Íslandsmet í 100 km
- Arnar Pétursson

- Aug 13
- 7 min read
Það tók mig 6:45:16 að klára 100 km sem gerir um 4:03/km meðalpace eða 14.8km/klst á brettinu. Þetta er níundi besti tími í heiminum og gefur 1041 stig hjá World athletics sem jafngildir tíma upp á 2:15:03 í maraþoni og er því minn besti árangur hingað til.
Þessi keppnissaga á ekki að vera alveg jafn löng en mér finnst samt gott að fara aðeins yfir aðdraganda hlaupsins og hvernig hlaupið gekk í heild sinni. Alltaf hægt að læra og betrumbæta og það gerist eiginlega ekki nema þegar við skrifum hlutina niður.
Aðdragandinn
Það má eiginlega segja að fræinu um að hlaupa einhverntímann 100km hlaup hafi verið sáð um leið og ég byrjaði í hlaupum. Þá var Sigurjón Sigurbjörnsson að slá íslandsmetið og var einn af þeim hlaupurum sem ég mætti stundum á hlaupum. Það sem mér fannst merkilegast við hann var að ég sá hvað hann var með sterkan haus og að sama skapi fannst mér hlaupastíllinn vera þvílíkt flottur. Svo var hann kominn yfir fimmtugt og samt að hlaupa maraþon á undir þremur tímum eins og ekkert væri. Það verða svo ákveðin kaflaskil í 100 km hlaupum á Íslandi og þau falla aðeins niður þannig það var aldrei í boði fyrir hugmyndina að eiga sér stað í hausnum á mér enda var minn fókus að hlaupa sem hraðast í maraþoni.
Ég hleyp í Berlínarmarþoninu á 2:20:12 í september 2024 og fannst mér ég þá sanna fyrir sjálfum mér að ég gæti vel farið undir 2:19 sem var Ólympíulágmarkið þegar ég byrja að stefna á Ólympíuleikana og í raun aðalmarkmiðið þegar ég skipti úr körfubolta yfir í hlaup. Eftir þetta hlaup fann ég fyrir ákveðnu frelsi hvað varðaði markmið en ég átti líka von á öðru barni í mars þannig ég vildi ekki stefna á vormaraþon og helst vera sem minnst erlendis árið 2025. Í lok árs kemur svo tilkynning að það eigi að halda 100km Íslandsmót á vottaðri braut í ágúst 2025. Þetta vakti strax áhuga hjá mér, sem kom mér smá á óvart en það var eitthvað við tímasetninguna, brautina og áskorunina sem gaf mér kitl í magann. Ég hef oft hlaupið hjá Rauðavatni en hafði aldrei hlaupið í hringi þarna. Ég var í hvíldartímabili eftir Berlínarmaraþonið og ákvað að fara og labba einn hring til að athuga hvaða tilfinningar kæmu upp. Í stuttu máli leist mér mjög vel á brautina enda eru einar af uppáhalds hlaupaaðstæðunum mínum að fara í kringum vatn og vera með tré allt í kring.
Ég vildi samt geyma það að skrá mig þangað til ég myndi sjá hvernig fyrstu mánuðirnir með tvö börn færu af stað og lukkulega hefur allt gengið eins og í sögu. Það var svo algjör stemning að skrá sig í hlaupið og ég fann strax að ég væri peppaður í að taka lengri æfingar en venjulega.
Æfingar
Það breytist töluvert mikið í æfingum fyrir 100km hlaup og maraþon en í maraþonundirbúningi hef ég lengst farið 37 km í vegalengd og 2.5 klst í tíma. Núna voru margar æfingar í kringum 3 tímana og sú lengsta varð 65.5 km og 4:33 klst, þegar ég hljóp frá Egilsstöðum á Borgarfjörð eystri.
65.5 km æfingin gekk svakalega vel þar sem ég var á meðalpace-inu 4:10, með um 1000 m hækkun og í kringum 150 í meðalpúls. Hinsvegar þá er ég náttúrulega að hlaupa á götunni og hleyp nánast eingöngu á móti umferðinni, eins og er betra að gera, nema þá hallar gatan allan tímann örlítið. Yfir svona langan tíma hefur það áhrif og ég fékk smá eymsli í utanverða ristina hægra megin. Ég var því haltrandi í nokkra daga en var sem betur fer nokkuð snöggur að verða betri og gat æft með því að labba í halla, hjóla, hlaupa í vatni og annað. Ég hinsvegar geymdi það að hlaupa á jafnsléttu nánast alveg fram að 100km hlaupinu. Þar sem ég gat ekki æft alveg eins og ég vildi þá ákvað ég að prófa eitthvað sem ég hef ekki gert hingað til en það var að notast við saunu prógram. Þetta þýddi að ég myndi fara í saunu 17 sinnum fram að hlaupi eða nánast daglega með stigvaxandi og svo stigminnkandi hætti. Þetta gaf æfingunum aðeins meiri tilgang þar sem ég var ekki að hlaupa á jafnsléttu eins og ég hefði gert ef ég finndi ekki fyrir eymslunum.
Sem betur fer næ ég mér svo til alveg góðum af eymslunum og næ að taka mjög sterkar æfingar í Esjunni og í halla á brettinu og finnst eins og formið gæti ekki verið mikið betra dagana fyrir hlaup.
100 kílómetra hlaupið
Það var áhugavert að vera að díla við svona eymsli rétt fyrir hlaup en að sama skapi tók það hugann frá því að pæla í vegalengdinni heldur var ég meira að vona að ristin myndi halda og að þetta væri ekki að aftra mér í hlaupinu.

