top of page
Writer's pictureArnar Pétursson

Brekkur og vindur

Brekkur og vindur eru einkennandi fyrir íslenskar aðstæður en eru sjaldnast eitthvað sem hlauparar taka fagnandi. Það er kannski meðvindurinn og hlaup niður brekkkur sem eru örlítið peppandi en oftar en ekki er þetta mótvindur í allar áttir.

Flogið niður Esjuna. Mynd eftir Þorstein Roy

Viðhorfið skiptir máli

Það er rosalega auðvelt að pirra sig á mótvindinum og finnast brekkurnar hægja allt of mikið á okkur. Hvað þá ef við erum að hlaupa upp brekku í góðum mótvind, ah Ísland.


Það sem við hlauparar þurfum því að gera er að læra að fá brekkurnar og vindinn til að vinna með okkur. Þannig verður andlega auðveldara að tækla aðstæðurnar í hlaupinu sjálfu, hvort sem það er á æfingu eða í keppni.


Það fyrsta sem ber að hafa í huga þegar við förum út að taka æfingu er að reyna eftir fremsta megni að hafa fyrri hluta æfingarinnar á móti vindi og upp brekku. Þetta á sérstaklega við þegar við erum að taka rólegt skokk, langan túr eða aðra æfingu þar sem við erum að vinna á sama hraðanum allan tímann en ekki að taka spretti. Hérna er hægt að hlusta á stutta sögu þar sem ég klúðraði þessu allsvakalega.


Ef æfingaprógrammið segir rólegt skokk í 60 mínútur og veðrið er slæmt er best að hlaupa í 30 mínútur í mótvindi og svo snúa við og fá 30 mínútur í meðvindi. Þetta er miklu auðveldara andlega heldur en að hlaupa í hring og breyta alltaf um átt, svo ég tali nú ekki um að enda á 30 mínútum í mótvindi. Að byrja í mótvindi er auðveldara, því þarna er æfingin í rauninni bara 30 mínútur og svo látum við okkur fjúka til baka, eða þannig eigum við að hugsa á meðan á skokkinu stendur.


Brekkur

Brekkur eru hluti af því að hlaupa á Íslandi og til þess að fá þær til að vinna með okkur er mikilvægt að æfa sig að hlaupa í brekkum. Það er ekki sami hlaupastíll sem við notum þegar við förum upp og þegar við förum niður brekkur.

Gervigreindin bjó til þessa mynd

Hlaupatips

Þegar við förum upp er mikilvægt að hafa háa skrefatíðni og taka mörg skref á mínútu, til þess að forðast að við séum að lenda á hælnum. Ef við lendum á hælnum er brekkan að stoppa okkur sem og við sjálf.


Þegar hlaupið er niður brekkur sést hverjir hafa hagkvæman hlaupastíl, því þá gefst okkur kostur á að „hvíla“ okkur en samt hlaupa nokkuð hratt. Ef við getum náð að slaka á líkamanum niður brekkur getum við haldið góðum hraða en á sama tíma náð púlsinum niður. Ef við höfum óhagkvæman hlaupastíl eigum við erfiðara með þetta og þar af leiðandi náum við ekki að nýta brekkurnar, það er því ágætt að fylgjast með hvort púlsinn sé ekki örugglega að lækka þegar við förum niður brekkur því annars er það merki um að við séum að búa til óþarfa spennu í líkamanum. Getur verið að efri líkaminn sé að spennast of mikið eða að við erum að lenda of harkalega og ekki ná að vera nægilega snögg af jörðinni. Þetta er eitthvað sem við þurfum að vinna markvisst í á æfingum og þá verða brekkurnar andlega auðveldari þegar kemur í keppnina.


Þegar við erum á æfingum og hlaupum upp eða niður brekku, eigum við að líta á það sem aukaæfingu inni í æfingunni og æfa það að breyta um hlaupastíl eins og við myndum gera í keppni. Ekki horfa á brekkuna á æfingunni sem eitthvað slæmt, heldur sem tækifæri til að verða betri í að hlaupa upp eða niður brekku og æfa hlaupastíl sem hentar betur við ólíkar aðstæður.


Því fyrr sem við samþykkjum að vindur og brekkur eru óhjákvæmilegur hluti af hlaupum á Íslandi því betur gengur okkur í hlaupunum. Í það minnsta erum við búin að taka út einn lítinn andlegan höfuðverk.

Comments


bottom of page