Jákvæðni og bjartsýni eru held ég tveir mikilvægustu eiginleikar sem við getum tileinkað okkur. Stundum hef ég heyrt að þetta sé meðfætt en ég vil miklu frekar trúa að hver og einn geti haft áhrif á sína sýn og viðhorf á lífið.
Ef ég myndi eingöngu sjá hlaupaárið 2020 í sinni neikvæðustu mynd þá væri vissulega af nógu að taka. Ég fékk ekki að hlaupa maraþon þrátt fyrir að vera í besta formi lífs míns og það hefur aldrei verið jafn erfitt að ná inn æfingum og núna. HInsvegar eru þessar hugsanir dags daglega aldrei mjög ofarlega hjá mér. 2020 var bara frábært ár í hlaupunum, fullt af tækifærum, áskorunum og ómetanlegum lærdómum. Svo endaði þetta ár á einhvern ótrúlegan hátt á rosalegum upplifunum, innan sem utan vallar.
Ég byrjaði árið með því að skipta yfir í uppeldisfélagið Breiðablik og fór svo í kjölfarið í æfingabúðir í Iten, Kenía. Mér líður eins og það hafi verið fyrir átta árum síðan og smá skrítið að hugsa um hvernig heimurinn var þarna. Þetta voru samt án efa mínar bestu æfingabúðir, ég náði að æfa svakalega vel og var að svara álaginu ótrúlega vel. Var byrjaður að kitla í fæturna að sýna formið. Það er auðvelt að fyllast andagift þegar maður æfir við þessar aðstæður og sér hundruðir af bestu hlaupurum í heimi að æfa saman á hverjum degi í 2500 m hæð.
Í febrúar varð ég Íslandsmeistari í 1500 m og 3000 m innanhús. Í 1500 m þurfti hinsvegar dómari að úrskurða sigurinn en þar varð smá atvik í næst síðustu beygjunni. Það var metið að ég væri með fyrstu brautina en við Sæmundur rekumst þarna saman þannig að ég missi jafnvægið. Hérna fyrir neðan er hægt að sjá atvikið.
Í mars fer ég svo út til Þýskalands og Hollands til að hlaupa í 10 km og hálfu maraþoni (21,1 km). Því miður fékk ég slæmt veður í bæði skiptin en náði samt að hlaupa á mínum besta tíma í báðum vegalengdum og sérstaklega ánægður með hálfa maraþonið. Þar kom ég í mark á tímanumn 1:06:12 í 10m/sek sem ætti kannski bara að vera eins og að hlaupa á heimavelli. Þetta var á þeim tíma næst besti tími Íslendings í hálfu maraþoni og gaf góð fyrirheit fyrir apríl maraþon.
Það þarf ekki að fjölyrða um hvað fylgdi í mars og apríl en ég ákvað að nýta sumarið í að einbeita mér að meiri hraða. Það gekk mjög vel og bætti ég mig í 5 km á Akureyri þegar ég hljóp á miður skemmtilegum tíma 15:00, og svo hljóp ég mitt besta hlaup í Adidas Boost hlaupinu þegar ég fór 10 km á 30:26 og aðeins Kári Steinn sem hefur hlaupið hraðara 10 km hlaup á íslenskri grundu. Þetta reyndist svo vera síðasta hlaupið á hlaupasumrinu. Víðavangshlaup ÍR fór reyndar fram og eiga þau mikið hrós skilið fyrir flottan viðburð við erfiðar aðstæður. Víðavangshlaup ÍR var jafnframt íslandsmótið í 5 km götuhlaupi og var mjög gaman að koma þar fyrstur í mark. Auk þess stendur upp úr að verða íslandsmeistari í 10.000 m, 5000 m og 3000 m hindrunarhlaupi. Þegar maður les hvernig þetta sumar fór mætti halda að hér hefði allt verið með venjulegum hætti og smá skrítið að hugsa sér að allir þessir viðburðir hafi farið fram þrátt fyrir allt.
Lengi vel hélt ég í vonina um að það færi fram maraþon í október, en allt kom fyrir ekki. Það var hinsvegar mikil upplifun og alltaf rosalegur heiður að vera valinn í landsliðið til að keppa á heimsmeistaramótinu í hálfu maraþoni sem fór fram í Póllandi. Allt í sambandi við þessa ferð var ótrúlega skrítið. Tilfinningalega og andlega var ég ekki alveg á staðnum og svo þegar hlaupið fór af stað var ljóst að líkaminn var ekki heldur þarna. Ég fékk krampa í magann og þurfti að hætta í hlaupinu. Þetta er samt reynsla sem ég tek með mér í næstu hlaup og í raun þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að upplifa þetta. Við tók tveggja vikna hvíldartímabil og núna er ég kominn á áttundu viku í þessu æfingatímabili.
Þetta uppbyggingartímabil er án efa það sem sker sig mest úr á mínum ferli. Það eru engin hlaup eða dagsetningar til að stefna á og aðstaðan til að æfa hefur aldrei verið erfiðari. Ég hef samt tamið mér það að líta alltaf á tækifærin í aðstæðunum og fannst eitthvað heillandi við það að vera bara mættur hundrað ár aftur í tímann og ímynda mér að ég væri að æfa árið 1920. Þá var ekkert til af því sem ég saknaði og enginn möguleiki á að skjótast til útlanda í æfingabúðir. Ég ákvað líka að búa til þessa heimasíðu til að gera hlaupin ennþá opnari fyrir alla sem hafa áhuga. Mig langar þess vegna að segja auka takk!, þú sem ert að lesa þetta. Ég kann ótrúlega mikið að meta þetta, tek þessu ekki sem sjálfsögðum hlut og mun áfram leggja mig fram við að gera mitt besta.
Það eru einföld skilaboð, að gera sitt besta, en þau eiga svo oft við og fela meira í sér en við áttum okkur á. Það er efni í annan pistil.
Í upphafi árs ákvað ég að skipta um félag og fara í Breiðablik enda Kópavogsbúi í húð og hár. Mér þótti vænt um minn tíma hjá ÍR og ekki síst þakklátur fyrir Gunna Palla þjálfara og alla í Team GPJ en fannst kominn tími til að fara heim. Núna í desember fékk ég svo að vita að ég hefði verið valinn frjálsíþróttamaður Breiðabliks og tilnefndur til íþróttamanns Kópavogs. Þótt desember sé dimmasti mánuður ársins voru óvenju margir ljósir punktar.
Í lokin langar mig að segja við alla sem ég hef tekið þátt í að þjálfa að ég er fáránlega stoltur af ykkur. Það er búið að vera erfitt að horfa á hlaup eftir hlaup frestað en hvernig þið hafið haldið áfram finnst mér magnað. Það var gaman að prófa að æfa árið 1920 en ég hlakka mikið til að kíkja á 2021.
Comments