top of page

Hlaupahópur Stjörnunnar

Núna hef ég verið að þjálfa hlaupahóp Stjörnunnar í tæpt ár sem hefur verið þvílíkt skemmtilegt. Ég var ekki viss um hvort þetta myndi ganga upp samhliða mínum æfingum en raunin er að þetta hefur komið mjög vel út. Mig langaði því að skrifa nokkur orð um hvernig þjálfunin fer fram og hvernig æfingar verða í vetur og vonandi peppa nokkra til að bætast við nú þegar flottan hóp.

Fjórar sameiginlegar æfingar í viku

Við hittumst fjórum sinnum í viku og svo er ein valæfing sem fólk getur gert í sínum eigin tíma ef það er vilji fyrir því að gera meira. Ég þjálfa þrisvar í viku eða alla virka daga. Þá stjórna ég æfingunni og er innan handar ef spurningar vakna. Svo á laugardögum hittist hópurinn sjálfur og tekur saman aðeins lengri hlaup.

Dagskráin mun líta svona út í vetur.


Mánudagur 17:30 í Ásgarði - Hlaup

Miðvikudagur 17:30 inni í Miðgarði - Hlaup og styrktaræfingar

Fimmtudagur 19:10 inni í Kaplakrika - Gæðaæfingar

Laugardagar 09:30 í Ásgarði - Lengri hlaup


Rétt uppbygging

Fyrir mér skiptir öllu máli að gera þetta eins rétt og mögulegt er svo við forðumst meiðsli og hámörkum líkur á árangri og vellíðan. Ég hvet fólk til að fara á sínum hraða og því hægar því betra, sérstaklega í rólega skokkinu. Í hlaupahópnum fá allir aðgang að plani fyrir tvær vikur í senn en þessar æfingar eru settar inn á lokaðan facebook hóp og svo eru búnir til facebook viðburðir til að halda fólki á tánum.


Tímabilið miðar að því að við séum í toppformi í mars og apríl og svo í júlí og ágúst. Þannig veturinn fer í uppbyggingu og passa að við séum örugglega að tikka í öll boxin. Þetta snýst ekki um að keyra sig sem mest út á æfingum heldur eru það þau sem mæta á flestar æfingar sem ná mestum árangri. Mantran ætti að vera:

Mætingar eru bætingar.

Ég vil að allir læri að njóta þess að hlaupa í staðinn fyrir að þvinga inn hlutina.


Fyrir hverja

Ég sé hlaupahóp Stjörnunnar fyrir mér sem vettvang fyrir alla sem vilja njóta góðs af því að hlaupa í hóp og að sama skapi fá handleiðslu frá þjálfara. Einnig er hægt að vera með sér prógram og mæta líka hjá hlaupahópnum þegar það hentar. Í grunninn á hlaupahópurinn að vera fyrir alla, byrjendur og lengra komna. Það þarf ekki að hlaupa sig í form til að geta mætt á æfingar heldur skiptir bara öllu máli að mæta, aftur og aftur. Þá byrja hlutirnir að gerast.


Það er frjálst að mæta á eina eða tvær æfingar til að prófa og sjá hvort þetta henti en annars fer skráning svo fram á Sportabler.com
Comments


bottom of page