top of page

Janúar

Fyrsti mánuður ársins, þegar einhvernveginn allt er mögulegt, nema kannski sól og rauðar tölur. Mér finnst janúar mjög áhugaverður mánuður, það er kalt, það er dimmt en samt eru allir þvílíkt til í að byrja á einhverju, prófa eitthvað nýtt, fara í átak og sigra heiminn. Janúar virkar eins og við höfum allt í einu óskrifað blað fyrir framan okkur og allt sem var á undan telur ekki lengur.

Að nýta sér upphafið

Ef þú hefur lesið nokkra pistla hjá mér þá sést að ég er ekkert sérstaklega hrifinn af skammtímalausnum eða að ætla að keyra beint á maraþon þegar lengsta hlaupið hingað til er 5 kílómetrar. Það er þó ekki þar með sagt að það sé ekki hægt að nýta sér hugarfarið sem er í gangi þegar við tökum ákvarðanir að fara í átak eða byrja á einhverju nýju. Þetta er nefnilega hugarfar sem kemur ekkert allt of oft á ári og líklega aldrei jafn sterkt og í janúar.


Mér finnst þess vegna snilld að fylgjast með þegar ræktirnar fyllast og að spjalla við alla sem ætla að breyta heiminum í ár. Ég upplifi þetta sjálfur, að sjá janúar sem upphafið á nýjum tímum, ég kannski fer ekki í mörg átök en hef haft sama áramótaheitið síðustu tíu árin. Að hreyfa mig meira... Augljóslega djók en að sama skapi ekki, því ef ég ætla að halda áfram að taka framförum þá verð ég að vera í kringum sama æfingamagn og ég var í fyrra. Mér finnst bara gaman að nefna þetta því margir hafa sama áramótaheiti en kannski af öðrum ástæðum.

Horft fram á veginn

Já, við hefðum viljað gera eitt og annað öðruvísi á síðasta ári en hverjum er ekki sama? Það er ótrúlega hollt að byrja með hreinan skjöld og sjá ekkert nema möguleika. Janúar má alveg vera mánuður þar sem við prófum að fara í átak, gera eitthvað nýtt og setja okkur stór markmið. Vissulega nást fæst af þeim ef við horfum á ískaldan raunveruleikann úr rannsóknum, en fyrir suma er þetta upphafið að nýju ferðalagi.


Ég hef reynt að temja mér hugarfarið að vera meðvitaður um fortíðina en horfa alltaf fram á veginn. Janúar er samt mánuður þar sem ég reyni að hvíla hálsliðina og beina augunum bara beint áfram.

bottom of page