Hvenær ertu að æfa hlaup?
- Arnar Pétursson

- Aug 25
- 2 min read
Núna er fjölmennasta hlaup ársins nýafstaðið og var talað um að yfir 17.000 manns hefðu tekið þátt. Ég fór því að velta fyrir mér hversu margir þátttakendur upplifa að þau séu að æfa hlaup, hversu margir skilgreina sig sem hlaupara og svo hvenær við getum talað um að einhver sé að æfa hlaup.
Ég hljóp til að mynda mitt fyrsta maraþon árið 2009 á tímanum 2:55:52 en var að æfa körfubolta á þessum tíma og skilgreindi mig sem slíkan. Ég tók enga hlaupaæfingu fyrir hlaupið og mér leið ekki eins og ég væri að æfa hlaup. Fyrir mér skiptir því ekki máli hvort þú náir góðum tíma, það þýðir ekki að þú sért að æfa hlaup.

Fyrsta skrefið - Byrja að æfa
Ég tók svo ákvörðun tveimur árum síðar að mig langaði að æfa markvisst fyrir maraþonið og sjá hvað ég gæti gert. Ég hafði því beint sambandi við Birgi Sævarsson frænda minn sem var á þeim tíma einn besti maraþonhlaupari Íslands. Hann gerði fyrir mig prógram og ég fylgdi því. Ég var ennþá að mæta á körfuboltaæfingar samhliða þessu en núna var ég í hausnum að æfa bæði körfubolta og hlaup.
Í mínum huga byrjarðu því ekki að æfa hlaup fyrr en allavega tveir hlutir eru sannir.
Þú ert að æfa fyrir eitthvað, getur verið hlaup eða bara almenn heilsa.
Þú ert að fylgja prógrammi sem tekur mið af þínum markmiðum.
Þegar við erum með báða þessa hluti í lagi kemur svo annar hlutur mjög eðlilega til okkar og það er að við byrjum að skilgreina okkur sem hlaupara. Þegar sú skilgreining er orðin partur af okkar sjálfsmynd verða æfingar auðveldari og hlaupin skemmtilegri. Ég fór aldrei sjálfur út að hlaupa áður en ég byrjaði að æfa hlaup en um leið og ég var með markmið og prógram þá var fátt meira gefandi en að klára hlaupaæfingu.
Hætta að æfa eða byrja að æfa?
Margir hlauparar hafa verið að stefna á að toppa í Reykjavíkurmaraþoninu og þá markar það ákveðinn endi á tímabilinu. Oft er samt ennþá mikill andi í hlaupurum og sumir framlengja tímabilið yfir Hleðsluhlaupið en taka hvíldina eftir það. Ég mæli eindregið með því að framlengja tímabilið ekki of lengi því þá erum við bæði að auka líkurnar á meiðslum en líka að auka líkurnar á að við rekumst á veggi andlega og þá endumst við ekki lengi í hlaupum.

Fyrir þau sem hlupu um helgina en hafa ekki æft eftir plani eða með markmið tengt hlaupunum er annað upp á teningnum. Núna er einmitt tíminn til að nýta peppið sem fylgir því að taka þátt í svona stórum viðburði og prófa að æfa hlaup, skilgreina sig sem hlaupara og sjá hvað gerist. Það skiptir ekki máli hvort þú varst með þeim fremstu eða öftustu, það geta allir byrjað að æfa hlaup.
Vonandi náum við að búa til fleiri hlaupara í kjölfarið á svona stórum viðburði því það er fátt meira gefandi en að hafa hlaupin með sér í liði.





Comments