top of page
Writer's pictureArnar Pétursson

Árið 2023

Ég viðurkenni að ég trúi ekki að þú getir náð árangri án þess að setja þér markmið. Markmiðið á samt ekki að vera upphafið og endirinn heldur eru það gildin sem stjórna því hvernig við gerum hlutina svona yfirleitt. Markmiðin eru bara ákveðnar vörður til að gera ferðalagið skemmtilegra og áhugaverðara. Ég er síðan ekkert að finna upp hjólið þegar ég segi að það sé sniðugt að líta til baka og sjá hvernig gekk að fylgja vörðunum og skoða hvert þær gætu leitt okkur á næsta ári. Hérna ætla ég því rétt að rekja árið 2023 og gefa smá innsýn í minn þankagang sem getur vonandi nýst öðrum þegar þau líta yfir sitt ár.


Aðdragandinn

Eftir Laugaveginn árið 2022 setti ég mér eiginlega strax það markmið að ég ætlaði að æfa markvisst fyrir hlaupið árið 2023 í staðinn fyrir 8 vikna undirbúninginn árið 2022. Í upphafi árs var því hausinn í hækkunum. Það er mikilvægt að stilla árinu markvisst upp ef maður vill toppa á réttum tíma þannig að aðalfókusinn til að byrja með var einfaldlega að ná inn kílómetrum, æfa vel og forðast meiðsli. Allt þetta gekk gríðarlega vel og svo í apríl fór ég í fyrstu löngu æfingabúðirnar eftir að verða faðir. Þetta voru rúmar fimm vikur í Kenía í 2400 m hæð. Þessar æfingabúðir gengu vægast sagt vel þótt ég hafi upplifað alvöru heimþrá í fyrsta skipti en þetta var í þriðja sinn sem ég fer þangað að æfa. Það sem var frábrugðið núna var að allar æfingar voru teknar í brekkum til að undirbúa fyrir Laugaveginn en líklega er eftirminnilegasta æfingin sú þegar við keyrðum í tæpar 90 mínútur á mjög svo tæpum vegum til að hlaupa upp brekku í 24 km, án afláts. Þetta var ótrúleg upplifun því brekkan var ekki mjög brött en hún hélt endalaust áfram. Þegar ég horfi til baka er þessi æfing líklega hápunkturinn hvað varðar æfingar ársins því hún setur allar aðrar brekkur í annað samhengi og tilfinningin að komast upp á topp var nánast eins og að sigra sjálfan Laugaveginn.

Á leiðinni upp brekkuna í Kenía

Landslið og Laugavegurinn

Laugavegurinn fer fram um miðjan júlí þegar hlaupasumarið stendur hvað hæst. Í þetta sinn voru líka landsliðsverkefni eins og Smáþjóðaleikarnir og HM í utanvegahlaupum. Það er mjög erfitt að mæta í toppformi í öll þessi verkefni en þá snýst þetta um að haga æfingaálaginu rétt. Smáþjóðaleikarnir gengu í rauninni vel en ég bætti íslandsmet í 10.000m í braut fyrir aldurinn 30-34 ára. Persónulega finnst mér þetta reyndar fullungt til að byrja að skipta niður í aldursflokka en engu að síður skemmtilegt afrek. 

HM í utanvegahlaupum gekk því miður ekki eins vel þar sem ég fékk magakrampa tiltölulega snemma í hlaupinu, mögulega var það hitinn, það að ég datt í niðurhlaupi að reyna að komast framhjá hlaupurum og lenti með magann á trjábol eða eitthvað annað. Hinsvegar ákvað ég að taka skynsemina á þetta og ekki halda áfram þar sem mér fannst ég eingöngu geta skakklappast restina. Ferðin í heild sinni var samt mjög skemmtileg og virkilega flottur hópur sem Ísland sendi til leiks, ég verð svo eiginlega að nefna afrek Snorra Björns sem er búinn að taka ultra hlaupin fáránlega vel.