Þegar ég skoðaði veðurspána fyrir hlaup leit út fyrir að það yrði vindur og skýjað. Ekkert fullkomnar aðstæður en gott að það væri ekki rigning eða heiðskírt. Það er svo bara rétt kvöldið fyrir hlaup sem ég sé að það gæti orðið ansi heitt og jú, sólin ætlaði að vera með okkur allan daginn. Þetta eru alls ekki kjöraðstæður fyrir mig en ég hef bókstaflega aldrei átt gott hlaup þegar það hefur verið sól allan tímann. Þarna voru utanaðkomandi aðstæður sem ekkert var hægt að gera í nema vera með derhúfu og passa að kæla sig frá fyrstu mínútu.
Kílómetrar 0-60
Ég fer af stað mjög léttur og góður og er að halda hraða á bilinu 3:47-3:55 með púlsinn rokkandi um 150 sem var eins og lagt var upp með. Það gekk ótrúlega vel að næra sig en ég fann líka að sólin væri aðeins að taka aukalega úr mér, það var því nauðsynlegt að dýfa húfunni ofan í klakavatn eftir hvern hring og passa upp á líkamshitann. Andlega var ég lítið að spá í hversu langt ég væri komin og leit bara á klukkuna þegar kílómeter splittin birtust og passaði að fara ekki of hratt upp brekkurnar. Það var líka ákveðin mantra í gangi að það væri ekki byrjað að vera merkilegt að halda svona hraða þangað til um 50 km enda margir sem hafa hlaupið maraþon á þessum hraða, en ég fer í gegnum maraþon tímann á rétt undir 2:45. Ég vissi að ég gæti vel haldið þessum hraða upp í 60 km en svo myndi óvissan fara að byrja.
Kílómetrar 60-90
Það var eins og við manninn mælt að um leið og ég kemst í 60 kílómetra að þá byrjar kerfið að finna aðeins fyrir þessu. Það var þó ekki vöðvaþreyta heldur fann ég að sólin var að slökkva aðeins á mér. Ég var að svitna meira en venjulega og upp úr 65 kílómeter fékk ég smá krampaskot aftan í læri. Stuttu seinna kom smá skot í báða kálfana og svo framan á bæði lærin og í bæði innanverð lærin. Þetta voru meira skot, eða hótanir frá líkamanum en ég fékk ekki krampa af fullum krafti. Þarna var meðalhraðinn í kringum 3:54/km og ég ákveð að núna verður þetta frjáls aðferð upp í 80 kílómetra. Ég hætti að horfa á splittin frá úrinu og er eingöngu að pæla að vera eins nálægt mörkunum og ég get án þess að fá krampa. Ég fer að sama skapi að passa mig sérstaklega mikið að taka inn steinefni og nægilega mikinn vökva. Ég vissi að ég myndi ná góðum tíma svo lengi sem ég þyrfti ekki að stoppa alveg út af krömpum. Það sem var mjög jákvætt á þessum tíma var að um leið og hraðinn minnkaði þá lækkaði púlsinn með. Það þýddi að það var orka í kerfinu og líkaminn gæti alveg farið hraðar en ég vildi ekki taka áhættuna því þegar ég jók aðeins hraðann fann ég að kramparnir nálguðust. Þetta er samt jákvætt fyrir næsta 100 km hlaup þar sem ég veit að ég get hlaupið hraðar í minni sól.

