Mér finnst mjög gaman sjá fólk hlaupa en það fyrsta sem ég horfi alltaf á eru hendurnar.
Hugsað um hendurnar
Það er nokkuð augljóst að hlauparar hafa allskonar handahreyfingar á hlaupum. Meira að segja nota bestu hlauparar í heiminum hendurnar á mjög mismunandi hátt og það er miklu meiri munur á höndunum heldur en fótunum. Þetta er vegna þess að hendurnar skipta ekki öllu máli þegar kemur að því að ýta okkur áfram. Við getum í rauninni hlaupið býsna hratt án þess að hreyfa hendurnar yfir höfuð. Við förum hinsvegar ekki fet án þess að hreyfa fæturna, nokkuð augljóst. En af hverju þá að horfa svona mikið á hendurnar?
Við þurfum meðvitað að hugsa um það hvernig við hreyfum hendurnar og oft á tíðum er það einmitt þess vegna sem þær eru það fyrsta sem fer úrskeiðis í hlaupastílnum þegar við þreytumst. Þú getur hreyft hendurnar á mjög mismunandi hátt en samt alltaf hlaupið nokkuð auðveldlega á sama hraða. Ef þú breytir fótunum mikið þá fer þetta fljótt úrskeiðis. Þótt hendurnar séu ekki það mikilvægasta í hlaupastílnum þá eru þær það fyrsta sem ég vil að fólk hugsi um hjá sér í hlaupastílnum. Þær geta nefnilega stjórnað ótrúlega miklu varðandi hvernig restin af líkamanum bregst við og svo er líka merkilega auðvelt að breyta hvernig við nýtum hendurnar. Síðast en ekki síst er meiðslahættan á því að breyta handahreyfingunum lítil sem engin.
Nýta hendurnar
Með því að hreyfa hendurnar nokkuð beint aftur þannig fingur snerta mjaðmabeinin á leiðinni aftur, hafa fingur slaka og ekki láta hendur krossa yfir miðjuna á leiðinni fram, þá er hægt að bæta hlaupastílinn talsvert í leiðinni. Þetta veldur því að allur líkaminn er afslappaðri og við nýtum orkuna betur. Þarna byrjum við líka að búa til líkamsmeðvitund í hendurnar sem hjálpar okkur að nota þær rétt þegar við verðum þreytt í lokin á hlaupum og æfingum.
Ég kannski fer dýpra í hendurnar seinna en ég man þegar ég var að byrja og sá í fyrsta skipti myndband af mér að hlaupa við hliðina á reyndum hlaupurum hvað hendurnar mínar voru allt öðruvísi. Þarna var ég að koma úr fótbolta og körfubolta og hendurnar víraðar í að dripla bolta, verja boltann og fara öxl í öxl. Það tók mig alveg 1-2 ár að ná að breyta þessu þannig að þetta varð ósjálfráður partur af hlaupastílnum en er mjög ánægður að hafa farið í þessa vinnu. Er ágætlega viss um að ég líti meira út eins hlaupari í dag og svo hef ég líka fundið hvað þetta hefur bætt hlaupahagkvæmnina mikið enda minna af orkunni að fara til hliðar.
Comments