Eftir HM fann ég hvernig æfingabúðirnar í Kenía voru byrjaðar að skila sér en þegar maður æfir í svona miklu magni eða í kringum 170-200 km í fimm vikur getur það tekið aðrar fimm vikur að finna formið virkilega koma inn. Þetta er oft mikil þolinmæðisvinna og skiptir þarna öllu máli að gera ekki of mikið. Það var svo akkúrat 17 og 18. júní sem formið mætti til leiks. Þá hljóp ég í Gullsprettinum 17. júní og sló brautarmetið þar og daginn eftir sló ég brautarmetið í tveimur ferðum í Mt. Esja Ultra þegar ég fór á tímanum 1:19:35. Þetta er fyrir mér líklega besta hlaupið mitt á árinu en þarna fann ég hvað styrkurinn í fótunum var orðinn mikill og núna væri aðalverkefnið að viðhalda forminu og passa að toppa á réttum tíma sem væri eftir um mánuð í Laugaveginum. 


Ég mætti á ráslínuna í Laugavegshlaupið í án efa mínu besta utanvegaformi og byrjaði hlaupið mjög vel. Reyndar lýg ég því þar sem ég ruglaðist strax á leiðinni í byrjun og þurfti að bíða eftir næstu mönnum og spyrja hvort ætti að fara til hægri eða vinstri. Eftir það var förinni heitið í Þórsmörk. Ég skrifaði tvo pistla um hlaupið fyrr á árinu og er hægt að lesa þá hér. Í stuttu máli fékk ég aftur aðeins í magann eftir um 18 km og var því kannski full passasamur í hlaupinu, auk þess var ég einn í hlaupinu og lenti mögulega í því að verja forystuna í staðinn fyrir að keyra á tímann. Í rauninni hélt ég samt að ég væri alveg með brautarmetið, nema gleymdi að reikna með að leiðin var lengri í ár þar sem það var minni snjór og því voru gilin dýpri. Engu að síður mjög sáttur með að vera fyrstur í mark á tímanum 4:00:46. Hápunkturinn og hápunktur ársins var samt að knúsa Sölku og Söru í markinu og hanga svo með mömmu og pabba og Ella og Elís Arnari sem keyrðu alla leið til að fylgjast með. Í rauninni er það einn af hápunktunum við hlaupið að fylgjast með öllum aðstandendunum fagna sínu fólki þegar það kemur í mark, ólýsanleg stemning sem sýnir að þótt hlauparar eru í einstaklingsíþrótt geta þeir haft áhrif á svo marga í kringum sig.


Seinni hluti árs og meiðsli

Eftir Laugaveginn tók ég góðar þrjár vikur í hvíld og ætlaði svo að stefna á NM í víðavangshlaupum í byrjun nóv og mögulega hlaupa maraþon í kjölfarið. Æfingar gengu gríðarlega vel og fannst mér ég vera að komast í mitt allra besta form. Ég sigraði öll hlaupin í Víðavangshlaupaseríu Framfara og varð íslandsmeistari í Víðavangshlaupum. Því miður lenti ég svo í kjölfarið í því að fá mín fyrstu alvöru meiðsli á ferlinum. Ég segi fá, því þetta er ákveðin gjöf þar sem hægt er að læra svo mikið af því að lenda í sjálfur í meiðslum. Hásinarbólga var í pakkanum og núna voru góð ráð dýr. Eftir að hafa rannsakað þetta í þaula, talað við sjúkraþjálfara og fleiri fleiri aðila þá byrjaði ég á endurhæfingu. Markmiðið var að vera alltaf 1-2 vikum eftir á í endurhæfingunni. Semsagt ef ég gæti byrjað að hlaupa, þá myndi ég halda áfram að stunda högglausar æfingar í 1-2 vikur í viðbót og svo byrja að hlaupa. Þessi nálgun hefur gengið mjög vel þrátt fyrir að vera auðvitað ótrúlega erfið því ég hljóp ekki skref í sjö vikur sem er það lengsta sem hefur liðið á milli hlaupa hjá mér síðan ég var sirka tveggja ára, samkvæmt áreiðanlegum heimildum móður minnar.


2024

Núna miða æfingar að því að hlaupa gott maraþon á næsta ári. Ég er skráður í Berlínarmaraþonið í lok september en einnig langar mig að hlaupa maraþon í vor. Ég veit að ég á töluvert inni í maraþoninu og væri líka gaman að bæta tímana í hálfu maraþoni 1:06:08 og 10 km 30:24. 


Það sem mig langar líka að halda áfram að gera er að dreifa meira af hlaupafróðleik til allra sem hafa áhuga á því og svo er búið að vera rosalega gefandi að aðstoða magnað fólk í að ná sínum markmiðum í hlaupunum. Vonandi verður veturinn stuttur og sumarið langt. Gleðilegt nýtt ár :)


Comments


bottom of page