top of page

Íslenska hlaupasumarið

Það gerist um það bil einu sinni á ári að íslenska hlaupasumarið byrjar. Ekkert það augljós staðreynd þar sem ekki er hægt að miða við veðrið. Persónulega finnst mér þetta fara af stað seinni hlutann í apríl og byrja af alvöru í maí.


Núna er tímabil að fara í gang þar sem er í boði að taka þátt í hlaupum í nánast hverri einustu viku og stundum eru tvö til þrjú hlaup í viku. Þetta tímabil varir svo til sleitulaust þangað til í lok september. Það er því bæði nægur tími til stefnu en að sama skapi fer hver að verða síðastur ef það er vilji til að upplifa hversu skemmtilegt íslenska hlaupasumarið getur verið.


Mig langaði því að setja nokkur orð á blað og fara yfir hvað sé gott að hafa í huga til að nýta hlaupasumarið sem best.


Undirbúningur

Ef við erum bara rétt að fara af stað eftir veturinn, sem var óvenju erfiður og með mikið af veikindum, þá er rosalega mikilvægt að ofgera sér ekki fyrstu vikurnar. Við viljum þá hafa í huga að hlaupasumarið nær alveg fram í september og að það er ennþá góður tími til stefnu. Það versta sem við myndum gera núna væri að hoppa beint inn í keppnishlaupin og setja þannig mögulega of mikið álag á líkamann og verða fyrir meiðslum. Reynum frekar að nota maí til að koma undir okkur löppunum og ná í 3-4 skokk í viku.


Tökum (keppni)hlaup sem æfingu

Það getur verið ótrúlega gaman að taka æfingu inni í keppnishlaupi. Hérna tala ég um keppnishlaup sem öll skipulögð hlaup. Því miður er það stundum fælandi að tala um keppnir því það setur svo mikla alvöru í þetta en það er einmitt málið sem við viljum æfa. Að mæta í alvöru viðburð en taka bara æfingu og hafa gaman. Þetta getur verið þrautin þyngri fyrir marga en ef við æfum okkur í þessu þá náum við að taka þátt í miklu fleiri hlaupum yfir sumarið án þess að ofgera okkur.

Komum síðust í mark

Ef við erum hikandi að mæta í hlaup þá get ég alveg lofað því að það er enginn að spá jafn mikið í hvar við lendum og við sjálf. Þess vegna finnst mér eitt besta ráðið vera að hafa það að markmiði að koma síðust í mark. Af hverju? Jú þá eru framfarir í næsta hlaupi svo til tryggðar, bæði hvað varðar sæti og tíma. Svo mun það að öllum líkundum koma okkur á óvart hversu góð við erum í raun og veru og hversu fjölbreyttur hópur það er sem mætir í hlaupin á Íslandi.


Setjum markið lágt og tryggjum bætingar í næsta hlaupi.

Ég er sjálfur mjög spenntur að fá öll hlaupin af stað aftur eftir tjah, einn kaldasta vetur sögunnar sem neitar að enda. Ég ætla ekki að biðja um gott veður í sumar því við vitum hvernig það fer en ég væri mjög til í að sjá fleiri ný andlit í hlaupunum og baráttu um hvaða hlaupari kemur síðastur í mark.

bottom of page