top of page

Árið 2022

Það er hollt og gott að líta aðeins yfir farinn veg þegar nýtt ár er að byrja. Það getur bæði hjálpað við að sjá hvert er verið að stefna og svo auðveldar það manni að rata. Ég geri þetta sjálfur reglulega þegar ég er að hlaupa á nýjum stöðum, að líta til baka, því allt sem var áður á vinstri hönd er núna á hægri hönd, eftir því hvort þú ert að koma eða fara. Hef brennt mig á þessu áður og villst á leiðinni til baka þótt ég hafi verið að fara sömu götur. Fannst alltaf eins og ég væri á nýjum stað.

Mynd til að sýna muninn á að horfa til vinstri og hægri, alls ekki af því að ég er eitthvað nettur á strönd...

Það var merkilega næs að byrja árið á Tene þótt ég kjósi frekar að vera í snjónum á Íslandi og svo kannski flýja land síðar í janúar. Í upphafi árs var ég frekar markmiðalaus fyrir utan að ég ætlaði að stefna á íslandsmótið innanhús í 1500m og 3000m og bæta hraðann í 800m. Ég vildi ekki negla niður nein markmið eftir febrúar því við áttum von á barni um miðjan mars og ég vildi ekki hafa sett eitthvað á dagskrá sem gæti riðlast eftir því hvernig myndi ganga með barnið.

Innanhústímabilið fór svo ótrúlega vel en ég bætti mig í 800m og varð íslandsmeistari í 1500m og 3000m. Eftir það tók ég viku hvíld þar sem það var ekki þörf á heilu tveggja eða þriggja vikna hvíldartímabili eftir keppni í styttri vegalengdum. Núna var svo staðan þannig að ég hafði góðan hraða í löppunum en næst á dagskrá var að verða faðir.

Salka Sigrún

Sem betur fer gekk allt eins og í sögu og Salka Sigrún svaf eins og engill og Sara var ótrúleg. Þar af leiðandi gat ég æft virkilega vel en ég var ennþá í smá lausu lofti upp á hvað ég vildi stefna á, fyrsta markmiðið var samt bara að koma sér í mjög gott grunnform og geta svo tekið ákvörðun síðar á tímabilinu. Það var ekki fyrr en í maí eftir að ég hljóp í Puffin Run og settti brautarmet að ég fór að velta fyrir mér möguleikanum að hlaupa Laugaveginn í fyrsta skipti. Það kveikti einhvern neista og þegar það gerist er langbest að elta hann.

Sigur í Laugaveginum og Reykjavíkurmaraþoninu og svo ný þjálfun með Styrk & Hlaup.

Að koma fyrstur í mark í Laugaveginum var svo klárlega hápunktur ársins hvað hlaupin varðar en er samt sirka sautján sætum neðar en fæðing Sölku Sigrúnar. Stemningin í kringum hlaupið og heildarupplifunin var eitthvað sem ég ætla að stefna aftur á á næsta ári. Það sem ég ætla svo alls ekki að gera aftur er að hlaupa bæði Laugaveginn og maraþonið í Reykjavík á sama tímabilinu. Þótt það hafi gengið upp í ár þá fann ég að það var of mikið álag og ekki eitthvað sem ýtir undir langtíma árangur. Ég tók mér því alveg þrjár vikur í algjöra hvíld eftir Reykjavíkurmaraþonið.


Á þeim tíma þá fór ég og Indíana Nanna af stað með þvílíkt skemmtilega þjálfun sem við köllum Styrkur & Hlaup. Okkur langaði að sameina þetta tvennt og búa að sama skapi til smá samfélag fyrir fólk sem er að taka fyrstu skrefin eða vill fá nýja sýn á hlaupin. Þetta hefur gengið framar vonum og það sem er líka best við þetta er hvað mér finnst gaman að taka þátt í þessu og sjá framfarirnar.

Ég hef mjög gaman af því að hlaupa en finnst líka fátt skemmtilegra en að sjá aðra ná árangri. Sérstaklega þegar við forðumst meiðsli í leiðinni. Síðasta ár var einstaklega skemmtilegt hvað varðar þjálfunina. Að þjálfa hlaupara á Heimsmeistarmótinu í utanvegahlaupum og að hjálpa fólki að taka fyrstu skrefin hefur verið álíka gefandi. Það var svo einkar mikill heiður að vera valinn utanvegahlaupari ársins og þjálfa götuhlaupara ársins kvenna megin.


Þótt að upphaflega markmiðið hafi verið að verða eins góður þjálfari og mögulegt væri til þess að ég gæti nýtt mér það, þá er ég alveg viss um að ég muni halda áfram að aðstoða aðra svo lengi sem ég get.

Árið 2021 gekk líka mjög vel og það þýddi að ég byrjaði árið 2022 að taka við verðlaunum fyrir að vera Afrekskarl Breiðabliks, Íþróttakarl Kópavogs og Afrekskarl UMSK. Þessi verðlaun skipta mig ótrúlega miklu máli og svona utanaðkomandi viðurkenningar eru gríðarleg hvatning fyrir framhaldið. Mér finnst samt gott að finna núna þegar ég skoða árið að það eru ekki verðlaunahátíðarnar sem vekja sterkustu minningarnar heldur frekar Salka Sigrún, hlaupin og fólkið í kringum mann sem skiptir mestu máli.

Að taka þátt í ferðalagi fólks er eitthvað sem allir geta gert.

Að skrifa svona pistil og líta um öxl virkar sem góð áminning að njóta hvers skrefs í ferðalaginu og ekki taka þessu sem sjálfsögðum hlut. Mér finnst þetta hjálpa mjög mikið við að rata áfram veginn, að vita hvaðan við komum gefur okkur færi á að sjá hvert við viljum fara.


Gleðilegt nýtt ár fam.


Comments


bottom of page