Númerið sem var að detta af mér síðustu 10 km skilaði sér sem betur fer með mér í markið. Ákvað rífa það af og halda á því í markið, ákveðin stemning í því.
Undirbúningur
Fyrir hlaupið höfðu svo til allar maraþongæðaæfingar gengið upp, það var ekki nema hálfa í Reykjavíkurmaraþoninu þar sem ég var smá veikur sem ég náði kannski ekki öllu úr mér, engu að síður mjög góð æfing í bankann. Fór svo í kjölfarið í 17 daga í 1800 m hæð í St. Moritz þar sem ég fínpússaði formið. Æfingarnar fyrir hlaup voru að gefa til kynna að ég gæti verið á í kringum 2:17 ef nákvæmlega allt myndi ganga upp. Þetta er svokallað draumamarkmið og var ekki á dagskrá í dag en gott að vita af þessu upp á framhaldið. Markmiðið fyrir hlaup var fyrst og fremst að eiga gott hlaup, vera skynsamur, hafa gaman, klára sterkur og sækja bætingu en besti tíminn minn fyrir þetta hlaup var 2:23:08. Allt undir það væri sigur. Eða eins og er stundum sagt, það er dónalegt að vera ekki sátt við bætingu.
Hlaupið sjálft
Ég tek enga upphitun fyrir maraþon heldur bara labb í startið, hreyfiteygjur og virkni æfingar. Í startinu var ég ef til vill ekki nógu frekur en það var eiginlega ekki fræðilegur að troða sér alveg fremst. Var með svona 200 manns á undan mér og byrjaði í smá þvögu en eftir 4 km var ég kominn í grúppu með hérum þannig ég var sáttur. Fannst þau samt fara mögulega aðeins of hægt og stutt í næstu grúppu sem var með fyrstu konunum. Ég byrjaði að auka og ætlaði að ná þeim en hætti við eftir 2 km þar sem ég fann að þetta væri of mikil áhætta, hraðinn var kominn í 3:10 og ég var ekki klár á því hvort þau myndu halda svoleiðis hraða eða hvernig þetta þróast, þarna hefði mögulega verið annað upp á teningnum ef ég hefði náð að byrja framar og getað verið með þessari grúppu frá byrjun en ekki þurft að auka til að ná þeim en allt í góðu. Leyfði hinni grúppunni að ná mér hægt og bítandi og ákvað að vera bara sáttur þarna. Þau voru að rúlla á 2:20 sem líklegum lokatíma þannig góð bæting ef ég myndi hanga með þeim. Eftir á að hyggja er þetta munurinn á milli þess að hlaupa mögulega undir 2:19 eða vera á 2:20, þar sem grúppan á undan fer í gegn á sirka 1:09:30 sem hefði verið fullkomið en ég ákvað að vera skynsamur í dag. Gott að vita af þessu og eitthvað sem verður haft í huga í næsta hlaupi.
Að sama skapi var líka góð ákvörðun að leyfa hinni grúppunni að ná mér enda hraðastjórnunin þarna fullkomin og allir að vinna saman. Ég náði öllum sex drykkjunum mínum og gel inntaka var upp á tíu. Orkan mjög góð allan tímann. Það mætti segja að þetta hlaup hafi einkennst af skynsemi en ég ákvað að taka sem fæstar áhættur þar sem þetta var góð grúppu og bæting alltaf að fara að detta inn. Ég hélt mig aftast í grúppunni og færði mig alltaf ofar eftir því sem fleiri byrjuðu að hægja á. Mér leið rosalega vel allan tímann og fékk mikinn kraft úr því að vera í svona grúppu. Eftir á að hyggja hefði ég getað farið að auka mun fyrr en það er líka snilld að vita af því fyrir næsta hlaup. Það var ekki fyrr en um 40 km sem ég segi skilið við grúppuna og byrja að auka sjálfur, var eiginlega pabba að þakka þar sem hann öskraði á mig að byrja nú að auka. Stundum dettur maður í bara ákveðinn takt og bara gleymir sér í augnablikinu og þá er gott að fá smá öskur um að gefa aðeins í.
Kom fljúgandi í markið á mjög skemmtilegum lokatíma. Einhver myndi segja að maður væri grátlega nálægt að fara undir 2:20 en 2:20:04 var niðurstaðan og 3:18 meðalpace sem mér finnst helvíti skemmtilegt. Ég lít á þetta að ég er með fullkomið markmið fyrir næsta hlaup og þó ég bæti mig bara um nokkrar sekúndur þá verður það samt risastór múr sem er fallinn. Miðað við að fara 2:19:59 núna og svo kannski 2:19:40 næst, augljóst hvort er skemmtilegra. Er líka ótrúlega ánægður með þriggja mínútna bætingu og alls ekki sjálfsagt að eiga svo skemmtilega upplifun af maraþoni. Er fáránlega sáttur og það sem er best við þetta er að ég er mjög spenntur að fara í næsta maraþon.
Takk
Gæti ekki verið heppnari með fólkið í kringum mig, takk fyrir allt peppið á Insta og Facebook, þetta skilar sér alltaf beint í hjartað.
Verð líka að þakka þeim fyrirtækjum sem styðja við bakið á mér. Allt saman frábært fólk þarna og með viljann til að gera hlaupin ennþá flottari á Íslandi.
Comentarios