top of page
Writer's pictureArnar Pétursson

Berlínarmaraþonið

Berlínarmaraþonið er líklega þekktasta maraþon í heimi. Þarna hefur heimsmetið verið slegið 11 sinnum í heildina hjá öllum kynjum og nú síðast árið 2018 þegar Eliud Kipchoge slátraði metinu um 1 mínútu og 18 sekúndur, eða úr 2:02:57 niður í 2:01:39. Í ár mætir hann aftur til leiks og þar sem hann er stærsta stjarnan í hlaupaheiminum í dag mun þessi umfjöllun mestmegnis snúast um hann og hans hlaup.

Eliud Kipchoge að koma í mark eftir að hafa slegið heimsmetið

Margir Íslendingar kannast einnig við hlaupið þar sem Kári Steinn sló íslandsmetið og náði fyrstur karla Ólympíulágmarki í maraþoni. Berlín virðist þannig hafa margt að því sem þarf til að ná góðum tíma í maraþoni. Það er því ekki furða að þátttakendur hafi verið komnir í yfir 44 þúsund árið 2019, allir vilja jú ná eins góðum tíma og mögulegt er.


Af hverju Berlín?

Kipchoge og Berlín eru bæði þekkt fyrir að brjóta múra en 2019 varð Kipchoge fyrsti maðurinn til að hlaupa undir tvo tíma í maraþoni. Þetta var þó ekki löglegt met þar sem það var notast við ýmis hjálpartæki sem ekki eru leyfð í venjulegum hlaupum og þá aðallega að hafa héra og bíl sem stjórna hraðanum fullkomlega. Í rauninni hefði verið ekkert mál að gera hlaupið löglegt ef það væri hægt að finna hlaupara sem gætu haldið uppi hraðanum nógu lengi fyrir Kipchoge. Við þyrftum þannig bara að hafa sirka sex hlaupara sem eru jafn góðir og Kipchoge og þá væri þetta hægt, einfalst mál...

Einnig var brautin sérstaklega útbúin til að vera eins hröð og mögulegt væri. Alveg flöt, í skjóli og með lítið af beygjum. Þessi braut var sett upp í Vín en Berlín er einmitt það maraþon í heiminum sem líkir hvað best eftir þessari braut.


Flatt er hratt

Berlínarmarþonið er með eindæmum flatt og inniheldur fáar krappar beygjur. Ekki nóg með það heldur er malbikið einnig mjög flatt. Þegar við tölum um flatt malbik þá getur þú prófað að líta á malbikið á göngustígnum sem þú ferð næst að skokka rólega og sjá hversu stór partur af skónum þínum snertir virkilega malbikið. Flatt malbik er þegar við rennum áreynslulaust áfram á hlaupahjólum en slíkt undirlag er sjaldgjæft á Íslandi. Auk þess er veðrið í Berlín oftast í kringum þessar 5-15 gráður þannig ekki of heitt og ekki of kalt. Þá þarf líkaminn ekki að eyða orku í að kæla sig niður eða halda á sér hita. Öll orkan fer í að hlaupa hratt.

Maraþonið á sunnudaginn

Á sunnudaginn verða allra augu á Eliud Kipchoge en þetta gæti verið með síðustu tækifærum hans til að slá heimsmetið sitt en hann verður 38 ára í nóvember. Ég hlakka sérstaklega mikið til að fylgjast með þessu enda verð ég að lýsa hlaupinu í beinni á RÚV 2 á sunnudaginn klukkan 07:00. Þrátt fyrir að Kipchoge sé skráður sem 37 ára hafa ýmsar vangaveltur verið um raunverulegan aldur. Ég sjálfur vona að hann sé eldri en hann er þar sem það myndi í raun endurskilgreina margt í tengslum við dvínun á árangri með aldrinum.


Sjálfur hefur Kipchoge sagst ætla að stefna á persónulega bætingu sem þýðir einfaldlega að hann ætli að setja heimsmet. Keppnin verður að þessu sinni í besta falli meðalsterk en aðeins einn annar hlaupari hefur farið hraðar en 2:04 og það er Guye Adola sem sigraði hlaupið í fyrra og hélt í við Kipchoge lengi vel árið 2017.

Það er ljóst að þetta verður gríðarlega spennandi að fylgjast með og líklega eitt af síðustu skiptunum til að sjá Kipchoge hlaupa í sínu besta formi.

Comments


bottom of page