Kílómeter 90-100
Í gegnum löng hlaup þá lít ég eiginlega aldrei á heildartíma eða heildarveglengd sem er komin. Ég vil bara vera í hverjum kílómeter fyrir sig og meta stöðuna á líkamanum jafnt og þétt. Það var samt eitt augnablik þegar ég lít á úrið og sé töluna 91 í kílómetra glugganum sem ég fatta svona aðeins hvað maður er jú búinn að hlaupa langt enda ekki á hverjum degi sem svona tölur dúkka upp. Þarna var ég líka byrjaður að finna lyktina af endamarkinu og búinn að vera að telja niður í hausnum frá kílómeter 80. Þar sem líkaminn var að díla við mögulega krampa þá vildi ég ekki hugsa of mikið um pace og var meira að dansa á línunni og passa að næra mig. Ég byrjaði því að telja niður hversu oft ég ætti eftir að koma geli ofan í mig, hversu marga hringi ég ætti eftir og svo hversu marga kílómetra. Að vera með þrjá hluti til að telja niður hjálpaði helling andlega enda var ég þá eiginlega alltaf að nálgast markið og ná litlum vörðum á leiðinni.
Það var mjög jákvæð upplifun að geta aukið í síðasta hringnum en mig langaði líka til að athuga hversu nálægt krampa ég gæti verið í hlaupi en ég hef aldrei fengið krampa þannig þetta var smá ný reynsla fyrir mér. Það kom mér á óvart hvað ég gat aukið og að geta hoppað yfir línuna í lokin var ólýsanleg tilfinning.
>100 kílómetrar
Ein af ástæðunum sem heilluðu mig við þetta hlaup var að hlaupa einmitt í hringi. Fá að vera í samþjáningu með öðrum hlaupurum og fá pepp frá fjölskyldu og vinum í gegnum allt hlaupið. Þetta var því ein af skemmtilegustu upplifununum á ferlinum og ótrúlega ljúft þegar svona langt hlaup gengur upp. Þau Simona og Sigurjón eiga algjört hrós skilið fyrir að halda þennan viðburð sem er vonandi kominn til að vera.

Ég er mjög meðvitaður um að þótt hlaup séu einstaklingsíþrótt þá nær enginn hlaupari árangri einn og skiptir öllu máli að hafa gott fólk í kringum sig. Ég er mjög þakklátur öllum sem komu að hvetja og að sama skapi öðrum hlaupurum í brautinni sem gáfu sér tíma til að kalla smá pepp á mann og auðvitað Mari Jaersk fremst í flokki.
Eftir hlaupið var líkaminn ágætlega góður en kerfið í algjöru hakki. Upplifði rosalegt orkuleysi og svona kuldakast á næsta leveli. Hef fengið svona kuldaköst eftir maraþon en þetta var eitthvað allt annað. Núna nokkrum dögum eftir hlaup finn ég lítil sem engin eymsli sem er að sama skapi mjög gott merki um að æfingar hafi verið með réttu sniði og líkaminn tilbúinn í svona átök. Þetta er mjög verðmæt reynsla sem ég held ég nýti mér klárlega og fari í annað 100 km hlaup á næsta ári.






Comments