þetta). Smám saman áttum við okkur á því hversu fá klæði við þurfum til að líða vel í öllum aðstæðum. Ekki láta flíkurnar halda aftur af okkur í hlaupunum heldur frekar vera óhrædd við að verða örlítið kalt og svo hlaupa í okkur hita.

Comentários


bottom of page