top of page

Endurheimt

Nú styttist í að ég fari í mánaðaræfingabúðir til Kenía en þetta er í þriðja skiptið sem ég held til mekka hlaupanna í Iten, Kenía Home of Champions eins og heimamenn kalla staðinn.


Þegar maður fer í æfingabúðir er mikilvægt að mæta tiltölulega ferskur til leiks og þess vegna er ég núna í endurheimtarviku. Ekki hvíldarviku, heldur endurheimtarviku.

Endurheimt

Ég man vel eftir því þegar ég sendi Hlaupabókina í yfirlestur að ég fékk eina athugasemd um að endurheimt væri ekki rétta orðið til að nota yfir það sem ég væri að lýsa. Endurheimt og endurheimtir væru orð sem eru notuð í fjármálaheiminum en ekki yfir eitthvað sem gerist í líkamanum. Yfirlesarinn var kannski ekki alveg nægilega mikið inn í íþróttaheiminum en ég er samt alveg sammála að vissu leyti. Endurheimt er frekar óþjált orð og þess vegna notum við oft bara enska heitið, recovery, þegar við erum að tala um endurheimt.


Á hinn bóginn er þetta mjög lýsandi orð þar sem við erum að endurheimta eitthvað, í okkar tilviki ferskleika, bæði líkamlega og andlega. Til þess að vera tilbúin í að taka við meira álagi í framhaldinu. Þetta er því ekki algjör hvíld, eða rest á ensku, þar sem hvíld bendir til þess að við séum ekki að gera neitt. Endurheimt er virkt ferli sem við tökum þátt í og getum haft áhrif á.


Hvernig nýti ég endurheimtarvikur?

Þótt endurheimtarvikur séu frekar þægilegar vikur æfingalega séð, þá þýðir það ekki að ég geri ekki neitt. Ég æfi oftast sex daga vikunnar og 3-4 sinnum tvisvar á dag í svona vikum. Hinsvegar eru æfingarnar mjög þægilegar þar sem lungunum líður vel allan tímann. Það er mikið af rólegu skokki en ég tek líka drilluæfingar, hopp, lyftingar og nota nuddrúlluna mikið. Að sama skapi nota ég tímann í að fara í auka gufu. Þetta er allt gert til að endurheimta styrk, ferskleika, liðleika og sprengikraft sem eru allt þættir sem geta minnkað þegar við erum í miklu hlaupaálagi.

Það sem er einna erfiðast við endurheimtarvikur er þreytan sem óumflýjanlega kemur. Þótt ég sé að æfa minna en venjulega og taka auðveldari æfingar þá er líkaminn búinn að vera í miklu álagi vikurnar á undan og þess vegna upplifir maður þreytu í endurheimtarviku. Annars væri líklega óþarfi að taka endurheimtarviku.


Það er andlega erfitt að taka endurheimtarvikur.

Það skiptir eiginlega engu máli hversu oft ég tek endurheimtarvikur, mér finnst alltaf eins og ég eigi að vera ferskari í vikunni sjálfri því álagið er minna. Það er hinsvegar ekki endurheimtarvikan sjálf sem á að vera með ferskleika því það eru vikurnar í kjölfarið sem verða þeim mun betri. Þetta getur verið mikil þolinmæðisvinna að bíða eftir að líkaminn endurheimti allt og verði tilbúinn í meiri gæði en er á endanum nauðsynlegt til að forðast meiðsli og halda áfram að sjá jafnar bætingar.


Er mjög spenntur að mæta með líkamann í toppstandi til Kenía í 2500 m hæð og leggja grunninn að góðu sumri en fram að því tel ég niður dagana þangað til að líkaminn gefur grænt ljós á gæðaæfingar.

Comments


bottom of page